Votlendi og mikilvægi þeirra

Vernd og endurheimt votlendis er eitt af áhersluatriðum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.  Ágústa Helgadóttir líffræðingur og verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi var í viðtali hjá morguvaktinni á Rás 1. Land og skógur er í samstarfi við Fuglavernd um endurheimt votlendis.

Hér má lesa um könnun á  möguleikum í endurheimt landslags- og sjávarheilda sem er samstarfsverkefni Fuglaverndar, Lands og skóga, RSPB og ELSP

Hér má hlusta á viðtalið við Ágústu  sem hefst á 01:26:00

Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00 

Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Fuglaskoðun í Friðlandi í Flóa

Fuglaskoðun

Fimmtudaginn 15. júní  verður boðið upp á fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa og leiðsögumaður að þessu sinni er Anna-María Lind Geirsd, starfsmaður skrifstofu  Fuglaverndar.

Brottför er frá fuglaskoðunarhúsinu við bílastæðið í Friðlandinu

Fuglaskoðunin hefst kl. 18:30

Tímalengd: 1-1,5 klt.

Nauðsynlegur fatnaður: Gúmmístígvél. Hlýr fatnaður.

Mikilvægur útbúnaður: Sjónauki.

Hámarksfjöldi er 20 manns.

Vinsamlega skráið ykkur með tölvupósti til fuglavernd@fuglavernd.is fyrir kl. 12 fimmtudag 15. júní.

Gera má ráð fyrir rúma klukkustund í göngu og stöður til að sjá, heyra og upplifa fuglalífið í Friðlandinu.

Hlýr fatnaður er t.d. tvær peysur undir vindheldum stakki jafnvel lopapeysa eða dúnúlpa. Húfa, vettlngar og ullarsokkar. Það er júní og sumar en getur orðið svalt á kvöldin.

 

Votlendisfuglar

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalíf Friðlandsins í Flóa er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma, en nærri 25 fuglategundir verpa þar að staðaldri. Einkennisfugl svæðisins er lómurinn.

Friðlandið í Flóa er votlendi sem hafist var handa við að endurheimta árið 1997 í samstarfi Fuglaverndar og sveitarfélagsins Árborgar.

Lesa meira um Friðlandið í Flóa, staðsetningu, gróður, dýralíf og starf Fuglaverndar á svæðinu.

Hér er á ferðinni frábært tækifæri fyrir alla jafnt einstaklinga og  fjölskyldur að upplifa lifandi náttúru.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Vinsamlega skráið ykkur með tölvupósti til fuglavernd@fuglavernd.is fyrir kl. 12 fimmtudag 15. júní.

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.

Alþjóðlegur dagur votlendis í dag 2. febrúar

Eftirfarandi er af heimasíður Votlendissjóðsin, en á heimasíðu hans er meiri upplýsingar.

Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.
Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.

Kort af Friðlandinu í Flóa
Kort af Friðlandinu í Flóa

Fuglavernd, í samstafi við Árborg hefur endurheimt votlendi í Flóanum norðan Eyrarbakka við bakka Ölfusár.

Jóhann Óli Hilmarsson segir frá hvað gerðist eftir að mýrin í  Friðlandi í Flóa var endurheimt

Meira um votlendi á heimasíðunni okkar

Möguleikar á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum og nágrenni

Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Breska Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu.
Straumvatn í mýri

Verkefnið er framhald verkefnis þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki í skurði, en slíkt þarf að hafa í huga ef endurheimt verður á svæðinu.

Urriði

Nú er hugmyndin að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá nái yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarðarár fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA) af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og áls, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.

Lækir milli vatna

Í verkefninu verða lækir og vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrifum framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir verða skrásettar og metið verður hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið er ekki heldur undanskilið en mikilvægt er að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. En ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.

Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Nú er einungis verið að kanna möguleika á endurheimt, en ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi, er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.

Nánar má lesa um verkefnið á ensku á síðu Open rivers programme

 

Friðland í Flóa fuglaskoðun og ganga

Miðvikudag 16. júní 2021 kl. 19 verður boðið upp á fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa og leiðsögumaður að þessu sinni er Anna Maria Lind Geirsdóttir starfsmaður Fuglaverndar.

Fuglaskoðunin hefst kl. 19:00. Brottför er frá fuglaskoðunarhúsinu sem stendur við bílastæðið í Friðlandinu. Gera má ráð fyrir um klukkustund til að sjá, heyra og upplifa fuglalífið í Friðlandinu.

Nauðsynlegur fatnaður: Gúmmístígvél eða viðlíka. Annar fatnaður eftir veðri.
Mikilvægur útbúnaður: Sjónauki.

Vinsamlega skráið ykkur með tölvupósti til fugavernd@fuglavernd.is fyrir kl. 15 miðvikudag 16. júní.

Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalíf Friðlandsins í Flóa er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma, en nærri 25 fuglategundir verpa þar að staðaldri. Einkennisfugl svæðisins er lómurinn.

Friðlandið í Flóa er votlendi sem hafist var handa við að endurheimta árið 1997 í samstarfi Fuglaverndar og sveitarfélagsins Árborgar. Lesa meira um Friðlandið í Flóa, gróður, dýralíf og starf Fuglaverndar á svæðinu.

Hér er á ferðinni frábært tækifæri fyrir fjölskyldusamveru í lifandi náttúru og upplagður sunnudagsbíltúr fyrir alla fjölskylduna.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Alþjóðlegi votlendisdagurinn 2019

We are not powerless against #climatechange if we #KeepWetlands 2 FEBRUARY is #WorldWetlandsDay

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er 2. Febrúar ár hvert.

Dagurinn er til að minnast Ramsarsamningsins sem var undirritaður í írönsku borginni Ramsar þennan dag árið 1971. Ramsarsamningurinn er alþjóðasamningur um verndun votlendis, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Árið 2018 eru aðilar að samningnum orðnir 169 og 2.284 svæði eru vernduð af samningnum. Samtals verndar Ramsarsamningurinn votlendi sem eru 220.673.362 ha sem er örlítið stærra en Mexíkó.

Lesa meira: um Ramsarsamninginn á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Markmið dagsins er að vekja vitund almennings á mikilvægi og virði votlendis.

Votlendi er samheiti yfir fjölda vistgerða eða búsvæða sem eru á mörkum lands og vatns. Vanalega eru vötn og grunnsævi, mýrar og ár flokkuð sem votlendi á Íslandi. Vatn er grunnforsenda fyrir lífi og gerir manninum mögulegt að nýta landið. Votlendi er einnig mikilvæg náttúruauðlind og forsenda fyrir ríkulegu og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi. Votlendi er meðal þeirra vistkerfa á jörðinni þar sem framleiðni er mest og það er jafnframt uppvaxtarsvæði fyrir fjölda tegunda, þar á meðal tegunda sem hafa efnahagslega þýðingu.

Vefur Alþjóðlega votlendisdagsins http://www.worldwetlandsday.org/

Hrafnaþing: Endurheimt votlendis

Í tilefni af Alþjóðlegum degi votlendis þann 2. febrúar standa Landgræðslan, Fuglavernd og Náttúrufræðistofnun Íslands saman að Hrafnaþingi miðvikudaginn 31. janúar kl. 15:15.

Sunna Áskelsdóttir héraðsfulltrúi Landgræðslu ríkisins á Hvanneyri flytur erindið „Endurheimt votlendis hjá Landgræðslunni“ á Hrafnaþingi hjá Náttúrufræðistofnun.

Útdráttur úr erindinu: http://www.ni.is/greinar/31-januar-2018-sunna-askelsdottir-endurheimt-votlendis-hja-landgraedslunni