Leitin að Fugli ársins 2021 er hafin!

Fuglar eru hluti af daglegu lífi fólks, flestir eiga sinn uppáhalds fugl og hverjum þykir sinn fugl fagur.
Í vetur hafa staðfuglar og vetrargestir glatt okkur með nærveru sinni en nú nálgast vorið og farfuglarnir fara að tínast til okkar á eyjunni fögru. Fuglavernd ætlar að fagna vorkomunni með kosningu á Fugli ársins 2021 og verða úrslitin kynnt á sumardaginn fyrsta.

Keppnin er haldin á vegum Fuglaverndar og er tilgangur hennar að vekja athygli á málefnum fugla í gamni og alvöru. Stefnt er að því að hún verði árviss viðburður.

Fuglavernd hefur nú unnið úr þeim fjölmörgu vel rökstuddu tillögum sem bárust frá almenningi og valið 20 fugla sem munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021.

Einn af þessum 20 fuglum verður krýndur Fugl ársins 2021 á sumardaginn fyrsta 22. apríl
Fugl

Kynningarsíður kosningastjóra

Auðnutittlingur (Carduelis flammea) Kosningastjóri: Guðni Sighvatsson
Tíst auðnutittlings
Auðnutittlingurinn á Instagram
Grágæs (Anser anser) Kosningastjóri: Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson
Tíst grágæsar 
Grágæsin á Instagram
Grágæsin á Facebook
#gragaesin
Haförn (Haliaeetus albicilla)  Kosningastjóri: Ragna Gestsdóttir
Heiðlóa (Pluvialis apricaria) Kosningastjóri: Guðrún Jónsdóttir
 #Heiðlóan
Himbrimi (Gavia immer) Kosningastjóri: Eyþór Ingi Jónsson
Vefsíða himbrimans
Eyþór og himbrimi á Instagram
Hrafn (Corvus corax) Kosningastjóri: Hrefna Huld Helgadóttir
#hrafn.inn
Hrossagaukur (Gallinago gallinago) Kosningastjóri: Sigurjón Einarsson
Jaðrakan (Limosa limosa) Kosningastjóri: Steingerður Steinarsdóttir
Kría (Sterna paradisea) Kosningastjóri: Jóhanna Benediktsdóttir
Lundi (Fratercula arctica) Kosningastjóri: Sunna Dís Kristjánsdóttir með dyggri aðstoð 4. bekks Engidalsskóla
Lundinn á Facebook
Maríuerla (Motacilla alba) Kosningastjóri: Hulda Signý Gylfadóttir með dyggri aðstoð 4. bekks Landakotsskóla
Músarrindill (Troglodytes troglodytes) Kosningastjóri: Snorri Valsson
Óðinshani (Phalaropus lobatus) Kosningastjóri: Fannar Sigurðsson
Rjúpa (Lagopus muta) Kosningastjóri: Rósanna Andrésdóttir og 3. bekkur Álftanesskóla
Sendlingur (Calidris maritima) Kosningastjóri: Þórir Þórisson
Sílamáfur (Larus fuscus) Kosningastjóri: Bjarki Sigurðsson
Skógarþröstur (Turdus iliacus) Kosningastjóri: Halldór Bergmann
Snjótittlingur/sólskríkja (Plectrophenax nivalis) Kosningastjóri: Ísak Hugi Einarsson
Stari (Carduelis flammea) Kosningastjórar: Anna Margrét Jónsdóttir, Guðfinna Dís Sveinsdóttir og Bryndís Guðjónsdóttir
Starinn á Instagram
Svartþröstur (Turdus merula) Kosningastjóri: Baldur Ó Svavarsson
Nú er opið er fyrir kosningu á Fugli ársins 2021!

Opnað hefur verið fyrir kosningu á Fugli ársins 2021 og stendur hún yfir til 18. apríl en úrslitin verða kynnt á sumardaginn fyrsta 22. apríl.

FUGL ÁRSINS 2021 – KJÖRSEÐILL

 

Get ég gert eitthvað meira til að gefa mínum fugli byr undir báða vængi? 

JÁ! Þú getur það sannarlega.

Þú getur sótt um það hér að vera kosningastjóri fyrir fuglinn þinn.  –  ALLAR STÖÐUR FYLLTAR 2021

Hlutverk kosningastjóra er að nota hugmyndaflugið til að vekja athygli á málefnum fuglsins, t.d. á samfélagsmiðlum, svo hann nái sér á flug í keppninni. Að sjálfsögðu er farið fram á að kosningastjórar sýni stúlku- og drengilega keppni í hvívetna.

Í tölfunni hér fyrir ofan geturðu séð hvaða fuglar eru komnir með kosningastjóra og hverjir í lausu lofti. Byrjað verður að vinna úr umsóknum um leið og þær berast svo það borgar sig að sækja um strax til að reyna að tryggja sér kosningastjórastöðu fyrir sinn fugl ef hann nær inn í úrslitakeppnina í apríl.

Kosningin um Fugl ársins 2021 mun fara fram 9.-18. apríl og Fugl ársins 2021 verður kynntur á sumardaginn fyrsta.

Fuglavernd hvetur fólk til að nota eftirfarandi kassamerki á samfélagsmiðlum í tengslum við keppnina.

#FuglArsins2021  #Fuglavernd

 

Helstu tímasetningar varðandi keppnina eru eftirfarandi:

10.-20. mars – Tilnefningar fugla í lokakeppnina standa yfir. (Tilnefningafrestur er liðinn)

Frá 10. mars – Opið fyrir umsóknir um stöðu kosningastjóra fyrir fugl. Hér er hægt að sækja um stöðu kosningastjóra fugls.

1. apríl – Heiti þeirra 20 fugla sem keppa um titillinn í ár voru birt hér á vefsíðunni og upplýsingar um kosningastjóra þeirra.

9.-18. apríl – Æsispennandi kosning um Fugl ársins stendur yfir. KJÓSA FUGL ÁRSINS 2021 HÉR.

Sumardagurinn fyrsti 22. apríl – Fugl ársins 2021 kynntur með fjaðrafoki og látum.

 

Spurt og svarað um keppnina um Fugl ársins
Má ég bara kjósa einn fugl?

Nei þú mátt kjósa allt að fimm fugla og raða þeim í sæti eftir því hver þér finnst að helst eigi að hreppa titilinn. Fuglarnir í sætum 2-5 verða þá þín varaatkvæði. Ef fuglinn sem þú setur í fyrsta sæti dettur út í fyrstu umferð í talningunni þá flyst atkvæði þitt yfir á næsta fugl sem þú valdir og svo koll af kolli.

Hvernig fer kosningin fram?

Til að kjósa Fugl ársins 2021 þarf að smella á hlekkinn hér til að opna rafrænt skráningareyðublað. Skrá þarf inn netfang, nafn og kennitölu til að atkvæðið teljist gilt. Einungis eitt atkvæði er leyft á hverja kennitölu, en ef kjósandi hefur ekki eigið netfang má senda inn atkvæði með netfangi einhvers úr fjölskyldunni. Þetta er gert til að sannreyna að þátttakendur séu raunverulegir og að hver kjósandi fái eitt gilt atkvæði. Netföngum og kennitölum verður eytt úr gögnunum þegar úrslit liggja fyrir og ekki notuð í neinum öðrum tilgangi en þeim að reyna að tryggja heiðarlega kosningu á Fugli ársins 2021. Nema auðvitað ef þátttakandi merkir sérstaklega við að vilja skrá sig í Fuglavernd eða á póstlista Fuglaverndar.

Hvernig virkar kosningakerfið?

Kosningakerfið sem notað er til að velja Fugl ársins mætti kalla varaatkvæðakerfi (e. Instant Runoff Voting System). Velja má allt að 5 frambjóðendur og raða þeim í röð eða sæti eftir því hverjir kjósendur vilja helst að hreppi titilinn. Ekki þarf að velja fugla í öll sætin en frjálst að velja færri fugla og atkvæði er gilt þó einn fugl sé valinn. Ekki má velja sama fugl í fleiri en eitt sæti.

Talning atkvæða fer þannig fram að í fyrstu umferð verður athugað hvort einhver fugl fái hreinan meirihluta sem fyrsta val kjósenda. Ef svo er þá er hann búinn að vinna titilinn. Ef ekki, þá dettur sá fugl út sem fæst atkvæði fékk í þeirri umferð sem 1. val kjósenda og atkvæði hans flytjast á þann fugl sem var 2. val og svo koll af kolli þar til einn fugl stendur uppi sem Fugl ársins 2021.

 

Get ég hvatt minn uppáhalds fugl í keppninni?

Já endilega! Ef þig langar að leggja þínum fugli lið geturðu sótt um að vera kosningastjóri fyrir hann ef hann er ekki þegar kominn með kosningastjóra. Þú getur líka notað kassamerkin #FuglArsins2021 #Fuglavernd á samfélagsmiðlunum til að hvetja fólk til að kjósa hann.

 

Hvenær standa kosningar um Fugl ársins 2021 yfir?

Kosning um Fugl ársins fer fram 9.-18. apríl. Fugl ársins verður svo kynntur á sumardaginn fyrsta 22. apríl 2021.

 

Af hverju er verið að kjósa Fugl ársins?

Með kosningum á Fugli ársins vill Fuglavernd vekja athygli á málefnum fugla. Margar fuglategundir eru í hættu vegna mengunar, loftslagsbreytinga og eyðileggingar búsvæða. Sumir fuglar njóta ákveðinna óvinsælda vegna lífshátta sinna og veitir ekki af tækifæri til að reyna að bæta ímynd sína. Mest er þetta auðvitað til gamans gert meðan vorsins og farfuglanna er beðið í eftirvæntingu á útmánuðum 😊

Hvað get ég gert meira til að stuðla að verndun fugla og búsvæða þeirra?

Þú getur gert ýmislegt. Gerst félagi í Fuglavernd og tekið þátt í starfi félagsins. Gerast félagi.

Þú getur einnig styrkt starf Fuglaverndar með frjálsu framlagi HÉR.

________________________________

Fuglavernd naut liðsinnis Konunglegu bresku fuglaverndarsamtakanna RSPB og Forest and Bird á Nýja-Sjálandi við undirbúning verkefnisins. Hinir síðarnefndu hafa staðið fyrir kosningu á Fugli ársins á Nýja-Sjálandi um árabil.

 

Verkefnið er styrkt af