Birkifræ eftir sumarið 2023

Eins og allir fuglavinir vita, þá eru birkifræ ein aðalfæða auðnutittlinga sem nú sækja í sólblómafræ í görðum þeirra er fóðra fugla. Fuglavernd hafði samband við Skógrækt Reykjavíkur og spurðist fyrir um hvernig stæði á því að það væri svo lítið af birkifræjum eftir sumarið 2023. Gústaf Jarl Víðarsson svaraði eftirfarandi:

“Sammála að það er ekki gott fræár hjá birki og fleiri trjátegundum. Ég hef heyrt að það sé svolítið af birkifræi á Vestfjörðum, en held að það sé lítið um það annars staðar.
Ég tel að ástæðan sé veðrið í vor, þar sem bar töluvert á trjáskemmdum á lauftrjám sem voru byrjuð að laufgast en fóru í illa í kaldri SV-átt sem var ríkjandi þegar kom fram á vor, en trén voru komin nokkuð af stað í apríl og farin að laufgast. Þá voru laufin svört og veðurbarin á mörgum lauftrjám og það hefur verið umtalsvert áfall fyrir þau. Trén náðu að laufgast aftur, en þetta hefur kostað þau talverða orku og hafa trén því ekki átt fyrir fræmyndun.

Síðastliðin ár hafa birkiþéla og birkikemba verið áberandi í birki og mætti kalla það faraldra sem hafa geisað í skógunum að vori og hausti. Þessi faraldrar hafa gert það að verkum að trén missa af ljóstillífun, ný laufblöð þurfa að vaxa og eiga þá ekki inni nægilega orku til þess að mynda fræ eins og þau gerðu annars. Vonandi minnkar það vandamál með sníkjuvespu sem nam land í sumar. Sjá; Náttúrulegur óvinur birkiþélu finnst á Íslandi | Skógræktin (skogur.is)

Ég gæti trúað að það verði ágætis fræár á næsta ári, þar sem sumarið varð síðan hlýtt og haustið langt.”

 

Fuglavernd þakkar Gústafi Jarli fyrir svarið.

Jólaopnun Fuglaverndar í Grasagarðinum í Reykjavík og fuglaskoðun krakka

Í stað jólaopnunar á Hverfisgötu verður Fuglavernd  í Grasagarðinum  3. desember í garðskálanum

Fuglavernd mun verða með ýmislegt á boðstólum:

-Fuglamatseðill til sýnis

-Fuglafóðrarar

-Fuglafóðurhús

-Fuglapóstkort/jólakort

-Fræðirit

-Kattakragar

-Sjónaukar

-…og fleira

Kl. 11 verður fuglaskoðun fyrir krakka á vegum Grasagarðsins.

Krökkum og fjölskyldum þeirra býðst að koma og kanna fuglalífið í garðinum og læra um fuglafóðrun. Þátttakendur eru hvattir til að koma með kíki með sér en einnig verður hægt að fá lánaðan kíki á staðnum.

Fuglaskoðunin hefst við aðalinngang Grasagarðsins kl. 11.

Gestir eru hvattir til að taka með sér nesti til að borða í ljósum prýddum garðskálanum eftir fuglaskoðunina.

Þátttaka er ókeypis og hjartanlega velkomin!

Margar gerðir fuglafóðrara

Skógarþröstur

Garðfuglakönnun 2022-23 hefst 30. október

Ljsm. Sindri Skúlason, skógarþröstur.

Garðfuglakönnun er árlegur viðburður Fuglaverndar sem snýst um að telja fugla í garðinum sínum. Fuglar heimsækja mest þá garða þar sem fóður stendur til boða. Könnunin er ætluð öllum sem hafa áhuga á fuglum og er ekki ýkja flókin þó hún virðist vera það við fyrstu sýn.

Það er hægt að telja fugla daglega, vikulega t.d. bara um helgar.

Eyðublöð eru tilbúin á heimasíðu Fuglaverndar sem hægt er að hlaða niður og prenta út ef vill.

Fyrir daglega notkun er oft handhægara að nota rissblað eða stílabók. Dæmi um skráningarblað sem maður notar daglega hér fyrir neðan. Þar sést t.d. að fyrst sáust 5 starar og það var skráð. En þegar næst var skoðað, skömmu seinna, voru þeir orðnir 12. Þá leggur maður ekki saman fimm og tólf heldur notar hærri töluna tólf sem fjölda stara þennan dag. Á þessu blaði eru skráðir þeir fuglar sem eru venjulega í görðum en það geta verið aðrar tegundir sem heimsækja garða reglubundið.  Þegar vikan er liðin tekur maður saman tölurnar, hæstu tölur hverrar tegundar, og færir inn í eyðublaðið sem finna má hér.

Það er ágætt að undirbúa garðfuglakönnunina með því að byrja að æfa sig í talningu og skráningu og þeir sem  fóðra fugla geta hafið fóðrun nokkrum dögum fyrir. Það má nefna að fólk sem bæði fóðrar fugla og tekur þátt í garðfuglakönnuninni lærir ótrúlega mikið um hegðun ýmissa fuglategunda bara með því að fylgjast með þeim.

Hvað gefur maður garðfuglum að éta? Hér eru upplýsingar

Fuglavernd selur einnig prentaða bæklinginn Garðfuglar í vefversluninni

Fuglavernd garðfuglafóðrun, Dýraþjónusta Reykjavíkur; björgun fugla, Grasagarðurinn; fuglafóðrarar

Á sunnudaginn kemur 20. nóvember.

-Fuglavernd kynnir garðfuglafóðrun; matseðill garðfugla og vörur tengdum fuglafóðrun.  Til sölu verða fræðslurit,  kattakragar og fóðrarar.  Fuglavernd mun einnig kynna Garðfuglakönnunina fyrir gestum.

-Dýraþjónusta Reykjavíkur kynnir starfsemi sína sem að snýr að fuglum.

-Grasagarðurinn býður upp á listasmiðju fyrir börn: Hvernig býr maður til fuglafóðrara?Þórey Hannesdóttir, listgreinakennari, mun leiða listasmiðju um fugla fyrir börn og fjölskyldur þeirra á alþjóðlegum degi barna.
Náttúruleg efni sem Skógræktarfélag Reykjavíkur skaffar verður notuð til að búa til fuglafóðrara sem hægt verður að nota í vetur.

Öll eru velkomin og þátttaka er án endurgjalds.

Viðburðurinn mun fara fram í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur.

Viðburðurinn er samstarf Grasagarðsins,Fuglaverndar, Dýraþjónustu Reykjavíkur  og Skógræktarfélags Reykjavíkur

Starar við vatnsbólið. ©Örn Óskarsson.

Fuglarnir í garðinum

Fimmtudagskvöldið 25. október verður opið hús hjá Fuglavernd á skrifstofu félagsins að Hverfisgötu 105 2. Hæð, 101 Reykjavík.

Spjall á léttu nótunum, þar sem við ætlum að hittast og deila reynslu af fuglafóðrun.  Reyna að svar spurningum eins og:

  • Hvað get ég gefið fuglunum í garðinum að borða?
  • Hvað eru margir fuglar að koma til mín í mat?

Garðfuglakönnun Fuglaverndar verður kynnt og hægt að sjá hvernig á að fylla út talningarblöð.

Garðfuglakönnunin hefst þann 28. október 2018 þennan veturinn og talningin stendur í 26 vikur.

Allir velkomnir, jafn félagsmenn sem utanfélagsmenn.

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Fræðslukvöld – Garðfuglar

Auðnutittlingar. © Örn Óskarsson

Fimmtudagskvöldið 25. janúar verður haldið fræðslukvöld um garðfugla hjá Fuglavernd.

Hvar: Sal Barðstrendingafélagsins, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík

Hvenær: Kl. 20:00

Örn Óskarsson félagsmaður og umsjónarmaður garðfuglakönnunar Fuglaverndar heldur framsöguerindi um garðfugla, greiningu tegunda og fóðrun þeirra. Að erindinu loknu verður einnig hægt að spyrja spurninga og opið verður á skrifstofu Fuglaverndar, er þar á kaupa fóðurhús, fuglahús, fóðrara og fuglafóður til styrktar félaginu.

Garðfuglahelgin er svo strax í kjölfarið, helgina 26. – 29. janúar 2018.

Frítt inn fyrir félagsmenn og við viljum bjóða nýja félaga sérstaklega velkomna.

Garðfuglakönnun 2016-2017

Markmiðið með Garðfuglakönnuninni er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar í tegundasamsetningu yfir vetrarmánuðina, og skoða breytileika milli ára. Árangur í starfi sem þessu veltur að sjálfsögðu á ykkur / þátttakendunum.  Vakin er athygli á vef um garðfugla á þessum slóðum: Garðfuglar og hér á okkar síðu einnig.

Könnunin er með sama sniði og liðna vetur, en fyrsta Garðfuglakönnunin á vegum Fuglaverndar var gerð veturinn 1994-95.

Hér eru nokkur eyðublað til útfyllingar en þar má finna fáeinar spurningar um eðli og umfang garðsins/garðanna.
Garðfuglakönnun 16-17 – pdf skjal  og hér er eyðublað í Word
Garðfuglakönnun_Skraningarblad_excel
Garðfuglakönnun_fyrir_vinnustaði

Könnunin hefst 30. október 2016 og lýkur 29. apríl 2017 en það er hægt að byrja hvenær sem er.

Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að slá inn talningar sínar í meðfylgjandi skjal og senda síðan félaginu á tölvutæku formi, slíkt mun spara þann tíma sem fer í innslátt á talningum. Einnig er hægt að prenta út eyðublaðið og færa niðurstöður inn á blaðið. Við hvetjum sem flest ykkar til að taka þátt, hvort sem þið gefið fuglum eða ekki.

Sendið útfyllt eyðublöð sem fyrst eftir lok könnunar, í síðasta lagi fyrir maílok 2017. Netfangið er: gardfugl@gmail.com.
Ef niðurstöður eru sendar með pósti þá er utanáskriftin: Fuglavernd Garðfuglakönnun Hverfisgötu 101 – 105 Reykjavík

Þessa ljósmynd af skógarþresti, stara og svartþresti tók Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Hvar eru smáfuglarnir!

Margir hafa veitt því athygli hversu lítið hefur sést af smáfuglum í görðum það sem af er vetri. Þetta á sérstaklega við þá sem fóðra fugla. Fólk hér á Suðurlandi og víðar hefur varla séð auðnutittlinga í vetur og veturinn á undan. Nú hafa snjótittlingarnir einnig brugðist, þrátt fyrir tíð sem að öllu jöfnu hefði átt að fylkja þeim í garða, þar sem er gefið.

Hvað veldur? Því er fljótsvarað, það veit enginn með fullri vissu! Nokkrar tilgátur hafa komið fram um auðnutittlingafæðina. Stofnsveiflur eru þekktar hjá auðnutittlingnum og fleiri smáfuglum eins og hjá glókollinum landnemanum ljúfa. Birkifræ þroskaðist lítið eða ekki haustið 2014, en birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Veturinn síðasti var umhleypingasamur og óhagstæður smáfuglum. Fuglarnir gætu hafa fallið vegna skorts á æti og óhagstæðrar tíðar. Sumir segja að auðnutittlingarnir hafi horfið um miðjan desember 2014. Þeir gætu því jafnvel hafa yfirgefið landið og leitað til Bretlandseyja eftir betra lífi. Síðasta haust, 2015, var fræframleiðsla birkis mjög góð. Samt hafa auðnutittlingar ekki sést að ráði í fóðri það sem af er vetri. Vonandi á stofninn eftir að ná sér á strik á ný. Margir sakna þessa spaka og kvika smávinar, sem lífgar uppá tilveru fólks í svartasta skammdeginu.

Fæðuhættir snjótittlinga eru talsvert öðruvísi en auðnutittlinga, þó þeir séu einnig fræætur. Þeir sækja í grasfræ eins og melfræ, njólafræ og því um líkt. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru forðabúr á veturna. Snjótittlingur er norrænastur allra spörfugla og aðlagaður að kaldri veðráttu. Í hríðarbyljum láta þeir fenna yfir sig og ýfa fiðrið til að halda á sér hita. Veðráttan á því ekki að hafa teljandi áhrif á stofninn. Hvað veldur þá þessum snjótittlingaskorti? Hafa fuglarnir enn nóg æti úti í náttúrunni eða á kornökrum? Er einhver óþekkt óáran í stofninum? Eiga tittlingarnir eftir að koma í fóðrið fljótlega? Um næstu helgi, 9.-10. janúar, verður hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunnar um land allt. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvar, snjótittlingar komi fram í talningunni.

Meðfylgjandi mynd tók Halla Hreggviðsdóttir.