Í upphafi skyldi endinn skoða.

Að beisla vindinn og nýta til rafmagnsframleiðslu getur hljómað vel í eyrum margra, sérstaklega þegar litið er til þeirrar loftslagsváar sem við stöndum frammi fyrir og nauðsyn þess að beina orkuframleiðsla inn á umhverfisvænni brautir. Litið er til grænna lausna í auknum mæli, en er nýting vindorka eins græn og haldið hefur verið á lofti?
Á málþinginu verður sjónum beint sérstaklega að mögulegum áhrifum vindorkuvera á fuglalíf á Íslandi. Farið verður yfir stórtækar hugmyndir um vindmyllugarða og hvernig staðsetning þeirra skarast við mikilvæg fuglasvæði á landi og sjó og gætu haft neikvæð áhrif á sumar fuglategundir. Erum við tilbúin að taka slíka áhættu? Gæti opinber stefnumótun og löggjöf komið í veg fyrir umhverfisslys í þessum málum og þá hvernig?

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Fundarstjóri er Guðrún Pétursdóttir.

16:00-16:05 Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar setur málþingið.

16:05-16:10 Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson.

16:10-16:35 Vindmylluáform og mikilvæg fuglasvæði.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Hér verður farið yfir þau áform um vindmyllugarða sem komið hafa til tals síðustu ár. Rætt verður um skörun við mikilvæg fuglasvæði og mikilvægar farfuglaleiðir og afleiðingar af því að setja upp þessa garða. Fjallað verður um nauðsyn þess að mikilvæg fuglasvæði og jaðarsvæði þeirra verði friðuð fyrir vindorkuvinnslu.

16:35-16:55 Vindorkuver og íslenskir fuglar.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands
Gerð verður grein fyrir þeim áhrifum sem vindorkuver geta haft á fuglalíf almennt og hvaða aðferðum er beitt við mat á þeim hér á landi. Fjallað verður um þá þætti, bæði í umhverfi og líkamsgerð fugla, sem hefur áhrif á viðkvæmni þeirra fyrir vindorkuverum og gerð tilraun til að flokka íslenskar fuglategundir með tilliti til þessarar viðkvæmni.

16:55-17:15 White tailed sea eagles and wind turbines
Dr. Oliver Krone, Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research (IZW), Berlin, Germany.
White-tailed sea eagles (WTSE) are among the birds which are frequently killed by wind power plants (WPP). In relation to population size the WTSE is the species mostly affected. In order to reduce the frequency of collisions and to protect the eagles include a minimum distance of a new installed wind turbines to known nests. Research to better understand the reasons for collisions and develop mitigation measures are becoming increasingly important since WPP, as renewable energy sources are planned to increase significantly to match the goals of the government. New legislation will facilitate and accelerate the construction of new WPP in Germany with negative consequences for the eagles.

17:15-17:35 Vindorkuver á sjó við Ísland. Hvað þarf að varast? Ib Krag Petersen, Senior Advisor at Aarhus University.
Greint verður mjög stuttlega frá reynslu annarra þjóða af áhrifum vindmyllugarða á sjó á fuglalíf. Farið verður yfir stöðu þekkingar hérlendis á mikilvægum fuglasvæðum á sjó og skoðað hvaða sjófuglategundir gætu helst orðið fyrir áhrifum af slíkum görðu hér við Ísland og af hverju. Settar verða fram vangaveltur um hvaða þekkingargöt þyrfti helst að bæta og hvort vindmyllugarðar á sjó séu eitthvað sem Íslendingar ættu að skoða yfir höfuð – væru aðrar útfærslur betri? Erindið verður á ensku.

17:35-17:55 Umhverfisáhrif vindorkuvera.
Egill Þórarinsson, sviðsstjóri á sviði umhverfismats.
Í erindinu verður fjallað um möguleg umhverfisáhrif af byggingu og rekstri vindorkuvera. Auk mögulegra áhrifa á fugla getur uppsetning og rekstur vindorkuvera haft áhrif á aðra þætti eins og landslag, fólk, umferð og vatnafar svo eitthvað sé nefnt. Þá geta framkvæmdum við uppbyggingu vindorkuvera fylgt aðrar framkvæmdir sem einnig geta haft áhrif á umhverfið. Greint verður frá því hvað framkvæmdir við vindorkuver fela í sér og hvernig vindorkuver geta haft áhrif á hina ýmsu umhverfisþætti.

17:55-18:10 Áætlanir og stefna um vindorkuver á Íslandi.
Skúli Skúlason, prófessor Háskólanum á Hólum og Náttúruminjasafni Íslands
Rætt verður um lagaramma, áætlanir og stefnu stjórnvalda um vindmyllur og umhverfisáhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á hlutverk, vinnu og stöðu Áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun) og hvernig haga megi vinnubrögðum á opinberum vettvangi til að vernda fugla og aðra náttúru fyrir neikvæðum áhrifum framkvæmda af þessu tagi.

18:10 -18:40 Pallborðsumræður í ráðstefnulok sem Guðrún Pétursdóttir stjórnar.

18:40 Fundarstjóri slítur ráðstefnunni

Léttar veitingar í ráðstefnulok

Allir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og enginn er aðgangseyrir.

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Þorskur í þúsund ár

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. febrúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15. Það er líffræðingurinn Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir “Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum”.

Ágrip af erindi Guðbjargar Ástu, haldið mánudaginn 26. febrúar 2018.

„Við fornleifauppgröft á fornum íslenskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorskbein. Í mörgum tilfellum eru elstu mannvistarlög verstöðvanna aldursgreind til fyrstu alda eftir landnám. Á síðustu fimm árum hafa sérfræðingar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna, stundað þverfræðilegar rannsóknir á þessum beinum og öðrum fornleifafræðilegum efnivið frá verstöðvunum. Markmið rannsóknanna er að kortleggja breytileika í þorskstofninum og reyna að meta hvort loftslagsbreytingar og/eða veiðiálag hafi hvatað mögulegar breytingar á þorskinum á sögulegum tíma. Líffræðilegar rannsóknir á fornleifafræðilegum efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma.

Í þessum fyrirlestri mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir draga saman þær vistfræðilegu niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr verkefninu, t.d. greiningar á erfðasamsetningu, metla á fæðuvist með stöðugum efnasamsætum og rannsóknir á þorskkvörnum til að meta aldur, vöxt og tíðni vistgerða, þ.e. far- og staðbundinna þorska. Niðurstöðurnar benda til þess að breytingar hafi orðið á vistfræðilegum þáttum þorskstofnsins á tveimur tímabilum, annarsvegar á „litlu ísöld“, en það var líka tímabil mikillar aukningar í veiðiálagi, og í nútíma. Að lokum mun Guðbjörg Ásta setja niðurstöður um fornvistfræði þorsksins í samhengi við þorskveiðar Íslendinga, þróun verstöðva og upphaf fiskveiðisamfélagsins.“

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Guðbjörg Ásta lauk PhD námi frá Háskólanum í St Andrews í Skotlandi árið 2005 og hefur síðan stundað rannsóknir á tilurð og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hafa rannsóknir Guðbjargar Ástu í auknum mæli beinst að kortlagningu og áhrifum á líffræðilegan breytileika nytjastofna sjávar; í því augnamiði að auka þekkingu til viðhalds og verndunar stofnanna.

Viðburðurinn á Facebook

Fuglaskoðun í Flóa á sunnudag

Sunnudaginn 26. júní 2016 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun númer þrjú í fuglafriðlandinu í Flóa. Fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.

Ástand íslenska lómastofnsins

Mánudaginn 18. apríl kl.20:30 mun Ævar Petersen halda fræðslufund um lóminn í sal Arion banka Borgartúni 18 sem ber heitið ástand íslenska lómastofnsins.

Rannsóknir hafa verið stundaðar á lómum frá árinu 2006 en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi. Upphaflega voru settir ljósritar á lóma en einnig fylgst með ástandi stofnsins og varpárangri. Jafnframt hefur upplýsingum verið safnað um varpstaði lóma í landinu.

Í fyrirlestrinum verður þó mest fjallað um samanburð milli tveggja svæði í landinu, á Mýrum á Vesturlandi og Núpasveit – V-Sléttu á Norðausturlandi, sem staðið hefur yfir frá árinu 2012. Fylgst hefur verið með fjölda óðalsbundinna para, varpárangri, fæðu unga o.fl. Niðurstöður eru m.a. túlkaðar með hliðsjón af umræðunni um loftlagsbreytingar og viðkomubrest hjá sandsílum. Ýmsir aðrir umhverfisþættir hafa áhrif á fjölda, útbreiðslu og varp lóma, t.d. afrán refa, sumarþurrkar og himbrimar.

Fundurinn hefst stundvíslega kl.20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.

Ljósmyndina tók Ævar við Nýlenduvatn á Mýrum, Mýrasýslu, 25. maí 2015 en þetta er lómur á hreiðri.

Fuglar og ljósmyndun 19.03.2015

Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!

Á ferð um Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar segir Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Myndasýning frá Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar næstkomandi mun Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari segja frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Fuglar og landbúnaðar

Lilja Jóhannesdóttir mun segja frá rannsóknum sínum á fuglalífi á landbúnaðarsvæðum á Suðurlandi á fræðslufundi félagsins fimmtudaginn 28. nóvember. Fjallað verður um áhrif landnýtingar, farið verður yfir þéttleikatölur og samfélög í mismunandi búsvæðum og einnig verða stofnstærðir algengustu tegunda skoðaðar.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.