Lög Fuglaverndarfélags Íslands

1. gr.
Félagið heitir FUGLAVERNDARFÉLAG ÍSLANDS. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er verndun fugla og búsvæða þeirra, sérstaklega tegunda sem eru í útrýmingarhættu á íslandi.

Félagið leitast ekki eftir fjárhagslegum ágóða.

3. gr.
Tilgangi sínum mun félagið ná með eftirfarandi:
1. Með því að vekja áhuga landsmanna fyrir fuglalífi landsins með fræðslustarfsemi.
2. Með því að vinna með innlendum og erlendum fugla- og náttúruverndarsamtökum, sem hafa svipuð markmið og Fuglaverndarfélag Íslands.
3. Með því að aðstoða og standa að rannsóknum á fuglum og búsvæðum þeirra.
4. Með því að koma fram gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum, sem lúta að markmiðum félagsins.

4. gr.
Félagar geta allir orðið, hvar sem þeir eru búsettir á landinu eða erlendis. Aðalfundur kýs heiðursfélaga vegna starfa þeirra í þágu félagsins. Skulu þeir ekki greiða árgjald.

5. gr.
Stjórn félagsins skipa 7 félagsmenn og ræður hún öllum málum milli félagsfunda. Hver stjórnarmaður skal kosinn til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega en stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti; varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Annað árið ganga úr stjórninni formaður og þrír aðrir stjórnarmenn, en hitt árið þrír stjórnarmenn.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef fjórir stjórnarmenn eru mættir, enda hafa allir stjórnarmenn verið boðaðir á fundinn. Á lögmætum stjórnarfundi ræður afl atkvæða úrslitum mála.

Enginn fastlaunaður starfsmaður félagsins getur jafnframt verið í stjórn þess.

Tillögum til stjórnarkjörs skal skila til stjórnar félagsins fyrir 15. febrúar þess árs er stjórnarkjör fer fram.

6. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal dagskrá hans vera sem hér segir:

 1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
 2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 7. gr.
 4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
 5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
 6. Ákvörðun árgjalds.
 7. Önnur mál.

7. gr.
Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins skulu berast stjórn í síðasta lagi 15. febrúar ár hvert og skulu þær kynntar í fundarboði aðalfundar.

8. gr.
Stjórnin boðar til aðalfundar og skal hann auglýstur með a.m.k. 10  daga fyrirvara. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti í úrslitum mála, nema hvað breytingar á samþykktum félagsins skulu hljóta a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi hafa þeir einir sem greitt hafa félagsgjald fyrir næstliðið ár og gengið hafa í félagið fyrir næstu áramót á undan aðalfundi.

9.gr.
Til félagsfundar getur stjórnin boðað, þegar henni þykir ástæða til. Einnig skal haldinn félagsfundur ef 25 félagar óska þess skriflega. Dagsskrár félagsfundar skal geta í fundarboði og með sama hætti og ef um aðalfund væri að ræða.

10. gr.
Eigi má slíta félaginu, nema það verði samþykkt á tveimur lögmætum félagsfundum með 2/3 greiddra atkvæða, með minnst mánaðar millibili. Verði félaginu slitið skal eignum þess ráðstafað til frjálsra félagasamtaka sem starfa að náttúruvernd á Íslandi samkvæmt ákvörðun félagsfundar.

 

Aðalfundur 21.mars 2012

 

Siðareglur

 • Fuglavernd viðurkennir rétt allra sem koma að starfsemi Fuglaverndar til að verða ekki fyrir skaða, misnotkun, ósanngjarnri meðferð og áreitni og reynir eftir fremsta megni að hindra að svo verði.
 • Fuglavernd tryggir öryggi starfsmanna og sjálfboðaliða Fuglaverndar með faglegum starfsháttum, góðri aðstöðu og viðurkenndum búnaði.
 • Fuglavernd hefur að leiðarljósi fagmennsku, virðingu, heiðarleika og sanngirni í öllum samskiptum og viðskiptum.
 • Fuglavernd leitast við að svara öllum fyrirspurnum, kvörtunum og óskum á faglegan og skilvirkan hátt.
 • Fuglavernd hefur í heiðri öll lög og reglur varðandi reksturinn og fylgir þeim eftir.
 • Fuglavernd tryggir að faglega sé staðið að bókhaldi og reikningsskilum.
 • Fuglavernd uppfyllir allar skyldur við starfsmenn með því að fara að lögum og gildandi kjarasamningum.
 • Fuglavernd sér til þess að starfsfólk fái viðeigandi þjálfun og fræðslu og að vinnuskilyrði séu við hæfi.
 • Fuglavernd sýnir í verki ábyrgð gagnvart umhverfi, náttúru og samfélagi.

 

Samþykkt á stjórnarfundi 10. desember 2019