Vel heppnuð ganga í Friðlandi fugla í Flóa

5. júní mættu 10 manns til að upplifa Friðland fugla í Flóa. Anna María Lind leiddi hópinn og urmull fugla voru mættir. Surr í næsta ósýnilegum lóuþrælum heyrðust á víð og dreif. Lómar heilsuðust, kvöddust, kvökuðu, görguðu og góluðu eins og lómar gera best. Álftahjón ákváðu að taka ungahópinn sinn á land og örkuðu norðar í mýrina. Smyrill eltist við lóuþræl en náði ekki bráðinni og varð að sitja eftir svangur. Óðinshanar léku við hvern sinn fingur ef svo mætti segja og voru á öðru hverju dæli (tjörn). Æðarfugl sást með unga á dæli og aðrar andartegundir flugu hjá eða voru í slag í eintómum vorfögnuði.  Stör var byrjuð að spretta svo sem önnur grös. Það var norðan garri, 12 – 16 m/sek í upphaf göngu, en léttskýjað  og fuglaskoðendur voru allir vel búnir og allir á stígvélum nema einn, en þannig er það oftast að minnst einn verður votur í fæturna eftir gönguna.  Hvort sem fólk var í stígvélum eða votum skóm þá var samhugur um að þetta hefði verið frábær ganga og upplifun mikil. Vindinn lægði er leið á gönguna en lofthiti var nær tíu gráðum og það var gott að safnast saman í lok göngu á pallinum í skjóli fuglaskoðunarhússins.

Næsta ganga verður 27. júní og leiðsögumaður verðu Ísak Ólafssonn líffræðingur.