Margæs (Margæs (Branta bernicla). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Uppfyllingar í Skerjafirði skaða alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Ólafur Karl Nielsen formaður Fuglaverndar og Jóhann Óli Hilmarsson fyrrum formaður Fuglaverndar birtu grein í Kjarnanum 6. febrúar 2022 til varnar lífríki Skerjafjarðar.

Skerja­fjörð­ur, grunn­sævi og fjör­ur, er flokk­aður sem alþjóð­lega mik­il­vægt fugla­svæði og því ræður m.a. fjöldi þeirra grá­gæsa, margæsa, æðar­fugla, síla­máfa og send­linga sem þar búa eða fara um vor og haust. Kópa­vogur og Garða­bær hafa fyrir löngu sam­þykkt form­lega vernd síns hluta Skerja­fjarð­ar. Reykja­vík hefur ekki stigið það skref og ætlar með þessari landfyllingu að skerða verulega búsvæði þessara fugla og fjölda annarra sem koma þarna við árið um kring.  Fuglavernd vill benda á að búsvæðamissir er helsti áhrifaþáttur líffræðilegrar fjölbreytni og margt smátt gerir eitt stórt.  Endilega lesið þessa grein en hana má finna hér.

 

Smáfugladrápi með lími og haglabyssum linnir ekki á Kýpur- hvað getum við gert?

Systurfélag Fuglaverndar á Kýpur sendi ákall um hjálp.

Eftir að hafa með þrotlausri vinnu í 20 ár tekist að fá veiðar á smáfuglum í farflugi bannaðar á Kýpur þá breytti þingið nýverið  lögunum aftur og lækkuðu sektir úr 2000 evrum í 200 fyrir brot á lögunum. Eins og þekkt er hafa þessar veiðar farið fram með lími á greinum og haglabyssum.  Meðal þeirra 14 tegunda sem eru mest vinsælar til veiðar og flokkast sem “lostæti” eru fuglar sem sjást árlega hér á landi: Hettusöngvari (sylvia atricapilla), bókfinka (fringilla coelebs), gráspör (passer domesticus), laufsöngvari (phylloscopus trochilus), gransöngvari (phylloscopus collybita) og glóbrystingur (erithacus rubecula).

BirdLife Cyprus vilja ná 15000 undirskriftum til að til að leggja fyrir þingið. Fuglavernd ásamt öðrum félögum í náttúruvernd hafa ljáð málinu stuðning. Félagar í Fuglavernd sem og utanfélags geta skráð nafn sitt á undirskriftarlista sem má finna hér.

Hér er frétt um málið á heimasíðu BirdLlife Cyprus

 

 

Hér er hægt að skrifa undir

 

 

Margæs (Margæs (Branta bernicla). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Þrengt að fuglalífi við Bessastaðatjörn – ályktun send

Vegna ábendinga fóru fulltrúar frá Fuglavernd og Landvernd að skoða svæði á Norðurnesi á Álftanesi þar sem til stendur að byggja  golfvöll. Hann mun þrengja að fuglalífi og þeir sem þekkja til sjá væntanlega fyrir sér margæsir vappandi um völlinn á meðal golfspilara.

Landvernd og Fuglavernd hafa kynnt sér drög að deiliskipulagi á Norðurnesi. Uppdrátturinn sýnir að áformað er að fara með golfvöllinn alveg niður að bökkum Bessastaðatjarnar. Þá er svæðið á milli tveggja læna sem ganga vestur úr Tjörninni notað sem „græna (green)“. Gangi þessi áform eftir mun þrengja mjög að fuglalífi við Bessastaðatjörn sem skýrslur um fuglalíf sýna að er bæði mikið og vermætt. Svæðið eins og það er í dag hefur einnig mikið upplifunargildi fyrir bæði íbúa og gesti. Hætt er við að þetta spillist ef farið verður að þessum tillögum.

Félögin hafa sent ályktun til Garðabæjar vegna málsins sem má finna hér .

Álftir, með unga á bakinu

Fuglavernd mótmælir þingsályktunartillögu um leyfi til veiða á álftum og gæsum

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, 312/151 þáltill.: leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma

Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir. 

Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.  

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er bent á að líklega sé álftin skotin ólöglega en rannsóknir í Bretlandi þar sem álftir voru gegnumlýstar sýndu að um 13% íslenskra álfta væru með blýhögl í líkamanum. Sjá: https://fuglavernd.is/2019/10/11/alftir-eru-skotnar-a-islandi-og-thad-er-ologlegt/ 

Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.

Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að

bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.

Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.

Sjá bréf sent nefndasviði Alþingis í heild sinni undir Ályktanir og umsagnir

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Jólarjúpan 2020 – Hvað getum við gert?

Rjúpa. Ljósmynd © Daníel Bergmann

Veiðistofn rjúpu metinn sá minnsti frá því mælingar hófust

Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995.

Sjá nánar: Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands: frétt Veiðiþol rjúpnastofnsins 2020 og greinargerð: Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2020.

Ábyrgð neytenda

Hvað getum við gert? Við neytendur berum mikla ábyrgð á því að lágmarka eftirspurn þegar staðan er þessi. Vert að minna á sölubann í fullu gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Því er: “ Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.”

Ábyrgir neytendur hugsa sig líka tvisvar um áður en þeir þiggja rjúpu eða rjúpnaafurðir að gjöf eða taka þátt í neyslu rjúpnaafurða þar sem þær verða í boði.

Það eru fjölmargar aðrar vörur í boði, ekki hvað síst með auknum vinsældum jurtaafurða. Er því ekki tilvalið að gefa jólarjúpunni í ár jólafrí?

Ábyrgð veiðimanna

Hvað geta veiðimenn gert? Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SV landi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands. 

Þessu til viðbótar árið 2020 eru veiðimenn einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglavernd mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum við vesturjaðar friðlandsins við Ástjörn í Hafnarfirði

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vesturjaðar friðlandisins við Ástjörn í Hafnarfirði, hefur Fuglavernd sent Hafnarfjarðarbæ mótmæli. Sjá undir Um Fuglavernd > Ályktanir og umsagnir.

Ástjörn í Hafnarfirði er friðlýst svæði síðan 1978 og var það stækkað 1996.

Haldið köttum inni á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)

 – skógarþröstur

 – svartþröstur

 – stari

– snjótittlingur

– auðnutittlingur

– þúfutittlingur

Aðgerðir sem draga úr afráni katta *

Kattaeigendur geta gert ýmislegt til að draga úr tjóni á náttúru af völdum útikattar:

  1. Stýra útivistartíma kattarins. Hafa skal í huga að bráð veiðist helst þegar hún er hvað virkust. Þetta þýðir að lítil nagdýr veiðast helst að nóttu til en fuglar helst að degi til, sérstaklega snemma morguns (u.þ.b. kl. 5-9) og síðdegis (u.þ.b. kl. 17-21) (miðað við sumarvirkni). Kettir sjá hins vegar verr í mikilli birtu, sem dregur úr veiðiárangri þeirra yfir daginn. Einnig eru fuglar oft viðkvæmari fyrir afráni á varptíma.
    1. Halda ætti öllum köttum inni á nóttunni (helst frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun).
    2.  Sé köttur veiðikló þarf að halda honum inni á varptíma fugla, ef fuglar verpa í nágrenni kattarins.
  2. Nota hjálpartæki til að draga úr afráni. Sé köttur veiðikló þarf að draga úr getu hans til veiða með notkun bjöllu, kraga og/eða svuntu eftir þörfum og aðstæðum. Á þetta sérstaklega við um ketti yngri en 6 ára. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi slíkra hjálpartækja. Kattaeigendur gætu þurft að prófa sig áfram til að finna þá lausn sem virkar best á sinn kött.
    1. Fuglakragi ásamt bjöllu ætti að vera staðalútbúnaður útikattarins og ætti að duga flestum.
    2. Kattasvunta gæti verið nauðsynleg hjá sérlega veiðiglöðum köttum og þeim sem eiga til að klifra í trjám til að komast í
      hreiður.
  3. Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir. Sé köttur saddur og sæll og fær að eltast við leikföng hjá fólkinu sínu er ólíklegra (en þó ekki útilokað) að hann sæki í þá fyrirhöfn og spennu sem fylgir veiðum.
  4. Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum. Þá er gelding útikatta mjög mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir myndun villikattastofna.
  5. Fara reglulega með útiketti í ormahreinsun. Þetta atriði er mikilvægt heilsu kattarins, heilsu manna og heilsu villtra dýra, en kettir eru hýslar ýmissa sníkjudýra sem þeir geta fengið í sig við að veiða villt dýr. Þessi sníkjudýr geta svo fyrir slysni borist úr köttum í menn.

Vilji garðeigendur verja fuglavarp í garðinum sínum fyrir ágangi katta (þeirra eigin eða annarra manna) getur verið ráð að sprauta köldu vatni á köttinn þegar hann gerir sig líklegan til að fara í hreiður (auðvitað á þann hátt að kettinum verði ekki meint af). Sumum hefur reynst vel að hafa garðúðara í gangi með litlum þrýstingi undir hreiðurstað. Þá hefur vatnsúðarakerfi með hreyfiskynjurum gefið góða raun. Einnig fást í dýrabúðum ýmis fælingarefni með lykt sem köttum finnst vond, sem t.d. má setja undir tré með hreiðri. Allt gæti þetta dregið verulega úr áhuga kattarins á viðkomandi hreiðri en óvíst er þó hvort slíkar aðgerðir trufli varpfuglana.

*Brot úr grein: Menja Von Schmallensee, 2019. Heimiliskötturinn. Besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf? Fuglar 12: 36.

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Í vefverslun Fuglaverndar má versla kattakraga. Póstsendum um land allt.

Portúgal: ósar Tagus ánnar í hættu – undirskriftasöfnun

Stjórn Fuglaverndar hefur sent frá sér bréf, bæði til forseta Portúgal og forsætisráðherra þar sem bent er á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Þarna er mikilvægt búsvæði íslenska jaðrakansins (Limosa limosa islandica)

Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport).

Einnig hefur stjórn Fuglaverndar sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni Umhverfis- og auðlindaráðherra bréf um sama efni en þar segir: (Bréfið í heild má finna undir Ályktanir og umsagnir.

Fyrir hönd stjórnar Fuglaverndar vil ég benda á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport). SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Aðstæður eru allar sérkennilegar, svæðið nýtur verndar skv. portúgölskum lögum og er á lista sem Ramsar-svæði, samt sem áður ætla stjórnvöld að knýja þetta fram.

Ósar Tagus-árinnar eru mikilvægasta votlendissvæði í Portúgal. Um 300 þúsund votlendisfuglar fara þar um vor og haust, um 200 þúsund fuglar hafa þar vetursetu og verndargildi þessa svæðis er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Þetta svæði snertir beint fuglaverndarhagsmuni hér á landi þar sem nokkrar af vaðfuglategundum okkar fara þar um vor og haust og íslenskir jaðrakanar hafa þar vetursetu.

SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Sjá nánar á vef þeirra: http://www.spea.pt/en/news/airport-proposal-threatens-one-of-the-most-important-wetlands-in-europe/.

Þá stendur systurfélag okkar í Hollandi fyrir undirskriftasöfnun:

https://www.vogelbescherming.nl/petitie-grutto-lissabon.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Umsagnir um hálendisþjóðgarð, þjóðgarðastofnun og landsáætlun í skógrækt.

Stjórn Fuglaverndar hefur sent Umhverfis- og auðlindaráðuneyti umsagnir um þrjú mál sem eru í ferli í samráðgsátt stjórnvalda.

Umsagnirnar er að finna undir  Verkefnin > Ályktanir & umsagnir.

Þetta eru umsagnir um:

Umsögn um landsáætlun í skógrækt – drög að lýsingu.pdf  Sjá einnig í Samráðsgátt stjórnvalda.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.pdf Sjá einnig í Samráðsgátt stjórnvalda.

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um Hálendisþjóðgarð.pdf. Sjá einnig í Samráðsgátt stjórnvalda.