Garðfuglakönnunin er einföld í sniðum. Athugendur þurfa að fylgjast með athugunarstaðnum hluta úr degi í hverri viku yfir veturinn, skrá hjá sér tegundir sem sjást og fjölda þeirra. Niðurstöðurnar eru síðan sendar að loknum athugunartímanum til fuglaverndar á netfangið gardfugl@gmail.com eða í pósti merkt: Fuglavernd, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík. Eyðublöð fyrir athugendur eru ávallt aðgengileg hér á vef Fuglaverndar (sjá neðar á síðunni).

Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt í garðfuglakönnun Fuglaverndar. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri.

Þátttakendur eru nú hvattir til þess að byrja að fóðra fugla á vinnustaðnum og að prenta eyðublöð (sjá neðar á síðunni sérstök eyðublöð fyrir vinnustaði) og hafa uppi við í vinnunni.  Það má hvetja vinnufélagana til að taka þátt.  Í mötuneytum vinnustaða fellur til ýmislegt sem má nota til þess að fóðra fugla í stað þess að henda í ruslið!  Það er áhugavert og fróðlegt fyrir vinnufélaga að fylgjast með fuglum.  Það kann að verða til þess að fleiri fari að skoða fugla og fái áhuga á vernd fugla og búsvæðum þeirra. Umsjónarmenn garðfuglakönnunarinnar hafa til dæmis staðið fyrir Garðfuglakönnun í Fjölbrautaskóla Suðurlands og vekur það mikinn áhuga og umræður á vinnustaðnum á vetri hverjum.

Hér er eyðublöðin fyrir veturinn 2016-2017
Garðfuglakönnun_eyðublað í Word
Garðfuglakönnun_eyðublað á pdf formi
Garðfuglakönnun_fyrir_vinnustaði
Garðfuglakönnun s
kraningarblad í excel

Frá 1994 hefur Fuglavernd staðið fyrir árlegri garðfuglakönnun sem stendur yfir frá sirka 26.okt.- 25.apríl ár hvert. Tilgangurinn er að fá upplýsingar um fuglategundir og fjölda fugla sem halda sig í görðum á Íslandi yfir vetrarmánuðina. Jafnframt er tilgangurinn að hvetja fólk til að líta á fuglalífið í sínu nánasta umhverfi. Það skiptir ekki máli þó fólk byrji aðeins seinna að telja eða hætti fyrr – aðalatriðið er að vera með.

Tegundir sem hafa sést alla vetur frá 1994-2015 í eru auðnutittlingur, grágæs, gráþröstur, heiðlóa, hettumáfur, hettusöngvari, hrafn, hrossagaukur, húsdúfa, músarrindill, rjúpa, skógarþröstur, smyrill, snjótittlingur, stari, stelkur, stokkönd, svartþröstur, tjaldur og þúfutittlingur. Tegundir sem hafa sést ellefu vetur eru fálki, maríuerla og silkitoppa en yfir 80 tegundir hafa sést í görðum þátttakenda.