Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.  Helsti vorboði okkar er kominn á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska, fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars. 

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu.  Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði.  Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands kom fram í gær að fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.