Út er komin skýrsla um fuglamerkingar á Íslandi árið 2021.
Alls voru merktir 17.713 fuglar af 73 tegundum og voru merkingamenn 49 talsins. Langmest var merkt af auðnutittlingum, tæplega helmingur fuglanna. Alls bárust 3.240 tilkynningar um endurheimtur og álestra af íslenskum merkjum.
Hann er rindill en samt brattur sigurvegari nýsjálensku keppninnar um fugl ársins 2022.
Leiðrétting barst í dag 22. nóvember frá Yann Kolbeinssyni , líffræðingi hjá Náttúrstofu Norðausturlands:
Langaði að benda á að þessi tegund sem um ræðir í fréttinni (South Island Wren, https://ebird.org/species/soiwre1) heitir klettaprílari á íslensku. Hann er alls óskyldur íslenska músarrindlinum, enda í annarri ætt fugla (klifurrindlaætt, Acanthisittidae). Músarrindill er í rindlaætt (Troglodytidae). Þrátt fyrir heitin eru þessar tvær ættir ansi fjarskyldar. Klettarindill er allt önnur tegund sem finnst í Norður Ameríku (https://ebird.org/species/rocwre/).“
Klettaprílarinn, Xenicus gilviventris, er sem sagt fugl ársins á Nýja Sjálandi.
Fugl ársins á heimasíðu nýj sjálenska fuglaverndarfélagsins Forest & Bird
Garðfuglakönnun er árlegur viðburður Fuglaverndar sem snýst um að telja fugla í garðinum sínum. Fuglar heimsækja mest þá garða þar sem fóður stendur til boða. Könnunin er ætluð öllum sem hafa áhuga á fuglum og er ekki ýkja flókin þó hún virðist vera það við fyrstu sýn.
Það er hægt að telja fugla daglega, vikulega t.d. bara um helgar.
Eyðublöð eru tilbúin á heimasíðu Fuglaverndar sem hægt er að hlaða niður og prenta út ef vill.
Fyrir daglega notkun er oft handhægara að nota rissblað eða stílabók. Dæmi um skráningarblað sem maður notar daglega hér fyrir neðan. Þar sést t.d. að fyrst sáust 5 starar og það var skráð. En þegar næst var skoðað, skömmu seinna, voru þeir orðnir 12. Þá leggur maður ekki saman fimm og tólf heldur notar hærri töluna tólf sem fjölda stara þennan dag. Á þessu blaði eru skráðir þeir fuglar sem eru venjulega í görðum en það geta verið aðrar tegundir sem heimsækja garða reglubundið. Þegar vikan er liðin tekur maður saman tölurnar, hæstu tölur hverrar tegundar, og færir inn í eyðublaðið sem finna má hér.
Það er ágætt að undirbúa garðfuglakönnunina með því að byrja að æfa sig í talningu og skráningu og þeir sem fóðra fugla geta hafið fóðrun nokkrum dögum fyrir. Það má nefna að fólk sem bæði fóðrar fugla og tekur þátt í garðfuglakönnuninni lærir ótrúlega mikið um hegðun ýmissa fuglategunda bara með því að fylgjast með þeim.
Hvað er Fuglavernd?
Í stuttu máli: Fuglavernd eru frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar. Félagið var stofnað 1963 af áhugamönnum um verndun hafarnarins. Fuglavernd vinnur að því að fuglar og búsvæði þeirra skaðist sem minnst vegna framkvæmda.
Fuglavernd er aðili að Birdlife International sem eru samtök fuglaverndarfélaga um allan heim.
Félagar eru um 1300. Félagið heldur myndasýningar og fyrirlestra um fugla og fer í fuglaskoðun með félögum. Það gefur út tímaritið FUGLAR sem fjallar um fugla og málefni tengd fuglum.
Með aðild tekur þú þátt í fugla- og náttúruvernd. Hér geturðu sótt um félagsaðild Hér geturðu lesið um HAFÖRNINN á heimasíðu Fuglaverndar
Fimmtudaginn15. júní var boðið upp á fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa og leiðsögumaður að þessu sinni var Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar og ljósmyndari hópsins var Guðrún Lára Pálmadóttir. Fimm félagar mættu til leiks fyrir utan Guðrúnu Láru og Trausta. Lómarnir voru í miklu stuði og stjöstjarnan blómstraði sem aldrei fyrr. 15 fuglategundir sáust og heyrðus. Veður var gott en stórstreymt og það var að falla að í Ölfusárós svo nokkrir blotnuðu í fæturna á síðustu metrunum. Flóðs og fjöru gætir í mýrinni. Gúmmístígvél öðru nafni vaðstígvél eru málið.
2. júní mættu átta manns í fuglaskoðun í Friðlandi í Flóa og níunda manneskjan mætti til að stika gönguleiðina um Friðlandið. Göngustjóri var Anna María Lind Geirsdóttir sem hljóp í skarðið fyrir Trausta Gunnarsson. 4-5 m vindur var en annars milt og gott veður.
Fullt af lómum héldu uppi stuðinu með væli, korri og dirrindí. Tveir lómaungar sáust og margir lómar sem lágu stíft á . Meðal annara tegunda sem sáust og heyrðust þetta vorkvöld í mýrinni: Álft, æðarfugl, urtönd, lóa, hrossagaukur, fýll, sílamáfur, lóuþræll, jaðrakan, stelkur og óðinshani.
Eftir að lokað var fyrir aðgang að varpstæði stara undir stiganum við fuglaskoðunarhúsið voru settir upp varpkassar fyrir stara, í fyrra var enginn í þeim en þetta árið er kominn stari með hreiður. Hann var ekki ýkja hress með mannskapinn við húsið.
Vissuð þið að fuglar og gróður í næsta nágrenni eykur hamingju fólks?
í Þættinum Samfélagið á rás 1 var umhverfisspjall við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem vildi nefna eitthvað jákvætt á þessum drungalegu tímum neikvæðrar loftslagsskýrslu og stríðs.
Náttúruskoðun og fuglaskoðun fólks hefur verið rannsökuð og er vísindalega sannað að náttúruskoðun og sérstaklega fuglaskoðun hefur jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og dregur úr þunglyndi. Fjöldi fugla í þéttbýli eykst með meiri gróðurþekju og hefur það bein áhrif á líðan fólks að vera með meiri gróður og þar af fleiri fugla í næsta umhverfi.
Upplýsingar frá Svenju N.V. Auhage hjá Náttúrufræðistofnun Íslands úr grágæsa og heiðagæsa talningu í október
Alls fengum við upplýsingar um 230 heiðagæsir á landinu í kringum talninguna 30. – 31. Október.
Í þetta sinn var ekki hægt að telja grágæsir úr lofti vegna veðurs en í staðinn var keyrt um Suðurlandið og einnig um Vesturland og leitað af gæsum. Alls sáust og voru tilkynntir 15.595 grágæsir í kringum talninguna 27. – 28. nóvember og er dreifingin eftirfarandi:
Grágæsir verða taldar hér á landi og á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum 27.–28. nóvember 2021.
Náttúrufræðistofnun Íslands óskar eftir upplýsingum um allar gæsir sem vart verður við næstu daga og eins hvenær menn sáu síðast fugla á gæsaslóðum. Gagnlegt væri að fá eins nákvæmar staðsetningar og unnt er og eins mat á fjölda fugla. Upplýsingarnar verða sendar samstarfsaðilum á Bretlandseyjum sem taka saman árlegar skýrslur um talningarnar: sjá: https://monitoring.wwt.org.uk/our-work/goose-swan-monitoring-programme/reports-newsletter/
Vinsamlega sendið upplýsingar til Svenju N.V. Auhage hjá Náttúrufræðistofnun Íslands (svenja@ni.is), einnig tekur Arnór Þ. Sigfússon hjá Verkís (ats@verkis.is) á móti slíkum upplýsingum .