Hann er rindill en samt brattur sigurvegari nýsjálensku keppninnar um fugl ársins 2022.
Leiðrétting barst í dag 22. nóvember frá Yann Kolbeinssyni , líffræðingi hjá Náttúrstofu Norðausturlands:
Langaði að benda á að þessi tegund sem um ræðir í fréttinni (South Island Wren, https://ebird.org/species/soiwre1) heitir klettaprílari á íslensku. Hann er alls óskyldur íslenska músarrindlinum, enda í annarri ætt fugla (klifurrindlaætt, Acanthisittidae). Músarrindill er í rindlaætt (Troglodytidae). Þrátt fyrir heitin eru þessar tvær ættir ansi fjarskyldar. Klettarindill er allt önnur tegund sem finnst í Norður Ameríku (https://ebird.org/species/rocwre/).“
Klettaprílarinn, Xenicus gilviventris, er sem sagt fugl ársins á Nýja Sjálandi.
Fugl ársins á heimasíðu nýj sjálenska fuglaverndarfélagsins Forest & Bird
Fugl ársins 2022 er Maríuerla, Motacilla alba. Hún er fimur og fínlegur spörfugl, hvít með „svarta húfu og gráleitt sjal“. Stélið er langt og svart og tifar gjarnan upp og niður.
Þetta árið kepptu sjö fuglategundir um titilinn Fugl ársins í keppni sem Fuglavernd stóð nú fyrir annað árið í röð. Fimm fuglanna höfðu kosningastjóra sem unnu ötult og óeigingjarnt kynningarstarf fyrir sína smávini. Maríuerlan kynnti sig þó sjálf með hlýlegri nærveru sinni um allt land og þurfti ekki talsmann til að sigra keppnina með yfirburðum og 21% atkvæða. Í öðru og þriðja sæti lentu hinir ólíku en glæsilegu fuglar, himbrimi og auðnutittlingur, með 14% atkvæða hvor um sig. Alls kusu 2100 mannns um fugl ársins 2022.
Um maríuerluna
Maríuerla dvelur í Afríku á veturna en algengt er að finna hana hér á landi í kring um mannabústaði, frá vori og fram á haust. Hún er nokkuð gæf og virðist trygg sínum heimahögum. Hún lifir á smádýrum sem hún veiðir á flugi eða á hlaupum, er iðin, sítifandi og flögrandi í leit sinni að æti. Maríuerlan hefur sigrað hjörtu íslendinga fyrir löngu ef marka má ljóðabrot Guðfinnu Jónsdóttur frá Hömrum (1899-1946).
Máríuerla Sendir drottins móðir, Maríá, mildar gjafir himni sínum frá. Flaug úr hennar hendi vorsins perla, heilög dúfa, lítil maríuerla.
Létt á flugi, kvik og fjaðurfín flýgur hún um auðan geim til þín. Í veggnum þínum vill hún hreiður búa, varnarlaus á þína miskunn trúa.
Dável svarta húfan henni fer, hneigir kolli ákaft fyrir þér. Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi ber hún eins og friðargrein í nefi.
Sérhvert vor um varpa og bæjarhól vappar söngvin erla á gráum kjól, flögrar eins og bæn um geiminn bláa, bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.
Um keppnina Fugl ársins
Markmiðið með keppninni er að draga fram og kynna nokkrar fuglategundir sem finnast hér á landi, fjalla um stofnstærðir, búsvæði, fæðuval og verndarstöðu. Með þessu vill Fuglavernd leggja sitt af mörkum til að efla fræðslu, samtal og umfjöllun um stöðu fuglastofna og um mikilvægi fugla í lífríkinu.
Í hópi þeirra 20 tegunda sem tóku þátt þetta árið og lesa má um á www.fuglarsins.is eru eftirfarandi tegundir sérstakar deilitegundir, sem þýðir að þær eru einskonar staðbundin fjölskylda sem verpur að stærstu eða öllu leiti hér á landi og hefur þróað með sér útlit frábrugðið öðrum stofnum, en þeir eru: auðnutittlingur, hrossagaukur, jaðrakan, lóuræll, músarrindill, rjúpa og skógarþröstur.
Þá eru þó nokkrar tegundir af þessum tuttugu á válista hér á landi samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands: Lundi er í bráðri hættu, kjóinn er í hættu, himbrimi, hrafn, kría, súla og toppskarfur í nokkurri hættu og að lokum eru rjúpa og silfurmáfur í yfirvofandi hættu.
Fuglavernd óskar Íslendingum til hamingju með Maríuerluna, Fugl ársins 2022!
Fuglavernd hefur hrundið af stað leitinni að Fugli ársins, annað árið í röð.
Kynntar eru til leiks tuttugu fuglar á nýuppfærðri heimasíðu keppninnar, https://fuglarsins.is/, sem m.a. voru tilnefndir af þeim sem tóku þátt í fyrra. Í það skiptið bar heiðlóan sigur úr bítum, vorboðinn okkar ljúfi.
Á heimasíðu keppninnar má sjá þá fugla sem eru í forvali: https://fuglarsins.is/. Kynntu þér keppendur og taktu þátt með því að velja þann fugl sem þú vilt sjá keppa um titilinn Fugl ársins 2022 – fimm fuglar komast pottþétt áfram. Forvalið fer fram rafrænt dagana 10.-15. ágúst á vefsíðu keppninnar.
Úrslitakosningin um Fugl ársins 2022 fer svo fram á https://fuglarsins.is/ dagana 5.- 12.september og verður sigurvegari ársins kynntur þann 16. september á Degi íslenskar náttúru.
Endilega deildu áfram, njóttu vel og góða skemmtun!
Tilgangur keppninnar er að vekja athygli á stöðu fugla og fuglaverndarmála á Íslandi, afla nýrra Fuglaverndarfélaga og styrktaraðila en ekki síst að skemmta og fræða.
Nánari upplýsingar gefur Brynja Davíðsdóttir verkefnastjóri hjá Fuglavernd: fuglarsins@fuglavernd.is og í síma 8447633.
Það er heiðlóan sem er sigurvegari kosninga um titilinn Fugl ársins 2021. Hún flaug beint á toppinn í atkvæðagreiðslunni og sigraði með glæsibrag þar sem hún fékk bæði flest atkvæði sem 1. val kjósenda og var einnig með flest atkvæði samanlagt sem 1.-5. val. Himbriminn veitti henni harða keppni. Alls bárust 2054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti 5 fugla og raða þeim í sæti 1-5.
Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningu á Fugli ársins en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá enda voru viðtökurnar frábærar. Keppnin er haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.
Staða heiðlóunnar á Íslandi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör. Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpur hér á landi. Heiðlóan er farfugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðallega Írlands, en einnig í Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og árósa.
Enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar
Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar sem einnig sigraði BirdEurovisionkeppnina árið 2002 með fögrum söng sínum. Heiðlóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar og er fréttum af fyrstu komu heiðlóunnar á hverju vori ákaft fagnað. Um hana hafa einnig löngum verið ort og kveðin rómantísk ljóð.
Sé ég gróa og grænka kvist grynnist snjóatakið vorið hló er heyrði ég fyrst hlýja lóukvakið
Lóuvísur 1929, Stefán Vagnsson
Allir frambóðendur voru með kosningastjóra
Heiðlóan stóð ekki ein í sinni kosningabaráttu en sérstök talskona hennar í keppninni var Guðrún Jónsdóttir. Hún lagði dag við nótt við að lyfta heiðlóunni á flug í keppninni, fór í útvarpsviðtöl, opnaði kosningaskrifstofu, var með kosningakaffi á pallinum og lét útbúa sérstakan hringitón í síma með lóusöng. Hún stofnaði einnig fésbókarsíðu fyrir heiðlóuna sem þegar er komin með um 600 fylgjendur.
Allir 20 fuglarnir í framboði höfðu kosningastjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum, á öllum aldri, sem stóð sig með stakri prýði. Margir stofnuðu samfélagsmiðlasíður fyrir sína fugla, gerðu myndbönd, fóru í viðtöl og fengu jafnvel sína eigin vefsíðu eins og himbriminn. Fuglavernd þakkar öllum kosningastjórunum kærlega fyrir að leggja fuglum og félaginu lið sitt með þessum hætti og vonar að þau hafi öll haft ánægju af.
,,Lóan er hið eina sanna sameiningartákn þjóðarinnar” sagði Guðrún Jónsdóttir talskona lóunnar og var á því að landsmenn ættu að sameinast um að kjósa hana fugl ársins til að kveða burt kóf og leiðindi síðasta vetrar og það hafa þeir nú gert.
Fuglavernd óskar heiðlóunni til hamingju með titilinn Fugl ársins 2021 og vonar að sumarið verði henni og hennar fiðruðu bræðrum og systrum gjöfult og gott.
Fuglar í 10 efstu sætum í kosningum um Fugl ársins 2021:
Heiðlóa
Himbrimi
Rjúpa
Hrafn
Maríuerla
Kría
Hrossagaukur
Lundi
Svartþröstur
Músarrindill
Nánari upplýsingar um frambjóðendur og kosningastjóra þeirra er að finna á vefsíðunni keppninnarfuglarsins.is
Atkvæði streyma nú inn í tengslum við kjör á Fugli ársins 2021 og hafa nú um 1500 manns greitt atkvæði. Allir sem hafa íslenska kennitölu hafa atkvæðisrétt og engin aldursmörk eru á kjörgengi. Velja má allt að 5 fugla sem 1.-5. val en ekki má setja sama fuglinn í fleiri en eitt sæti.
Allir fuglarnir komnir með kosningastjóra
Allir fuglarnir 20 sem eiga möguleika á titlinum Fugl ársins 2021 náðu að krækja sér í sérstaka kynningarfulltrúa í formi talskvenna og kosningastjóra. Um er að ræða fólk á öllum aldri og úr öllum áttum sem á það sameiginlegt að vera fuglavinir. Sum þeirra hafa komið upp samfélagsmiðla- og vefsíðum fyrir fugla sína og einnig hafa þau dyggilega talað máli sinna fugla í fjölmiðlum án þess að halla á aðra frambjóðendur.
Fuglavernd reiknar með að spennan eigi eftir að magnast eftir því sem líður á kosninguna en henni lýkur sunnudaginn 18. apríl kl. 18. Nú þegar heitu pottarnir hafa opnað aftur er einnig næsta víst að Fugl ársins 2021 verði heitasta umræðuefnið þar enda hefur fólk sterkar skoðanir á því hver á að verða Fugl ársins. Fuglavernd hefur nokkrar áhyggjur af því að einhverjir muni missa sig í skvett og fjaðrafok eins og buslöndum er gjarnt, en biðlar til fólks að gæta ítrustu sóttvarna og virða fjarlægðarmörk.
Á vef keppninnar má finna hlekk á kjörseðilinn, upplýsingar um frambjóðendur og fyrirkomulag kosninganna.
Kosning um Fugli árins 2021 hefur tekið flugið og stendur hún til kl. 18 sunnudaginn 18. apríl.
Finna má hlekk á rafrænt kosningaeyðublað, upplýsingar um frambjóðendur, kosningastjóra þeirra og allar nánari upplýsingar um kosninguna á síðu keppninnar á hlekknum hér:
Atkvæði eru þegar farin að streyma inn eins og farfuglar að vori og einnig umsóknir um stöður kosningastjóra fuglanna sem eru í framboði. Nú eru 9 fuglar af 20 sem eru í framboði búnir að næla sér í einn slíkan. Þó kosningin sé hafin er enn hægt að sækja um stöður kosningastjóra þeirra fugla sem út af standa og freista þess að gefa þeim byr undir báða vængi í keppninni.
Á myndinni með þessari frétt er blesgæs sem ekki keppir um titilinn Fugl ársins þetta árið en hún tók að sér af mesta hlutleysi að myndskreyta fréttina á táknrænan hátt þar sem hún hefur sig til flugs. Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson.
Uppfært: Allir fuglarnir í framboði um titilinn Fugl ársins 2021 eru nú komnir með kosningastjóra og talskonur!
Spennand magnast í keppninni um Fugl ársins 2021 en nú eru auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra. Guðni Sighvatsson tók að sér að hvetja auðnutittling til dáða í keppninni og er auðnutittlingurinn komin með síðu á Instagram. Guðni segist vilja vera talsmaður auðnutittlings í keppninni í þakklætisskyni við auðnutittlinginn sem gleður hann og aðra Laugvetninga með návist sinni árið um kring.
Sunna Dís Kristjánsdóttir kennari tilnefndi lunda í keppnina Fugl ársins 2021 ásamt 34 lundaelskum krökkum í bekknum hennar í Engidalsskóla í Hafnarfirði og er nú orðin kosningastjóri lundans. Hún hefur sett upp síðu á Facebook fyrir lundann þar sem hann er dásamaður fyrir fegurð sína og hæfileika og m.a. birtar fallegar myndir og teikningar af lundum frá krökkunum.
Fuglavernd býður Guðna og Sunnu Dís og krakkana í Engidallskóla velkomin í hóp kosningastjóra í Fugli ársins 2021 óskar þeim auðnutittlingi og lunda velfarnaðar í keppninni.
Grágæsin var áður komin með kosningastjóra en enn eru lausar stöður 17 fugla sem keppa um titilinn Fugl ársins 2021 og hvetur Fuglavernd áhugasama á öllum aldri til að kynna sér málið og sækja um fyrir sína fugla. Nánari upplýsingar um keppnina og hvernig sótt er um stöðu kosningastjóra má finna á vefsíðu keppninnar Fugl ársins 2021.
Grágæsin hefur sig til flugs í keppninni um titilinn Fugl ársins 2021 ásamt 20 öðrum fuglum en er sú eina sem er komin með kosningastjóra. Líklega veitir henni ekki af því að bæta ímynd sína vegna núnings við mannskepnuna. ,,Ég vil boða þann sannleik sem hefur farið framhjá of mörgum að grágæsin er hetja og besti vinur Íslendinga” segir Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson í umsókn sinni um stöðuna.
Hlutverk kosningastjóra er fyrst og fremst að nota hugmyndaflugið til að vekja athygli á málefnum fuglsins, t.d. á samfélagsmiðlum, svo hann nái sér á flug í keppninni.
Nú er ljóst hvaða 20 fuglar munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021. Fuglavernd leitaði til almennings um að tilnefna fugla í keppnina og rökstyðja valið vel. Fjöldi tilnefninga barst og alls fengu 46 íslenskar fuglategundir tilnefningu, auk gárans Nóa sem ættaður er frá Ástralíu. Hann fékk tilnefningu frá eiganda sínum með mjög góðum rökstuðningi: ,,Nói er blíður og góður en samt stundum nett frekur, hann er uppáhalds fuglinn minn”. Nói komst þó því miður ekki á listann því einungis villtir fuglar eiga keppnisrétt. Valið var þó mjög erfitt því auðvitað eiga allir fuglar skilið að vera fugl ársins. Ein röksemdin var einmitt á þá leið:
,,Sá fugl sem ég horfi á hverju sinni er minn uppáhalds fugl, svo eiginlega ætti ég að nefna þá alla”
Í þessari keppni getur þó aðeins einn orðið Fugl árins 2021 svo nú er um að gera að gera upp hug sinn um hver af þessum 20 á listanum á titilinn helst skilið. Kosningarnar sjálfar fara fram 9.-18. apríl og Fugl ársins 2021 verður kynntur á sumardaginn fyrsta 22. apríl.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna