Inngangur
Fram undir aldamótin 1900 urpu ernir um land allt en þeim var næstum útrýmt á fyrri hluta 20. aldar með skotum og eitri. Ernir verpa nú aðeins á vestanverðu landinu og eru fáliðaðir, eða 69 pör vorið 2012. Innan við helmingur paranna kemur upp ungum árlega og ernir eiga sums staðar undir högg að sækja vegna ógætilegrar umgengni á varpslóðum. Íslenski arnarstofninn hefur vaxið hægt og bítandi síðan um 1970, en þó mun hægar en aðrir hafarnarstofnar í Norður-Evrópu sem hafa frá sama tíma rétt verulega úr kútnum vegna verndaraðgerða.
Útbreiðsla og stofnstærð
Örninn varp strjált um land allt á 19. öld en var algengastur á Vesturlandi. Í kjölfar drápsherferðar og útburðar eiturs fyrir refi upp úr 1880 fækkaði örnum mikið. Nú er varpútbreiðslan að mestu bundin við norðanverðan Faxaflóa, Breiðafjörð og Vestfirði. Flestir varpstaðirnir voru skammt frá sjó en stöku pör urpu inn til landsins, svo sem við Sog, Mývatn og í Veiðivötnum. Áður en ofsóknir á örnum hófust fyrir alvöru um 1880 kunna að hafa orpið hér allt að 150 pör.
Lífshættir
Kjörlendi arnarins er strendur og grunnsævi en einnig ár og vötn. Ernir breyttu um varphætti um miðja 20. öldina í kjölfar þess að ofsóknum var hætt og eyjar fóru í eyði. Áður fyrr urpu þeir oftast í illkleifum hömrum en nú verpa þeir yfirleitt í sjávarhólmum eða á fremur aðgengilegum stöðum skammt frá sjó. Ernir hefja hreiðurgerð í lok mars og verpa í apríl. Fæða arnarins er fuglar og fiskar sem teknir eru á grunnsævi en einnig hræ. Fullorðnir ernir halda tryggð við varpstaðinn allt árið en ungfuglar flakka um landið. Örninn er staðfugl og sést fyrst og fremst vestanlands á vetrum. Stöku fuglar sjást þó árlega í öllum landshlutum.
Helstu ógnir
Ernir eru truflaðir á varpstöðum, hreiður þeirra jafnvel eyðilögð og fyrir kemur að fuglar eru skotnir. Þá hafa ferðaþjónustur gert út á heimsóknir að arnarhreiðrum, oft án tilskilinna leyfa. Gömul arnarsetur hafa verið gerð óbyggileg með lagningu vega. Þá þurfa bændur iðulega að fara nærri arnarhreiðrum vegna hlunnindanýtingar en flestir þeirra umgangast varpstaði arnarins af nærgætni. Einnig virðist sem mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna standi viðkomu arnarins fyrir þrifum hér á landi eins og víða annars staðar.
Vernd og vöktun
Örninn var ofsóttur fram á 20. öld en hefur verið alfriðaður frá 1914 og urðu Íslendingar fyrstir þjóða til að friða hann. Eitrun fyrir refi var bönnuð 1964 en fram að því drápust margir ernir af því að éta eitruð hræ. Óheimilt er án leyfis að stoppa upp örn sem finnst dauður og ber að skila honum til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Bannað er að koma nær arnarhreiðrum en 500 metra án sérstaks leyfis umhverfisráðherra, svo og að raska arnarvarpstöðum. Ernir eru taldir árlega og fylgst með varpi og fjölda unga sem komast á legg. Nauðsynlegt er að tryggja að friðunarákvæði séu virt og uppræta ólöglega umgengni við arnarhreiður.
Staða á heimsvísu
Haförninn var áður útbreiddur varpfugl í Evrópu og Asíu og verpur einnig á Vestur-Grænlandi. Örnum fækkaði víða á 19. öld vegna ofsókna en margir stofnar hafa rétt verulega úr kútnum í Norður-Evrópu. Örninn er sjaldgæfur fugl í Evrópu og nýtur víðast hvar strangrar verndar auk þess sem hann er á heimsválista yfir tegundir í hættu. Á nokkrum svæðum, þar sem örnum var útrýmt, er verið að koma upp nýjum stofni með því að sleppa þar aðfluttum ungum örnum. Samkvæmt Bernarsamningnum, sem Íslendingar eru aðilar að, ber að friða erni og leggja áherslu á að vernda búsvæði þeirra með friðun svæða eða öðrum slíkum aðgerðum.
Sjaldgæfir varpfuglar
Örninn er meðal sjaldgæfustu varpfugla landsins en talið er að hér séu um 70 fullorðin pör (2012), auk ungfugla. Fram á seinni hluta 19. aldar var örninn miklu algengari og varp þá í öllum landshlutum en nú er útbreiðslan bundin við vestanvert landið.
Vöxtur og viðkoma arnarstofnsins er lítil, þrátt fyrir alfriðun í 100 ár, en þó hefur örnum fjölgað hægt og bítandi í kjölfar þess að eitrun fyrir refi var bönnuð árið 1964.
Fylgst hefur verið með arnarstofninum og hann vaktaður um margra áratuga skeið og er vöxtur hans og þróun betur þekkt en hjá nokkurri annarri fuglategund hér á landi.
Lífshættir
Haförninn, sem oftast er reyndar kallaður örn, er stór ránfugl, vænghafið er allt að 240 cm og lengdin frá goggi aftur á stélenda er um 90 cm. Kvenfuglinn er nokkru stærri og þyngri (5–6 kg) en karlfuglinn (4–5 kg) og er slíkur stærðarmunur kynjanna eitt einkenni ránfugla. Ernir eru með gular klær, goggurinn er dökkur á ungfuglum en lýsist og verður gulur á kynþroska örnum. Ungir ernir á fyrsta ári eru dökkbrúnir en stél er að mestu hvítt á fullorðnum örnum. Háls, herðar og höfuð lýsast og verða rjómagul með aldrinum. Röddin er hvell og kallast hlakk, gjall eða gelt og er kvenfuglinn heldur dimmraddaðri. Arnarnöfn koma fyrir í ýmsum myndum og var algengt að kvenkenna örninn áður fyrr og er svo gert enn á arnarslóðum vestanlands. Margir þekkja gælunafnið assa og ari er algengt arnarheiti í gömlum skáldskap. Latneskt heiti arnarins er Haliaeetus albicilla en það þýðir sæörn með hvítt stél. Haförninn er einn átta tegunda svokallaðra sæarna og er ameríski skallaörninn kunnastur hinna sjö tegundanna.
Ferðalög
Fullorðnir ernir halda sig að mestu leyti í grennd við varpstöðvarnar. Sums staðar erlendis eru ungir ernir farfuglar eða flakka um. Ernir ferðast þó fremur lítið samanborið við marga aðra fugla og eftir að útbreiðslan dróst saman í kjölfar fækkunar þeirra á 19. öld, einangruðust margir arnarstofnar. Ernir á Íslandi og Grænlandi hafa sennilega verið algjörlega einangraðir frá öðrum stofnum í mjög langan tíma og ekkert bendir til þess að ernir annars staðar frá flækist þangað. Þeir ernir sem hafa verið merktir hér á landi og síðan endurheimst, fundust flestir innan 100 km frá merkingarstað. Ungir ernir hafa þó sést um land allt og flakka því víða um.
Varp og viðkoma
Fyrstu ernirnir hefja að jafnaði varp 10.−15. apríl en þeir síðbúnu verpa í lok mánaðarins. Að meðaltali verpa fuglarnir 2 eggjum (1–3), hvítum á lit og á stærð við gæsaregg. Nokkrir dagar líða á milli þess að eggjunum er orpið en álega hefst við varp fyrsta eggs. Af því leiðir að ungarnir klekjast ekki samtímis. Útungunartíminn er um 35 dagar og fyrstu ungarnir klekjast því upp úr miðjum maí en flestir í lok maí. Arnarungar eru seinþroska og verða ekki fleygir fyrr en 10 vikna gamlir, þ.e. í ágúst. Varptími arnarins er því mjög langur, eða 5−6 mánuðir, og getur margt farið úrskeiðis.
Verpa snemma
Ernir halda til á varpstöðvunum árið um kring og í venjulegu árferði fara þeir að hyggja snemma að varpi, stundum jafnvel í lok febrúar en oftar um miðjan mars. Ernir parast fyrir lífstíð og þegar annar fuglinn fellur frá getur það tekið þann sem eftir lifir nokkurn tíma að finna sér nýjan maka. Þess vegna verður stundum hlé á arnarvarpi á hefðbundnum varpstöðum um nokkurra ára skeið.
Vorhret seinka stundum varpi og fyrir kemur að arnarvarp misferst að mestu leyti í kuldatíð, eins og harðindavorið alræmda 1979. Biðilsleikir arna eru tilkomumikil sjón sem sjaldan ber fyrir augu, því að ernirnir iðka þessar fluglistir aðeins í stuttan tíma áður en varp hefst.
Hreiðrið
Ernir byggja stundum stóra og mikla laupa úr kvistum. Oftar er hreiðurgerðin þó viðaminni, einkum þar sem þeir hreiðra um sig í sjávarhólmum. Á slíkum stöðum verpa fuglarnir iðulega í ólögulega hrúgu af þangi og hvanndrjólum eða aðeins gróp í grassvörðinn sem þeir fóðra með sinu.
Hversu gamlir verða ernir?
Í ritgerð frá 1835 eftir Jónas Hallgrímsson segir að örninn verði 100 ára eða meira og geti flogið þrjár þingmannaleiðir á klukkustund.
Ernir geta að vísu orðið mjög gamlir, það er að segja þeir sem komast yfir erfiðasta hjallann − fyrsta veturinn.
Merkingar á örnum erlendis gefa til kynna að sumir þeirra komist hátt á fertugsaldurinn og í dýragörðum hafa ernir lifað fram undir sextugt. Elsti íslenski örninn er nú (2012) 19 ára.
Ungar
Arnarungar eru veikburða fyrstu 2−3 vikurnar og foreldrarnir verða að skýla þeim fyrir veðri og vindum. Þeir eru þaktir ljósgráum dún við klak en dekkjast þegar þeir eldast. Afföll á ungum verða aðallega á þessum tíma og því er mikilvægt að raska ekki ró óðalsfuglanna svo að þeir séu ekki of lengi í burtu frá viðkvæmum ungunum.
Foreldrarnir verða að mata ungana fyrstu 5−6 vikurnar en að þeim tíma liðnum hafa ungarnir öðlast nægjanlegan styrk til að rífa sjálfir í sig bráðina. Þeir eru þurftarfrekir og talið er að arnarungi þurfi sem svarar 50 kílóum af fiskmeti frá klaki þar til hann verður fleygur.
Fullorðnir ernir éta sem svarar um 5−10% af þyngd sinni á dag. Arnarpar, sem kemur upp tveimur ungum, þarf því um hálft tonn af fæðu sér og sínum til lífsviðurværis yfir árið.
Fyrstu mánuðina eftir að ungarnir verða fleygir eru þeir undir verndarvæng foreldra sinna en hverfa síðan á brott af óðalinu upp úr áramótum og þurfa upp frá því að sjá sér farborða á eigin spýtur. Þeir munu sjálfir ekki takast á við foreldrahlutverkið fyrr en að 5−10 árum liðnum.
Viðkoma
Algengast er að aðeins einn ungi komist á legg í hverju hreiðri. Tveir ungar komast að jafnaði upp í þriðja hverju hreiðri og stöku sinnum hafa þrír ungar komist upp.
Viðkoma arnarins er yfirleitt lítil en að meðaltali hefur þriðjungur para komið upp ungum frá 1959. Árleg viðkoma stofnsins á þessu tímabili var 0,44 ungar/par en 1,34 ungar/par hjá þeim pörum sem komu upp ungum á annað borð. Þetta er mun lélegri viðkoma en hjá örnum í nágrannalöndunum.
Hreiður og egg arna misfarast iðulega þegar veður er óhagstætt síðla í maí og byrjun júní, um það leyti sem arnarungar eru að klekjast. Allt að helmingur af árlegum breytileika í varpárangri tengist tíðarfari á vorin (apríl–maí) og gengur varpið mun verr í kuldatíð.
Fæða
Örninn tekur oftast þá bráð sem hann á auðveldast með að glíma við á hverjum stað og tíma en virðist ekki sérhæfa sig í að veiða einstakar tegundir líkt og sumir aðrir ránfuglar. Hann veiðir sér til matar, stelur bráð frá öðrum fuglum og leggst á hræ. Ernir drepa öðru hverju veikburða selkópa og taka stundum minka og yrðlinga en mest af þeim spendýrum sem ernir éta (þar á meðal lömb) eru sennilega hræ. Rannsóknir á fæðuleifum við arnarhreiður á árunum 1985–2012 leiddu í ljós að ernir tóku alls um 50 tegundir fugla, fiska og spendýra. Fæðuval arna er því fjölbreytt en fuglar voru 88% af áætlaðri lífþyngd fæðunnar en fiskar um 10%. Mikilvægustu tegundirnar voru fýll og æður; hvor þeirra um 35% af áætlaðri lífþyngd. Hlutur fiska í fæðu arna hér á landi er mun minni en víðast hvar erlendis þar sem fiskar eru oft meira en helmingur af þeirri bráð sem örninn tekur. Sumarið 2003 brá svo við að leifar af skötusel fundust í nokkrum arnarhreiðrum en þá bar óvenju mikið á þeim fremur suðlæga og ófríða fiski á grunnslóð vestanlands. Á síðustu árum hafa ernir tekið flundru (ósakola) í æ ríkara mæli en hún er tiltölulega nýr landnemi.
Örn
Við eilíft blik í bláum, köldum geimi
á breiðum vængjum svífur örninn hvítur
og mælir skyggnu auga lög og láð.
Hans för er eins og flug af öðrum heimi
um furðulegan veg, sem aldrei þrýtur,
– en niðri á jörðu bíður auðveld bráð:
sú fuglahjörð, er lætur sér það lynda
að leika, kvaka, fljúga stutt og synda.
Einn dag mun súgur dýrra vængja þagna,
einn dag mun nár úr háa lofti falla
á auða strönd vor hinzti hvíti örn.
Þann dag mun lamb og lax og æður fagna
og ljóma refur, hlakka veiðibjalla
og halda veizlu landsins litlu börn.
– En aldrei framar flug af öðrum heimi
þá fyllir tómið mikla í vorum geimi.
(Jóhannes úr Kötlum)
Útbreiðsla og stofnstærð
Fram undir aldamótin 1900 var örninn tiltölulega algengur og útbreiddur varpfugl um land allt. Flest þekkt arnarsetur eru við sjávarsíðuna á Vesturlandi en þar er útfiri mest og grunnsævi gjöfult af fugli og fiski. Í dag er útbreiðslan að mestu bundin við vestanvert landið: Vestfirði, Breiðafjörð og norðanverðan Faxaflóa.
Algengastur við Breiðafjörð
Yfir 60% af þekktum arnarsetrum eru innan núverandi varpsvæðis arnarins, þar af þriðjungur við Breiðafjörð. Við fjörðinn halda nú til um 70% allra arnarpara á Íslandi. Það er engin tilviljun að höfuðstöðvar arnarins skuli ávallt hafa verið á Vesturlandi og þá aðallega við Breiðafjörð. Örninn lifir að langmestu leyti á fæðu sem hann sækir í fjörur og á grunnsævi. Möguleikar arna til fæðuöflunar eru því nátengdir þessum strandsvæðum og ráðast m.a. af lífríki þeirra og hversu aðgengileg þau eru fyrir örninn árið um kring. Í frosthörkum á veturna nýtast sum svæðin illa vegna ísalaga, sérstaklega innfjarða. Sterk jákvæð fylgni er milli fjölda þekktra arnarsetra í einstökum landshlutum og flatarmáls fjöru.
Þrátt fyrir að ernir séu algengastir við Breiðafjörð og stofn þeirra þar líklega stærri en hann hefur verið í meira en heila öld virðist engu að síður rúm fyrir fleiri pör á þeim slóðum. Enn standa allmörg gömul arnarsetur auð, til dæmis í Vestureyjum (Flateyjarhreppi hinum forna). Þar urpu nokkur pör á síðustu öld og stöku pör hafa reynt þar varp á seinni árum án þess þó að koma upp ungum. Reyndar virðast engir arnarungar hafa komist upp í Vestureyjum allt frá því að Flateyjar Framfarastiftun hóf að greiða mönnum verðlaun fyrir arnardráp árið 1844 og þar til sumarið 2004 að tveir ungar komust upp í sama hreiðrinu í Vestureyjum – hinir fyrstu í 150 ár!
Á hvernig stöðum verpa ernir?
Nú verpa ernir fyrst og fremst í eyjum, hólmum, á lágum klettasnösum og nesjum skammt frá sjó. Nokkur pör verpa þó í úfnum hraunum, bröttum fjallshlíðum og illkleifum hömrum. Slíkir staðir voru helstu heimkynni arna fyrir um 100 árum þegar aldalangar ofsóknir höfðu hrakið þá frá manngengum varpstöðum.
Örninn flýgur fugla hæst
í forsal vinda,
hinir sér það láta lynda
að leika, kvaka, fljúga, synda.
(Páll Ólafsson)
Breytingar á vali varpstaða
Langt fram á 20. öld urpu ernir yfirleitt á óaðgengilegum stöðum, einkum í ókleifum hömrum. Varp á lágum og aðgengilegum stöðum, í hólmum í ám, vötnum og sjó, var fremur sjaldgæft. Upp úr 1940 hurfu ernir smám saman úr hömrum en byrjuðu á sama tíma að verpa að staðaldri í eyjum og hólmum fyrir landi.
Ernir kjósa sennilega að verpa á láglendi og það hafa þeir væntanlega gert áður en maðurinn kom til sögunnar. Ýmsir kostir fylgja því að verpa á láglendi, m.a. er líklegt að minni orka fari í veiðar og flug að og frá hreiðri. Einnig getur verið veðursælla og snjóléttara í hólmum og nesjum en í háum hömrum. Vísvitandi truflun, eyðilegging hreiðra og arnardráp fyrr á öldum, svo og umferð á viðkvæmum tíma vegna margvíslegra nytja af hólmum og eyjum, hefur fælt ernina smám saman upp í hamra. Þar voru meiri líkur á að þeim tækist að koma upp ungum.
Trúlega voru helstu ástæður fyrir varpi arna í ókleifum klettum: öryggi fyrir ofsóknum, yfirsýn, skjól fyrir veðrum og loks að aðra góða og örugga varpstaði vantaði. Sumir vilja e.t.v. bæta við vernd fyrir ásókn refa. Ernir verpa á mörgum stöðum sem eru aðgengilegir fyrir lágfótu, hér á landi sem annars staðar, og ernir drepa yrðlinga. Það er því ólíklegt að örnum stafi mikill ótti af refum.
Þegar ernir voru friðaðir snemma á 20. öld, búseta í eyjum lagðist af og nytjar af eyjum minnkuðu um miðja öldina, áttu ernir aftur griðlönd á sínum fornu varpstöðvum. Það tók þá því ekki nema sem svarar 1–2 arnarkynslóðum (1940–1970) að flytja heimkynni sín að mestu leyti úr hömrum í landi út í tanga og hólma. Sennilega hefur tekið mörg hundruð ár að hrekja þá upp í fjöllin og alltaf voru einhverjir ernir sem reyndu að verpa úti í eyjum þrátt fyrir að hreiður þeirra væru eyðilögð.
Hvað eru mörg arnarsetur á Íslandi?
Ernir helga sér óðal (varpsvæði) sem nefnt er arnarsetur og eru á hverju óðali einn eða fleiri varpstaðir. Alls er vitað með vissu um 170 arnarsetur í landinu og eru þau langflest á núverandi varpslóðum arna sem ná frá sunnanverðum Faxaflóa til Húnaflóa. Líklegt má telja að arnarsetrin hafi verið mun fleiri því að skipuleg söfnun upplýsinga um arnarstofninn hófst ekki fyrr en um 1920 þegar flest setrin voru löngu komin í eyði.
Forn setur
Þrátt fyrir að ernir hafi ekki orpið á sumum setrum í 100−150 ár eru enn ummerki um dvöl þeirra þar; hvanngresi og blómstóð vegna áburðar um aldaskeið. Í hraununum á Reykjanesskaga eru nokkur slík setur, öll kennd við erni, þar á meðal Arnarklettar sunnan Hafnarfjarðar og Arnarklettur ofan Voga á Vatnsleysuströnd.
Heimildir eru um arnarvarp á sumum arnarsetrum um 150 ára skeið, t.d. í Lóndröngum á Snæfellsnesi, eða frá því um 1750 og fram yfir aldamótin 1900. Ernir hafa ekki orpið þar síðan.
Hvað var stofninn stór?
Vitað er með vissu um arnarvarp á rúmlega 100 stöðum á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900. Sumir þessara varpstaða fóru í eyði á síðari hluta 19. aldar og ólíklegt er að ernir hafi orpið á öllum setrunum samtímis. Á móti kemur að mörg arnarsetur komust aldrei á spjöld sögunnar. Varlega áætlað hafa því orpið hér a.m.k. 100 pör áður en ofsóknir hófust fyrir alvöru í lok 19. aldar. Pörin gætu þó hafa verið mun fleiri, jafnvel 150.
Þegar örninn var friðaður árið 1914 voru hér innan við 40 pör. Þeim átti eftir að fækka um helming næstu árin og var stofninn 20–25 pör um hálfrar aldar skeið.
Samkvæmt talningum Agnars Ingólfssonar stóð arnarstofninn í stað á árunum 1959–1964, var 21–22 pör, en innan við helmingur þeirra kom að jafnaði upp ungum. Árið 1969, fimm árum eftir að bannað var að eitra fyrir refi, hafði arnarstofninn breyst lítið (var 22–23 pör) og hafði þá verið nær óbreyttur í 20 ár. Þó mátti sjá önnur batamerki, m.a. tóku ernir sér bólfestu á nokkrum setrum sem höfðu verið í eyði um langa hríð. Á næstu árum fór örnum loks að fjölga og var vöxtur stofnsins að meðaltali 3,5% á ári á tímabilinu 1967–1987 og pörunum fjölgaði úr 20 í 40. Á þessum árum byrjuðu ernir að verpa að nýju við norðanverðan Faxaflóa og þeim fjölgaði talsvert við sunnanverðan Breiðafjörð. Öðru máli gegndi um erni við norðanverðan Breiðafjörð. Þar var stofninn stöðugur í marga áratugi en hefur vaxið nokkuð á allra síðustu árum. Þessi hluti Breiðafjarðar hefur jafnan verið aðalarnarsvæði landsins svo langt sem heimildir ná.
Á síðustu tveimur áratugum (1994−2012) hefur arnarstofninn vaxið um næstum 30 pör (úr 42 í 69). Oftast nær hafa þessi „nýju pör” sest að á stöðum þar sem öruggar heimildir eru um arnarvarp áður fyrr; sum setrin höfðu jafnvel verið í eyði í allt að 120 ár er ernir tóku sér þar bólfestu að nýju. Það má því telja líklegt að ernir muni smám saman nema land á sínum gömlu heimaslóðum, svo fremi sem stofninn haldi áfram að dafna og setrunum verði ekki raskað eða þau gerð óbyggileg með átroðningi og mikilli umferð. Það er því afar mikilvægt fyrir framtíð arnarstofnsins að vernda þessi gömlu setur.
Örnin. Hún hefur nú skipt um kynferði sitt, því áður var hún karlkyns, en nú er hún orðin kvenkyns; þar að auki er opt stytt nafn hennar, og hún kölluð „assa”. Við það nafn hennar og þann eiginleika, að hún situr opt laungum tímum saman á sama stað, loðir sá talsháttur, að sagt er, að sá sé „þaulsætinn eins og assa” sem tefur, þegar hann kemur einhverstaðar. Þó fugl þessi hafi breytt kyni, heldur hann þó þeirri tign sinni, að hann er kallaður „fuglakóngur,” líklega af því assa er fugla stærst.
(Þjóðsögur Jóns Árnasonar)
Arnarsögur
Ernir eru með útbreiddustu táknum guðdóms og höfðingjavalds. Þá er að finna í mörgum skjaldarmerkjum, allt frá dögum Rómverja, enda er örn tákn guðsins Júpíters og síðar Rómarkeisara. Eitt stjörnumerkið (Aquila) hefur verið kennt við örn um þúsundir ára, enda minnir það á fljúgandi fugl. Örnum bregður víða fyrir í goðatrú, allt frá Forn-Grikkjum til norrænnar goðafræði. Örn átti að varðveita þrumufleyginn, einkennisvopn Seifs, og Seifur dulbjóst sem örn er hann dró Ægínu, dóttur vatnakóngsins Asopusar, á tálar. Þetta minnir reyndar á frásögn Snorra-Eddu (í Skáldskaparmálum) um Þjasa jötun sem brá sér í arnarlíki og rændi Iðunni. Seifur var einnig í arnarham er hann nam sveininn Ganýmedes á brott og kom honum síðar fyrir sem arnarmynd á himinhvolfinu.
Í Grímnismálum Snorra-Eddu segir að örninn sé eitt af því sem einkenni salarkynni Óðins. Sagt er frá erni er situr á askinum Yggdrasil í Gylfaginningu í Snorra-Eddu og eins hvernig vindurinn er tilkominn en það er þegar jötuninn Hræsvelgur bregður sér í arnarham og flýgur mikinn. Óðinn, og fleiri norræn goð, brugðu sér iðulega í arnarlíki eða tóku á sig arnarham. Tókst Óðni með því móti að komast undan með Suttungsmjöð (þ.e. skáldskapargáfuna) eins og sagt er frá í Gylfaginningu.
Sagnaminni og hindurvitni
Margar sögur eru til um erni og eiga sumar þeirra rætur þúsund ár aftur í tímann. Þessi minni koma víða fyrir í sögnum frá fyrri tímum hér á landi, þar á meðal um erni sem ræna börnum. Örnum bregður einnig fyrir í mörgum ljóðum, málsháttum og spakmælum, þar á meðal í Biblíunni, og hindurvitnum á borð við lausnarsteina sem áttu að vera í arnarhreiðrum en þeir þóttu mikið þarfaþing fyrir konur í barnsnauð. Hérlendis var mikil trú á arnarklóm og áttu þær að vernda hús fyrir bruna. Þá voru arnarfjaðrir, arnarlungu og arnarblóð höfð til ýmissa töfrabragða, einkum hjá suðrænum þjóðum. Stundum gerðu menn gripi úr arnarklóm, m.a. er varðveitt slík budda úr V-Skaftafellssýslu frá 19. öld. Þá lét Pétur Eggerz í Akureyjum á Breiðafirði gera silfurslegna kertastjaka úr arnarklóm um 1880 en ekki er vitað hvort þeir hafi varðveist.
Örninn og blessuð börnin
Sterklegur fugl og stór er örn, stundum hremmir hann lítil börn, segir í gömlum húsgangi. Til eru margar sagnir um erni sem eiga að hafa tekið börn. Þær hafa þó flestar á sér mikinn þjóðsagnablæ enda nær allar skráðar löngu eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst. Hér á landi tengjast þessar sögur oft örnefnum á borð við Sorgarhnaus og Tregagil og sögupersónurnar eru oftast nafnlausar – reifabörn og mæður sem sprungu af harmi. Hliðstæðar sögur er víða að finna og má rekja þær í ýmsum myndum allt til goðsagna Grikkja. Ganýmedes var fríðleikspiltur í Tróju sem Seifur festi ást á og brá guðinn sér í arnarlíki, nam drenginn á brott og flaug með hann í ríki sitt á Ólympsfjalli. Þetta sagnaminni kann að vera rótin að hinum mýmörgu sögum um barnsrán arna víða um heim. Slíkar frásagnir eru þó sjaldgæfar í gömlum bókmenntum hér á landi en má m.a. finna í Þorsteins þætti bæjarmagns sem er ein af Fornaldarsögum Norðurlanda.
Mönnum hefur ávallt reynst erfitt að sætta sig við þegar börn hverfa sporlaust og reyna þá að skýra slíkt með ýmsu móti. Langalgengustu sögurnar um horfin börn tengjast álfum en ernir koma stundum við sögu. Frægasta sagan hér á landi er um örn sem tók tveggja ára stúlkubarn á Skarði á Skarðsströnd sumarið 1879 en það bjargaðist síðan á ævintýralegan hátt vegna snarræðis Boga timburmanns Magnusens á Skarði. Sú frásögn var þó ekki skráð eftir fórnarlambinu fyrr en rúmum 60 árum eftir atburðinn og birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1942. Sögumaðurinn mundi eðlilega ekki eftir neinu frá þessum örlagaríka degi en hafði vitneskju sína eftir móður sinni.
Sagnaminni
Allmörg sagnaminni tengjast örnum og eru slíkar sögur til í ýmsum myndum hér á landi sem annars staðar:
- Náörn – ernir leggjast á dauða menn
- Örn ræðst á fullorðið fólk
- Örn tekur börn
- Örn tekur hund (og kött), elsta dæmið er úr Eyrbyggju
- Köttur skríður upp á bak arnar og er borinn á brott
- Ernir taka kópa og drukkna/farast
- Örn festir kló í laxi og drukknar (gæfumerki ef menn geta bjargað fuglinum)
- Örn tekur skinnbrók og berst undan vindi til hafs
- Menn múlbinda arnarunga í hreiðrum og hirða það sem örninn færir ungunum
- Menn bjarga örnum sem eru með ofvaxinn gogg (gæfumerki)
Hjátrú
Margvísleg hjátrú tengist örnum og einstökum líkamshlutum þeirra:
- Arnarfjöðurstafur: börn, sem drekka mjólk úr slíkum staf, verða gáfuð
- Arnarfjöður, fyllt „kvikasilfri“, er tilvalin til að ná ástum kvenna
- Arnarfjöður bætir minnið
- Arnarfjöður notuð til að koma í veg fyrir þjófnað og til blekkinga
- Arnarfjöður til hjálpar konum í barnsnauð, gerði sama gagn og lausnarsteinar
- Arnargall, lagar augnveiki
- Arnarkló skal leggja við bakverk
- Arnarfjöður notuð til blekkinga
- Arnarkló til varnar bruna
Friðun og verndun
Upp úr miðri 19. öld var farið að drepa erni skipulega og jafnvel heitið ríkulegum verðlaunum hverjum þeim sem dræpi þennan ógnvald og framvísaði klónum til sannindamerkis. Á sama tíma var lögboðin eitrun fyrir refi og þar sem ernir éta hræ var þeim ekki síður hætta búin af þeim aðgerðum en beinum ofsóknum. Afleiðing þessa var að örnum fækkaði ört og þeir gereyddust sem varpfuglar víðast hvar á landinu.
Örninn friðaður 1914
Skömmu eftir aldamótin 1900 varð ýmsum ljóst að arnarstofninn var hruninn. Meðal þeirra var danski fuglafræðingurinn Richard Hørring sem ferðaðist um landið 1905–1908 og sá aðeins örfáa erni. Hann kom þessum upplýsingum áleiðis til tveggja helstu fuglafræðinga landsins: Bjarna Sæmundssonar dýrafræðings og Peters Nielsens, faktors á Eyrarbakka. Þeir beittu sér fyrir friðun arnarins á næstu árum en einnig fyrir afar mikilvægri heimildaöflun um erni og varp þeirra. Sú vinna lagði grundvöll að þekkingu okkar á arnarstofninum allt frá 1880 og fram yfir 1930.
Hinn 10. nóvember 1913 samþykkti Alþingi lög um friðun fugla og eggja. Merkustu nýmæli þeirra voru alfriðun arna í fimm ár, frá og með 1. janúar 1914. Slíkt var einsdæmi á þessum tíma og reyndar í fyrsta sinn sem örninn var friðaður í nokkru landi. Um þetta leyti voru síðustu ernirnir að deyja út á Bretlandseyjum og Norðmenn ofsóttu erni af kappi, greiddu reyndar verðlaun fyrir arnardráp allt til 1968.
Í nefndaráliti með friðunarfrumvarpinu sumarið 1913 kom fram að örninn væri nú mjög sjaldgæfur orðinn og það verði „að teljast óviðfelldið að örninn verði hér útdauður með öllu“. En þingmenn vildu ekki „alfriða hann til langframa, einungis reisa skorður við því að honum sé gjöreytt“.
Friðaður skamman tíma í senn
Þegar friðun arnarins rann út í ársbyrjun 1919 samþykkti Alþingi, án mikillar umræðu, að friða örninn næstu 10 árin. Þessi lög voru síðan framlengd til 10 ára í senn, allt til 1954, en þá var örninn friðaður ótímabundið eins og aðrir fuglar sem menn vildu banna veiðar á. Eftir á að hyggja hefur það verið snjallt herbragð af þeim sem friða vildu örninn að gera það einungis fá ár í hvert sinn og slá þar með vopnin úr höndum þeirra sem mótfallnir voru friðun ránfugla til langframa.
Í hættu í hálfa öld – þrátt fyrir friðun
Þegar ernir voru friðaðir árið 1914 er talið að í landinu hafi verið innan við 40 pör. Fuglunum hélt áfram að fækka fram yfir 1920, þrátt fyrir friðun, og útbreiðslan dróst saman. Stofninn var því aðeins um 25 pör og síðan 20 pör fram undir 1970, og innan við helmingur þeirra kom upp ungum árlega. Arnarstofninn virðist hafa náð að rétta lítillega úr kútnum milli 1920 og 1939 en það ár var stofninn í fyrsta sinn metinn af sæmilegri nákvæmni, í vettvangskönnun breskra stúdenta.
Örnum tók að fækka aftur um miðja 20. öldina þegar eitrun var lögboðin 1949 og reglur síðan hertar 1955 og 1957 með því að skylda sveitarfélög að bera út refaeitur ár hvert. Þó svo að eitrunin væri bönnuð á varpsvæði arna á vestanverðu landinu var það bann virt að vettugi og ernir flögruðu auk þess í aðra landshluta og drápust þar af eitrinu.
Á árunum 1945 til 1948 ferðist Björn Björnsson, ljósmyndari frá Norðfirði, víða um varpsvæði arnarins við Breiðafjörð. Honum ofbauð framganga manna gagnvart erninum og skeytingarleysi fyrir lögum og reglum; ernir voru vísvitandi drepnir, hreiður eyðilögð og refaeitur hafði orðið mörgum örnum að aldurtila á undangengnum árum. Björn sendi menntamálaráðuneytinu erindi um málið og var þá sýslumönnum falið að brýna fyrir mönnum að virða friðunarákvæðin. Stjórnvöld skiptu sér að öðru leyti lítið af erninum en sáu þó til þess að hann væri áfram friðaður.
Stofnun Fuglaverndarfélags Íslands árið 1963 markaði tímamót í verndun arnarins. Með markvissum verndaraðgerðum og áróðri tókst að bæta varpárangur arna og eins að draga úr dauðsföllum.
Vöxtur arnarstofnsins upp úr 1970 er án efa því að þakka að draga tók úr afföllum á ungum örnum með því að bannaður var útburður á eitruðum hræjum 1964. Fyrstu batamerkin á arnarstofninum komu fram 5–6 árum eftir að bannið gekk í gildi en ernir fara að verpa 5–7 ára gamlir.
Varpstaðir arna voru friðaðir og umferð í grennd við virk hreiður takmörkuð, fyrst með reglugerð árið 1996 og síðan með lögum 2004. Að öðru leyti hafa beinar verndaraðgerðir fyrst og fremst falist í öflugu eftirliti með arnarvarpi, áróðri og söfnun upplýsinga um ástand stofnsins. Einnig hafa ernir, sem lent hafa í vanda (t.d. brotnað eða lent í grút), verið endurhæfðir.
Örninn og Fuglavernd
Fuglaverndarfélag Íslands (Fuglavernd) var stofnað 12. janúar 1963. Á stofnfundi félagsins lagði Björn Guðbrandsson ríka áherslu á tvennt til að styrkja arnarstofninn: eitrunarbann og góð samskipti við bændur á arnarslóðum. Björn og félagar hans fóru um áratugaskeið í heimsókn til hinna svokölluðu arnarbænda. Markmið þessara ferða var bæði að styrkja tengslin við þá sem bjuggu í nábýli við örninn en einnig að kanna ástand og viðkomu arnarstofnsins. Hinn vísindalegi grundvöllur þessara ferða byggði á vinnu Agnars Ingólfssonar, síðar prófessors. Agnar rannsakaði örninn kringum 1960 og ferðaðist síðan með Birni á arnarslóðir árið 1964. Upp frá því tók félagið saman árlegar trúnaðarskýrslur um arnarstofninn þar sem gerð var grein fyrir þessum athugunum.
Fljótlega fór Fuglaverndarfélagið að beita sér fyrir því að tekin væru á leigu hlunnindi til að draga úr truflun í grennd við arnarhreiður. Einnig voru greidd verðlaun fyrir arnarunga sem komust upp og kostað eftirlit með örnum og útburði hræja á vetrum. Þetta var gert af miklum vanefnum og oft úr eigin vasa frumherjanna. Björn Guðbrandsson og liðsmenn hans í Fuglaverndarfélaginu héldu þessu starfi ótrauðir áfram í næstum þrjá áratugi.
Ógnir
Varpárangur arna hér á landi er mun minni en víðast hvar annars staðar og vöxtur stofnsins hægari. Örninn er afar viðkvæmur fyrir ónæði. Því misferst varpið iðulega ef ernir eru truflaðir við hreiður en sem betur fer virða þó langflestir hreiðurhelgi hans. Ernir verpa á sömu stöðum ár eftir ár og kynslóð eftir kynslóð og því er mikilvægt að tryggja verndun varpstaðanna um ókomin ár. Örninn á sér vart nokkurn óvin í náttúrunni hér á landi og honum stafar því fyrst og fremst hætta af manninum. Sumt hefur bein áhrif á lífslíkur eða viðkomu einstakra fugla, eins og skotmennska og vísvitandi truflun við hreiður. Fjórðungur arna, sem fundust dauðir á árunum 2000–2009 og höfðu yfirgefið æskuóðalið, reyndist hafa verið skotinn. Umsvif mannsins hafa með tímanum þrengt að búsvæðum arna. Um 8% af þekktum varpstöðum eru ónýtir eða í yfirvofandi hættu vegna framkvæmda, einkum vegagerðar. Þá er frístundabyggð vaxandi vandamál.
Nokkur dæmi eru þess að ernir hafi beðið bana við að fljúga á línur. Eins hafa ernir orðið fyrir bílum og sumir þeirra drepist við það en aðrir skaddast og orðið að aflífa þá. Ernir hafa iðulega fundist ófærir og jafnvel dauðir eftir að hafa lent í grút og þá líklega oftast af selshræjum en einnig hvalhræjum. Sterkar vísbendingar eru um aukin afföll ungra arna á þeim árum sem seladrápsherferðin stóð yfir, á árunum 1982−1990. Á þeim tíma voru hræ skilin eftir um víðan völl en menn hirtu einungis kjálkana og skiluðu þeim til verðlauna hjá hinni alræmdu Hringormanefnd.
Skotið á fjórðung arna
Á hverju ári finnast nokkrir dauðir ernir og ber að skila slíkum fuglum til Náttúrufræðistofnunar. Þar eru þeir krufðir, gegnumlýstir og sýni tekin úr þeim til ýmissa rannsókna. Með gegnumlýsingu er hægt að greina brotin bein og högl og flísar úr riffilkúlum. Einnig er reynt að komast að dánarorsök en sum hræin eru það illa farin að slíkt er illmögulegt.
Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á hræjum friðaðra fugla, sem fundist hafa frá 2000, sýna að fjórði hver örn og fjórði hver fálki, sem fannst dauður og hafði yfirgefið heimaóðal, hafði verið skotinn. Báðar tegundirnar eru á válista og hafa verið stranglega friðaðar um langt skeið. Á tíu ára tímabili (2000–2009) fundust hér 40 dauðir ernir. Af þeim örnum sem fundust dauðir og höfðu yfirgefið æskuóðalið var 21 krufinn og röntgenmyndaður. Fimm þeirra (24%) reyndust hafa verið skotnir (fundust allir við Breiðafjörð) og hafa tveir þeirra örugglega drepist af þeim sökum. Aðrir fimm (24%) höfðu lent í grút og veslast upp og fjórir (19%) höfðu annaðhvort flogið á eða lent fyrir bíl. Ekki var hægt að greina með vissu dánarorsök hinna sjö (33%).
Þrengt að búsvæðum
Umsvif mannsins hafa þrengt að búsvæðum arna, bæði fæðu- og varpstöðum. Arnarstofninn var mjög fáliðaður þegar vegagerð með stórvirkum vélum hófst hér upp úr heimsstyrjöldinni síðari og því voru mörg arnarsetur komin í eyði á þeim tíma. Allmörgum varpsvæðum arna hefur verið raskað með framkvæmdum eftir það, svo að nú eru um 8% af gömlum og yfirgefnum arnarsetrum á landinu öllu (14 af 170) sennilega óbyggileg. Þá eru 3% af núverandi arnarsetrum (5 af 170) undir miklu álagi eða gætu orðið illbyggileg ef fram heldur sem horfir. Alls er hér um að ræða 11% af þekktum arnarsetrum á landinu og eru fjögur þeirra við norðanverðan Breiðafjörð. Öll eru þau enn í byggð en hafa orðið fyrir röskun eða eru í hættu vegna vegagerðar. Á 170 þekktum arnarsetrum hér á landi eru þekktir alls tæplega 400 einstakir varpstaðir og má telja um 30 þeirra (7,5%) ónýta fyrir arnarvarp eða í yfirvofandi hættu vegna framkvæmda. Þar á vegagerð og efnistaka tengd henni langstærstan hlut að máli eða í 2/3 tilvika. Meðal fornra arnarvarpstaða, sem hafa verið grátt leiknir af slíkum framkvæmdum, er Arnarsteinn í Berserkjahrauni.
Á allra síðustu árum hafa frístundahús verið byggð víða á varpslóðum arna og eru nokkur þeirra nánast ofan í gömlum arnarhreiðrum. Þá þróun verður að stöðva. Aukin ferðamannastraumur á arnarslóðum, fyrirhyggjulausir landeigendur og framkvæmdamenn geta valdið örnum ónæði og jafnvel skaða ef fyllstu aðgátar er ekki gætt.
Mengunarefni draga úr varpárangri
Viðkoma arna hér á landi er mun minni en víðast hvar og vöxtur stofnsins er einnig hægari. Rannsóknir erlendis sýna að þrávirk lífræn mengunarefni geta haft neikvæð áhrif á frjósemi ýmissa dýrategunda. Sumarið 2001 hófst rannsókn á áhrifum mengunarefna á vegum Náttúrustofu Vesturlands, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Rannsóknin er hluti af viðameira verkefni sem ætlað er að skýra litla viðkomu arnarins. Safnað var fúleggjum og reyndist sterk fylgni milli varpárangurs á einstökum arnarsetrum og efnastyrks í eggjum. Egg með háum efnastyrk komu að jafnaði frá þeim setrum þar sem varp hafði gengið illa en egg með lágum styrk komu frá arnarsetrum þar sem varp hafði gengið vel. Af einstökum efnum fannst mest af afleiðu skordýraeitursins DDT. Bannað hefur verið að nota efnið á Vesturlöndum í um þrjá áratugi og var það afar lítið notað á Íslandi. Þetta sýnir hversu þrávirk efnin eru og þau berast hingað með veðri og vindum. Tuttuguogfimmfaldur munur reyndist vera á styrk efna í minnst og mest menguðu eggjunum. Helsta fæða arna hér er tiltölulega mikið mengaðir sjófuglar, fýll og æðarfugl, sem hvor um sig er um 30% af lífþyngd arnarfæðu að sumarlagi.
Tjón af völdum arna
Sagnir benda til þess að menn hafi haft horn í síðu arnarins frá fyrstu tíð enda var talið að ernir dræpu lömb í stórum stíl. Ekki bætti úr skák þrálátur orðrómur um að ernir nældu sér í ungbörn. Með vaxandi áhuga á nýtingu æðardúns á 19. öld fjölgaði árekstrum manna og arna, enda töldu margir, eins og sumir gera reyndar enn í dag, að örninn væri hinn versti vargur í æðarvörpum.
Lambadráp
Fjölmargar heimildir skýra frá meintu lambadrápi arna fyrr á öldum og fram yfir 1960. Rannsóknir Agnars Ingólfssonar leiddu í ljós að ernir gátu aðeins hafa tekið lítinn hluta þeirra lamba sem þeim var kennt um að hafa drepið. Reyndar eru langflestar fullyrðingar um að ernir hafi tekið lifandi lömb byggðar á veikum forsendum; lömb hafa horfið á óskýranlegan hátt, ær, sem jafnan voru tvílembdar, hafa nú verið einlembdar; lambshræ hafa fundist við arnarhreiður og ernir hafa sést éta hræ. Lambsleifar finnast öðru hverju við arnarhreiður hér á landi en af útliti þeirra að dæma eru þau flest ef ekki öll af sjálfdauðu. Lambadráp hafarna heyrir því til algerra undantekninga, hér á landi sem annars staðar. Hið sama verður þó ekki sagt um gullörninn, fjarskyldan ættingja, hann er vargur í véum.
Tjón á æðarvarpi
Örn og æður nýta sama kjörlendi til varps og fæðuöflunar og hafa gert alla tíð. Ernir drepa talsvert af æðarfugli sér til matar en mestu munar þó um þann usla og stundum tjón sem þeir geta valdið í æðarvörpum. Ernir hafa sótt í æðarvörp frá fyrstu tíð og stundum valda slíkar heimsóknir miklu uppnámi. Fræg er sagan frá lokum 12. aldar um örninn í Viðey sem tókst ekki að hemja fyrr en heitið var á Þorlák helga. Þá fyrst tókst mönnum að góma gripfuglinn og farga honum.
Ofsóknir
Með vaxandi áhuga á æðarrækt á 19. öld óx óvild manna í garð arnarins og voru þá stofnuð félög til að fækka og jafnvel útrýma örnum og öðrum keppinautum í dýraríkinu. Verðlaun voru greidd fyrir fellda fugla frá lokum 18. aldar og fram yfir aldamótin 1900. Þessar ofsóknir báru ekki tilætlaðan árangur fyrr en með tilkomu hraðbrennandi púðurs laust fyrir miðja 19. öld, en sú tækniframför gerði mönnum kleift að skjóta fugla á flugi. Einnig urðu mikil umskipti til hins verra þegar farið var að nota striknín í duftformi til refaeitrunar laust fyrir 1890.
Háar verðlaunagreiðslur æðarbænda fyrir dráp á örnum, fálkum og fleiri óvinum æðarfuglsins á seinni hluta 19. aldar leiddu til umfangsmikilla ofsókna, enda til mikils að vinna fyrir skotveiðimenn, jafnvel 2−3 mánaða vinnumannslaun fyrir að drepa einn örn. Hvatt var til arnardráps með verðlaunum og komu þar við sögu ýmis samtök bænda, sýslusjóðir og einstaklingar. Stórfelldustu fækkunaraðgerðirnar voru þó runnar undan rifjum æðarbænda og samtaka þeirra.
Umtalsvert fjárhagslegt tjón af völdum arna er þó fremur fátítt og æðarvarp er með miklum blóma við Breiðafjörð, í mikilvægustu heimkynnum arna og æðarfugls hér á landi. Þar sem ernir geta vissulega valdið tjóni á æðarvarpi vilja sumir bændur að ríkið beri þann skaða sem hlotist getur af friðun arnarins. Hæstaréttardómur frá 1966 tók undir þau sjónarmið en ríkisvaldið hefur hins vegar ekki viðurkennt bótaskyldu sína.
Dýrkun vargsins
„Allt sækir að oss, elskuleg guðs börn, hrafninn, örninn og helvízkur kjóinn,“ var ræða prestsins í Möðrudal. Það var góð ræða, og söfnuðurinn skildi hana og vissi, að vargurinn, grimmdin og slægðin var frá því illa, en ekki frá hinu góða. Bara að prestarnir héldu þess háttar ræður, sem fólkið skildi, þá væri vargurinn ekki dýrkaður, ekki grimmdin og brennivínið. Þá væri hrekklausum unglingum sagt til þegar brennivínssalar, glysmangarar og aðrir slíkir leiða þá á glapstigu, aðeins til að hafa af þeim pening sem djöfullinn hrifsar aftur af ræningjum með hörmungum og kvölum fyrir þá sjálfa og alla þeirra ætt.“
(Úr grein eftir Hannes Jónsson, kaupmann í Reykjavík, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 21. júní 1970.)
Vöktun og rannsóknir
Vöktun arnarins, sem hófst árið 1959, er ein lengsta samfellda rannsókn á fuglastofni hérlendis. Fuglaverndarfélagið sá um þessar athuganir fyrstu áratugina, í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem leitt hefur verkefnið síðan 1993. Liðsmenn Fuglaverndar gegna þó áfram lykilhlutverki við vöktunina. Mörg undanfarin ár hafa þeir Finnur Logi Jóhannsson og Hallgrímur Gunnarsson verið þar fremstir í flokki. Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi hefur komið að þessu starfi frá 2001 og síðar bættust Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík og Náttúrustofa Suðvesturlands í Sandgerði í hópinn.
Vöktun
Frá 1987 hafa arnarpörin verið talin úr lofti snemma vors, þ.e. áður en afföll verða á varpinu. Það tryggir að sem flestir ernir séu viðlátnir þegar setrin eru heimsótt. Fyllsta aðgát er höfð þegar flogið er yfir arnarsetrin og láta ernirnir því yfirleitt þessar heimsóknir sér í léttu rúmi liggja. Ferðir fótgangandi manna og báta valda miklu meiri styggð hjá hreiðurörnum en lítil flugvél sem svífur yfir varpstaðina með hreyfilinn í hægagangi. Varpárangur arna er síðan metinn síðsumars úr lofti, á láði og legi. Einnig er haft samband við heimamenn á arnarslóðum til að leita nánari fregna af örnum.
Rannsóknir
Örninn er afar viðkvæmur og því þarf mikla alúð og nærgætni í umgengni við þennan sjaldgæfa fugl. Rannsóknir á örnum hafa lengst af beinst að því að meta hversu margir fuglar væru á landinu og eins hversu margir ungar hafa komist á legg. Einnig hefur verið farið í saumana á tiltækum gögnum um útbreiðslu og tíðni arna áður fyrr. Samhliða heimsóknum í hreiður hafa ungar verið merktir, einkum á síðari árum, og fæðuleifum safnað til greiningar. Þá hefur tjón af völdum arna verið kannað tvívegis; 1959−60 og 1991. Loks má nefna rannsóknir á erfðabreytileika arnarstofnsins og áhrifum mengunarefna sem hófust 2001.
Fylgst með arnarstofninum
Arnarstofninn var fyrst metinn með sæmilegri vissu kringum 1920 á grundvelli ítarlegra fyrirspurna þeirra Bjarna Sæmundssonar dýrafræðings og Peter Nielsens, faktors og fuglaáhugamanns á Eyrarbakka. Framtak þessara fuglaverndarmanna lagði ómetanlegan grunn að þekkingu okkar á fjölda og dreifingu arnarstofnsins frá því um aldamótin 1900 og raunar fram yfir 1930.
Fyrsta talningin á arnarstofninum var gerð af breskum stúdentum árið 1939. Frá þeim tíma og fram undir 1960, þegar reglulegt eftirlit hófst með arnarstofninum, eru til allgóðar upplýsingar um íslenska arnarstofninn sem byggjast einkum á vinnu þeirra Björns Björnssonar fuglaljósmyndara og Finns Guðmundssonar fuglafræðings.
Árið 1959 fór Agnar Ingólfsson, síðar prófessor, um arnarslóðir, taldi erni og aflaði mikillar vitneskju um arnarvarp á næstliðnum árum. Agnar safnaði jafnframt tiltækum upplýsingum um sögu og þróun arnarstofnsins til þessa tíma og lagði þar með grunn að vöktun Fuglaverndarfélagsins og Náttúrufræðistofnunar á arnarstofninum sem staðið hefur óslitið frá 1963.
Merkingar
Alls hafa verið merktir um 530 ernir hér á landi (til og með 2012), aðallega stálpaðir ungar í hreiðrum. Elsti örninn, sem vitað er um hérlendis, er 19 ára karlfugl sem var enn á óðali árið 2012.
Sumarið 2004 voru arnarungar litmerktir í fyrsta sinn á Íslandi, líkt og gert hefur verið síðan 1976 víða í Norður-Evrópu. Notast er við alþjóðlegt merkingakerfi þar sem hægt er að greina á færi upprunaland. Ef menn komast nær fugli er hægt að sjá einstaklingskóða með sterkum sjónauka eða fjarsjá. Á hægri fæti er auðkenni Íslands: rautt yfir bláu. Það merki er jafnframt með hlaupandi númeri og heimilisfangi merkingastöðvar (Náttúrufræðistofnunar Íslands). Á vinstri fæti er merki sem auðkennir árið sem unginn var merktur – t.d. ljósblátt fyrir 2004 – ásamt einstaklingskóða. Frá og með 2012 hefur litur á vinstri fæti verið svartur og verður svo framvegis.
Upplýsingar um ferðir og afdrif arna hafa margfaldast eftir að farið var að litmerkja unga árið 2004. Nú er til dæmis þekkt að ungir fuglar af öllu varpsvæði arnarins fara á síld í fjörðunum á norðanverðu Snæfellsnesi á útmánuðum. Eins er nákvæmlega vitað hvenær sumir ernir helga sér óðul, hefja varp og koma upp ungum og hversu langt þeir flytja sig frá heimahögum. Yngsti örninn, sem komið hefur upp ungum, var fimm ára karlfugl sem varp um 12 km frá æskuóðalinu. Sá fugl (assa) sem lengst hefur farið fannst sumarið 2012 við hreiður tæpa 100 km frá æskuóðalinu. Systir hennar frá sama ári (2005) átti eldra met (87 km).
Þeir sem verða varir við merkta erni eru vinsamlega beðnir að tilkynna það til Náttúrufræðistofnunar Íslands, fuglamerki@ni.is eða á netfangið kristinn@ni.is.
Framtíð arnarins
Fylgst hefur verið lengi með íslenska hafarnarstofninum og er saga hans betur þekkt en hjá nokkurri annarri fuglategund hér á landi. Stofninn hefur þrefaldast frá því um 1970 en örninn er þó enn meðal sjaldgæfustu varpfugla landsins og telur nú 69 pör. Fuglarnir hafa raunar ekki verið fleiri frá því fyrir friðun arnarins árið 1914. Ríflega þriðjungur þekktra arnarsetra er í ábúð og er útbreiðslan takmörkuð við vestanvert landið. Viðhorf almennings til verndunar arnarins er afar jákvætt og hið sama gildir um stjórnvöld og flesta landeigendur. Stuðningur bænda skipti sköpum þegar örninn var í mestri hættu upp úr 1960 en endurheimt arnarstofnsins byggðist einnig á því að unnt var að draga úr afföllum á örnum er eitrun fyrir refi var bönnuð árið 1964.
Arnarstarfið undanfarna hálfa öld frá stofnun Fuglaverndarfélags Íslands sýnir að með markvissum verndaraðgerðum er hægt að bjarga fáliðuðum og einangruðum stofni úr bráðri hættu. Jafnframt að friðun ein og sér dugir skammt ef ekki er dregið úr öðrum ógnum. Verndun arnarins snýst ekki aðeins um að viðhalda núverandi varpstofni, heldur einnig að þessi fáliðaði stofn vaxi frekar, dreifist um landið og endurheimti sín fornu óðul.
Helstu heimildir um erni á Íslandi
- Agnar Ingólfsson 1961. The distribution and breeding ecology of the White-tailed Eagle Haliaeetus albicilla (L.) in Iceland. B.Sc. (Hons.) ritgerð við Aberdeenháskóla. 58 bls.
- Arnold, E.L. & P.I.R. MacLaren 1940. Notes on the habits and distribution of the White-tailed Eagle in N.W. Iceland, 1939. Brit. Birds 34: 4−11.
- Birgir Kjaran 1967. Haförninn. Reykjavík. Bókfellsútgáfan. 205 bls.
- Bjarni Sæmundsson 1922. Upplýsingar um fækkun á örn, val og himbrima. Vísir 12(88): 2–3; 12(89): 2.
- Finnur Guðmundsson 1967. Haförninn. Bls. 95–134. Í: Birgir Kjaran. Haförninn. Reykjavík. Bókfellsútgáfan.
- Hailer, F., B. Helander, A. O. Folkestad, S. A. Ganusevich, S. Garstad, P. Hauff, C. Koren, V. B. Masterov, T. Nygård, J. A. Rudnick, S. Shiraki, K. Skarphedinsson, V. Volke, F. Wille and C. Vilà 2007. Phylogeography of the white-tailed eagle, a generalist with large dispersal capacity. Journal of biogeography 34: 1193–1206.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 1994. Tjón af völdum arna í æðarvörpum. Skýrsla unnin af Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir Umhverfisráðuneytið. 120 bls.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2003. Sea Eagles in Iceland: population trends and reproduction. Bls. 31–38 Í B. Hellander, M. Marquiss og B. Bowermann (ritstj.) SEA EAGLE 2000. Proceedings from an international conference at Björkö, Sweden, 13–17 September 2000. Swedish Society for Nature Conservation/SNF & Åtta. 45 Tryckeri AB. Stocholm.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2003. Örninn og Fuglaverndarfélagið. Fuglar 1: 10–17.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2004. Land of the Eagle. A Royal Presence in the Northwest. Icelandic Geographic 3: 56–67.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2005. Ernir og vegagerð í Djúpafirði. Unnið fyrir Vegagerðina. Náttúrufræðistofnun. NÍ–05004. 19 bls.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011. Verndun og endurreisn íslenska arnarstofnsins. Bls. 107–109. Í: Vistheimt á Íslandi. Ása L. Aradóttir og Guðmundur Halldórsson ritstj. Útg. Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins.
- Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011. Restoration of the Icelandic Sea Eagle in Iceland. Restoring the North – Challenges and opportunities. International Restoration Conference, Iceland, October 20–22, 2011. Pp. 18-21 in Guðmundur Halldórsson (ed.). Book of abstracts: Soil Conservation Service of Iceland and Agricultural University of Iceland.
- Kristín Ólafsdóttir, Róbert A. Stefánsson, Menja von Schmalensee, Elín V. Magnúsdóttir, Jörundur Svavarsson og Kristinn H. Skarphéðinsson 2004. Þrávirk lífræn mengunarefni í íslenska haferninum. Afmælisráðstefna Líffræðifélags Íslands og Líffræðistofnunar Háskólans, „Líffræði – vaxandi vísindi“, 19.–20. nóvember. Útdráttur á bls. 76.
- Kristín Ólafsdóttir, Róbert A. Stefánsson, Menja von Schmalensee, Elín V. Magnúsdóttir, Jörundur Svavarsson, Böðvar Þórisson, Hallgrímur Gunnarsson, Finnur Logi Jóhannsson, Þorvaldur Björnsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2011. Þrávirk lífræn eiturefni í íslenska hafarnarstofninum 2001-2011. Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi – vöktun og rannsóknir. Útdráttur í Ráðstefnuriti á bls. 12, sjá http://www.matis.is/media/radstefnur-matis/Umhverfismengun_Islandi_voktun_februar_2011.pdf.
- Nielsen, P. 1921. Havörnens (Haliaeetus albicilla) udbredelse paa Island i de sidste 30 Aar. Dansk Orn. Foren. Tidsskr. 15: 69−83.
Um Haförninn
Útgefandi: Fuglavernd (Fuglaverndarfélag Íslands)
Rit þetta var gefið út á 50 ára afmæli Fuglaverndar og í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að örninn var friðaður. Það er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og útgáfa þess er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og sjóði Hjálmars R. Bárðarsonar.
Rit þetta má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósritun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, þar með talið tölvutækt form, án skriflegs leyfis höfunda og útgefanda.
Höfundur texta: Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Höfundar ljósmynda: Daníel Bergmann, Hjálmar R. Bárðarson, Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Skýringarmyndir: Anette T. Meier
Umsjón og umbrot: Daníel Bergmann
© 2013 Fuglaverndarfélag Íslands
©Fuglavernd 2021 | Hverfisgötu 105 | 101 Reykjavík |Opið mán-fim kl. 9-13 | +354 562 0477| fuglavernd@fuglavernd.is