Loftmynd af Hafnarhólma. Ljósmynd: ©Daníel Bergmann.

Aðdragandi

Magnús Þorsteinsson bóndi í Höfn á Borgarfirði eystra fæddist 1. ágúst 1936 og lést 7. september 2017. Magnús arfleiddi Fuglavernd að hlut sínum í Hafnarhólma og Njarðvíkurlandi. Þetta er ein mesta rausnargjöf sem félagið hefur fengið. Njarðvík er landmikil jörð og Hafnarhólmi er þekktur fyrir auðugt fuglalíf.

Mikil ábyrgð fylgir þessu nýja hlutverki Fuglaverndar sem umsjónaraðila lands og mikilvægt að vel takist til. Ætlun Fuglaverndar er að náttúruvernd, vöktun lífríkis og vettvangsfræðsla til almennings um gangverk náttúrunnar verði ráðandi þættir í nýtingu þessa svæðis til lengri tíma litið.

Landslag og jarðsaga

Aldur Borgarfjarðarsvæðisins hefur einungs verið áætlaður um 10 - 15 milljónir ára, sem fellur vel saman við aldur gróðurleifa, steinrunninna eða kolaðra, sem fundist hafa á svæðinu. Rannsóknir á Dyrfjallaeldstöðinni hafa sýnt að vesturhlið hennar er í Njarðvík en austurhliðin er undir sjávarmáli í Borgarfirði. Þar leynast því frábær rannsóknartækifæri á sviði jarðfræði og jarðsögu.

Hafnarhólmi stendur við austanverðan Borgarfjörð, um 7 km utan við þorpið í Bakkagerði. Hafnarhólminn eða Hólminn var áður eyja en er nú landfastur. Frá náttúrunnar hendi er alger hafnleysa á Borgarfirði eystri. Upp úr 1970 var farið að huga að því að nýta skjól við Hafnarhólma en fram að því höfðu hafnarbætur þar ekki þótt tímabærar með þeirri tækni sem þá var til staðar. Árið 1973 var byrjað á hafnargerð með grjótgarði sem lokaði Hólmasundinu.

Hafnarhólmi er um 2,7 hektarar að stærð. Að austanverðu í Hólmanum eru björg allhá og þar verpa fýll og rita, en Hólminn lækkar mjög til vesturs.  Austast er hæstur Krosshöfði tengdur aðal hólmanum með mjóu eiði (Þröskuldur). Háhöfði er þar hæstur á Krosshöfðanum og þangað upp liggur stigi að góðum útsýnispalli yfir lundavarpið. Nyrsti hluti hólmans er Norður-Hólmi, aðskilinn frá aðal hólmanum með djúpri skoru, Norðurskoru, sem sjór fellur þó ekki í nema í miklum brimum.

Norðaustan við Hólmann rís úr sjó hár og gróðurlaus klettur er nefnist Stapi. Vestanvert á Hólmanum er Heyjavogur en þar var hey borið í báta þegar Hólminn var heyjaður, venjulega um 30 hestburðir en mest 45 hestburðir.

Ljósmynd með örnefnum í Hafnarhólma. Ljósmynd: ©Daníel Bergmann.
Ljósmynd með örnefnum í Hafnarhólma. Ljósmynd: ©Daníel Bergmann.

Hafnarhólmi er eina eyjan á Borgarfirði.... Sunnan við hólmann var, áður hafnargarður kom, lélegt skjól fyrir brimi en þó það skásta við fjörðinn. Það er líklegt að undan Höfn og innan við hólmann hafi lagst skip er til Borgarfjarðar áttu leið.... líklega um allar aldir þangað til þorp óx upp við fjörðinn, í öndverðu knerrir, síðar búsur og kuggur og þá duggur. Að fornu og fram undir einokun munu skip hafa komið við og við að vori og sumri, lagst innan við hólmann í skaplegu veðri og sjólagi og átt frjáls vöruskipti við fjarðarbúa.

(Magnús H. Helgason: Saga Borgarfjarðar eystra útg. 1995, bls. 47).

Fuglafána Hafnarhólma

Við athuganir Fuglaverndar árið 2018 var veður til fuglaathugana í maí-leiðangrinum mjög óhagstætt, mjög hvasst suma daga og rigning með köflum. Komið var á Borgarfjörð um kl. 19:00 þann 18. maí og þá farið í Hafnarhólmann. Þar sem hólminn er friðað æðarvarp og veður voru válind þessa maídaga, þá héldu athugendur sig á göngustígum opnum almenningi en ekki var farið um hólmann utan stíganna.

Veður til fuglaathugana í ágúst-leiðangrinum var líka mjög óhagstætt, rok og mikil úrkoma. Komið var á Borgarfjörð að kveldi 4. ágúst. Þann 7. ágúst hellirigndi meira og minna allan daginn en farið var í Hafnarhólma um kvöldið og þá hafði stytt upp. Fundað með Helgu Erlendsdóttur, umsjónarkonu Hafnarhólma. Árdegis þann 8. var farið frá Borgarfirði og enn rigndi!

Samtals voru skráðar 13 tegundir fugla í Hafnarhólma, þar af voru 12 tegundir varpfugla og ein flækingstegund. Það sem einkennir fuglafánu Hafnarhólmans er þétt sjófuglabyggð þar sem lundi og æðarfugl eru ríkjandi. Einnig eru áberandi rita og fýll í klettum og fáeinar teistur verpa í klettasprungum. Hólminn er ekki stór en iðar af lífi yfir vor og sumar og fuglinn er spakur.

Hafnarhólmi nær því að teljast alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði þar sem um 10.000 pör sjófugla verpa í hólmanum. Af varpfuglum í Hafnarhólma eru 6 tegundir á Válista fugla Náttúrufræðistofnunar Íslands; lundi sem er tegund í bráðri hættu, fýll og teista sem eru tegundir í hættu, og kría, rita og æðarfugl sem eru tegundir í nokkurri hættu.

Hér verða teknir fyrir þeir fuglar sem sáust í athugunum 2018 sem og upplýsingar frá Helgu Erlu Erlendsdóttur (HEE). Fyrst er tegundin nefnd, síðan staða hennar á svæðinu, upplýsingar frá heimamönnum og svo athuganir frá 2018. Eftirfarandi hugtök eru notuð um stöðu einstakra tegunda: varpfugl og flækingur. „Varpfugl“ telst sú tegund sem örugglega hefur orpið í Hafnarhólma, og „flækingur“ er sú tegund sem endrum og eins slæðist á svæðið.

Tenglar á fuglategundum eru yfir á Válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman.

Fýll. Ljósmynd: © Jess Chappell.

Fýll (Fulmarus glacialis) er varpfugl í Hafnarhólma, pörin skipta örugglega tugum.

Grágæs (Anser anser) er árviss varpfugl, dvelur vor og sumar. Fjögur varppör 2018 (HEE). Þrjú pör sáust 18.5.2018.

Rauðhöfðaönd (Anas penelope) hefur orpið í Hólmanum (HEE).

 

Æður (Somateria mollissima) verpur í Hafnarhólma. Umhirða æðarvarpsins hefst áður en fuglinn sest upp og felst m.a. í því að hreiðurskálar eru grafnar fyrir fuglana og gras lagt í.

Fuglinn sest aðallega upp frá 15.-20. maí. Dúnn er hirtur á meðan kollan liggur á, ekki úr hreiðrum eftir klak.

Æðarfugl . Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.
Æðarfugl . © Jóhann Óli Hilmarsson.

Dúnninn er þurrkaður úti og veginn þurr.

Dúntekjan 2018 var 101 kg af óhreinsuðum dún. Miðað við að nýtingarhlutfallið 30% fyrir óhreinsaðan dún og að 60 hreiður þurfi til að ná 1 kg af hreinsuðum dúni þá er áætlaður fjöldi hreiðra æðarfugls í Hafnarhólma 2018 samtals um 1800 hreiður.

Hrossagaukur (Gallinago gallinago) er árviss varpfugl, dvelur vor og sumar. Eitt hreiður var 2017 (HEE). Þann 18.5.2018 heyrðist hrossagaukur hneggja yfir Hafnarhólma.

 

Rita (Rissa tridactyla) er árviss varpfugl í Hafnarhólma. Varpstofninn er ekki þekktur en telur örugglega tugi para.

Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.
Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.

Kría (Sterna paradisaea) varp áður í Norður-Hólmanum en það varp er nú aflagt (HEE).

Lundi (Fratercula arctica) er algengur varpfugl, kemur á vorin og fer síðsumars. Lundinn var háfaður áður fyrr en nýtur nú fullkominnar friðunar (HEE). Reynt var að meta flatarmál lundavarpsins með mælingum á loftmynd í Google Earth. Samkvæmt þeim mælingum er varpið um 7400 m2 að flatarmáli. Samkvæmt Erpi S. Hansen er þéttleiki varphola í Hafnarhólma um 1,12 á m2 .

Miðað við þessar forsendur þá er varpstofninn um 8300 pör.

Teista (Cepphus grylle) er líklega varpfugl. Þann 19.5.2018 sáust 5 teistur norðan megin á milli Krosshólma og Suður Hólma.

Múrsvölungur (Apus apus) er flækingur, fugl sást 7.8.2018 á flugi við Hafnarhólma.

Skógarþröstur (Turdus iliacus) er varpfugl, kemur á vorin og dvelur fram á haust. Hreiður var í kofanum 2018 (HEE).

Maríuerla (Motacilla alba) er varpfugl, kemur á vorin og dvelur fram á haust. Gerir sér hreiður í klettaglufum (HEE).

Músarrindill (Troglodytes troglodytes) hefur orpið við stigann upp í Hólmann (HEE).

Gróður og dýralíf

Þær jurtir sem eru mest áberandi þegar komið er að hólmanum eru: Holurt, öðru nafni fálkapungur (Silene uniflora), geldingahnappur (Armeria maritima), kattartunga (Plantago maritima), burnirót (Rhodiola rosea) og  ólafssúra (oxyria digyna).

Í klettaskorum og utan í klettum við hólmann er víða að finna skarfakál (Cochlearia officinalis). Í norðurhólmanum og yst út á bjargi er melgresi (Leymus arenarius) sem Magnús heitinn í Höfn kallaði hálmgresi. Í sjálfum hólmanum eru engar sjaldgæfar jurtir en þar eru þessar sígildu: kornsúra (Bistorta vivipara), túnfífill (Taraxacum officinale) og brennisóley (Ranunculus acris) auk jakobsfífilsins (Erigeron borealis). Fjöruarfi (Honckenya peploides) og blálilja (Mertensia maritima) vaxa m.a. í Norðurskorunni. Í  öllum staradældum má finna tjarnastör (Carex rostrata) og hrossanál (Juncus arcticus).

Minkur (Neovison vison) sækir öll ár í Hafnarhólma. Minkagildrur, 11 stykki, eru engdar árið um kring í og við hólmann. Sjö minkar hafa náðst frá 2016 og þar af voru 5 fullorðin dýr og 2 hvolpar. Minkur hefur gotið í Krosshöfða í Hafnarhólma og æðarvarp hvarf þá þaðan.

Aðkoma

 

Kort af Austurlandi.
Kort af Borgarfirði.

Til Borgarfjarðar er um klukkustundarakstur frá Egilstöðum. Ekið er gegnum þorpið í Bakkagerði, 7 km áfram austur eftir vegi 94 og þann veg á enda að bílastæði ofan við Borgarfjarðarhöfn. Frá bílastæðinu er gengið niður stiga að höfninni. Við höfnina hefur nú verið reist þjónustuhús fyrir ferðamenn, sem einnig þjónar hlutverki áhaldahúss fyrir útgerðarmenn við höfnina. Salerni er að finna í þjónustuhúsinu.

Aðstaða

Hafnarhólmi er vafalítið einn besti staður á Íslandi til þess að skoða lunda. Lundinn er sjófugl sem hefur vetursetu á hafi úti, en kemur að landi á vori til að verpa. Lundinn sest upp upp úr miðjum apríl og er í Hólmanum þangað til snemma í ágúst.

Í Hafnarhólma hefur verið byggð upp aðstaða til fuglaskoðunar. Frá höfninni er uppganga í hólmann um stiga sem liggur að tveimur útsýnispöllum.

Tekið er á móti frjálsum framlögum í bauk sem staðsettur er á stigapalli en með því móti hefur útsýnispallinum verið viðhaldið frá því hann var reistur. Frá neðri útsýnispallinum liggur göngubrú að fuglaskoðunarhúsi sem getur verið gott skjól til að leita í, sérstaklega ef úti er blautt og kalt. Úr fuglaskoðunarhúsinu má skoða fuglafánu Hafnarhólmans til þriggja átta, með útsýni yfir höfnina. Stiginn heldur áfram upp á efri útsýnispall. Til fræðslu fyrir gesti eru þar skilti á fjórum tungumálum um einkennisfugla hólmans, lunda, æðarfugl, ritu og fýl. Gengið er niður af útsýnispallinum sömu leið og gengið var upp.

Frá höfninni, nokkru sunnar, er annar pallur nokkuð minni og að honum liggja aðeins nokkur þrep. Frá honum má virða fyrir sér bjargið í nokkurri nálægð og skoða þannig rituvarpið.

Umgengni

Vinsamlegast virðið það að á varptíma eru fuglarnir viðkvæmir fyrir truflun af mannavöldum. Nokkrar einfaldar umgenginsreglur sem gott er að hafa í huga:

  • Fylgið merktum gönguleiðum, verið alltaf inni á stiganum, göngubrú og útsýnispalli.
  • Forðist þaulsetur, staldrið aðeins í fuglabyggðinni í hæfilegan tíma.
  • Gangið snyrtilega um skoðunarhúsið. Takið tillit til annarra gesta.
  • Óheimilt er að gista í skoðunarhúsinu.
  • Ef þú kemur með rusl, taktu það þá líka með þér til baka.

Frjáls framlög

Til þess að viðhalda mannvirkjum og gera rekstur Hafnarhólma sjálfbæran óskum við eftir frjálsum framlögum frá þeim sem heimsækja Hafnarhólma.

Protect Puffins

Til að koma til móts við erlenda ferðamenn sem heimsækja Hafnarhólma höfum við sett upp fræðsluvef á ensku, en einnig er hægt að styrkja starfsemi Fuglaverndar í gegnum vefinn. Skoða protectpuffins.is

Vefmyndavél

Í Hafnarhólma er vefmyndavél þar sem sér yfir Borgarfjarðarhöfn.

Rannsóknir

Magnús Þorsteinsson í Hafnarbjargi. Ljósmynd: © Jóhann Óli Hilmarsson.

Magnús Þorsteinsson lét eftir sig dagbækur sem spanna áratugi og þar í er ýmis fróðleikur um fugla Hafnarhólma s.s. komu- og brottfarartími lunda á vorin og síðsumars, gangur og stærð æðarvarpsins. Magnús safnaði einnig frá fyrri tíð gögnum um hólmann m.a. um stærð æðarvarpsins. Því eru mörg tækifæri til frekari rannsókna. 

Fuglalíf í Njarðvík og Hafnarhólma 2018

Í desember 2018 var skilað áfangaskýrslu til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis um fuglalíf í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra. Hér má hlaða skýrslunni niður í heild.

Fuglalíf í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra – skýrsla til UAR.pdf (1,35 MB)

Efnahagsleg áhrif Hafnarhólma 2019

Sumarið 2019 stóð Fuglavernd fyrir rannsóknum á efnahagslegum áhrifum Hafnarhólma. Tæplega 50 þúsund gestir komu í Hafnarhólmann frá maí og út september. Jukka Siltanen umhverfis- og auðlindafræðingur hefur gert sambærilega útreikninga á efnahagslegum áhrifum nærri tuttugu náttúruperla á Íslandi og var hann fenginn til verksins. Hér má hlaða niður skýrslunni í heild. 

Hafnarhólmi Borgarfirði Eystra - Efnahagsleg áhrif.pdf

 

Fuglar og gróður í Hafnarhólma 2020

Hafnarhólmi á Borgarfirði eystra er samtals um 3,1 hektari að flatarmáli og þar af eru 1,7 hektarar grasigrónir, annað eru gróðurlitlar klappir. Náttúrverndargildi Hafnarhólmafelst í sjófuglabyggðinni sem þar þrífst og telur rétt um 10 þúsund varppör og er því alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð. Algengustu varpfuglarnir eru lundi, æður, rita og fýll. Hafnarhólmi er tengdur við land síðan 1973 og er höfn byggðarlagsins í skjóli hólmans. Aðgengi er gott að hólmanum og almenningi er heimilt
að heimsækja Krosshöfða, syðsta hluta Hafnarhólma. Árið 2019 komu þar um 50 þúsund gestir. Hér má hlaða niður skýrslunni í heild.

2020 Rannsókn Fuglar og gróður í Hafnarhólma

 

Gestir í Hafnarhólma 2019-2021

Hér er hægt að skoða skýrslu um komu ferðamanna í Hafnarhólma  árin 2019-2021

 

Svipmyndir frá Hafnarhólma