eBird hvað er nú það?

eBird er frábært vefkerfi fyrir fuglaáhugafólk!

Langar þig að verða hluti af stærsta samfélagi fuglaáhugafólks í heimi? Langar þig að geta á einfaldan hátt haldið utan um allar þínar fuglaathuganir og lista, hvar sem er í heiminum, og jafnframt lagt þitt af mörkum til fuglarannsókna og fuglaverndar? Þá er eBird fyrir þig!

eBird er vefkerfi og app sem þróað var af Cornell háskóla í Bandaríkjunum og gerir fuglaáhugafólki kleift á einfaldan, þægilegan og endurgjaldslausan hátt að skrá og halda utan um allar sínar fuglaathuganir, hvar sem það er í heiminum. Auk þess að auðvelda því að finna nýjar tegundir og nýja staði til að skoða fugla. Á sama tíma leggur fólk sitt af mörkum til að auka skilning og þekkingu vísindamanna á dreifingu fugla í tíma og rúmi, fjölda þeirra og búsvæðanotkun Þessar upplýsingar nýtast einnig vel þegar kemur að verndun fugla. Nánar má skoða og lesa um eBird hér.

Fuglavernd hvetur áhugasama félagsmenn sína eindregið til að kynna sér kerfið og þá möguleika sem það býður upp á en aðgangur að því er ókeypis.

Finna má einfaldar leiðbeiningar um notkun eBird hér og um notkun á eBird Mobile appinu hér

Rétt er að benda á að hægt er að stilla tegundaheiti fuglanna á íslensku í appinu, svo þægilegra gæti það ekki verið. Þetta þarf aðeins að gera einu sinni og er gert með því að fara inn í „Settings“ og velja „Icelandic“ úr listanum undir „Show common names in“. Hér eftir munu tegundaheitin alltaf birtast notandanum á íslensku þegar athuganir er skráðar.

Grágæsir, Ljósm, Jóhann Óli Hilmarsson

Bann sett við sölu á grægæs

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undiritað bann við sölu á grágæs og afurðir hennar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Með breytingunni er óheimilt að bjóða til sölu eða selja grágæs og afurðir hennar. Einnig er óheimilt að flytja hana út. Heimilt er þó að selja uppstoppaða gæs.

Á undanförnum árum hefur grágæsarstofninum hnignað og er sölubann sett fram til að auka líkurnar á að stofninn nái sér á strik á ný. Lagt verður mat á stöðuna að ári liðnu og verði áframhaldandi hnignun á stofninum á þeim tíma verður lengd veiðitímabils grágæsar tekið til skoðunar. Verði hins vegar fjölgun í stofninum verður metið hvort þörf verði á áframhaldandi sölubanni.

Hér má lesa umsögn Fuglaverndar um breytingu laganna til verndunar grágæsa

Hér má lesa fréttina í heild sinni á heimasíðu Stjórnarráðsins

Fýlsungar í vanda

Fuglavernd hvetur fuglavini  sem eiga leið um Suðurland undir Eyjafjöllum og í  Mýrdal að bjarga fýlsungum.

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungun á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast jafnvel gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju eða  setja hann í árós eða í lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

 

Starfsmaður RSPB

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins), verður í Vík við björgun og  við merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja slást í för með henni geta haft samband við hana beint, sími +447793036536 eða fengið upplýsingar í  Kötlusetri upplýsingamiðstöðinni í Vík í Brydebúð við Víkurveg. 

 

Hvernig bjargar maður fýlsunga?

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga  og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um á heimasíðu Fuglaverndar. 

Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Vinsamlega meldið ykkur með pósti til:  fuglavernd@fuglavernd.is og þið fáið senda slóð til að skrá ykkur í hópinn.

 

Harmafrétt: Fallinn er frá Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur

Harmafrétt hefur borist, vinur okkar Skarphéðinn G. Þórisson er allur! Hann fórst ásamt samstarfskonu og flugmanni er flugvélin TF-KLO brotlenti við Sauðahnjúka þann 9. júlí. Tilgangur þessarar ferðar, eins of fjölmargra annarra áður, var að vakta hreindýrastofninn. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Á öræfunum þar eystra, landi sem Skarphéðni var svo kært, mætti hann sinni skapanorn. Sannarlega grimm örlög góðs drengs.

Skarphéðinn fékk snemma áhuga á gangverki náttúrunnar. Á unglingsárum urðu fuglar hugfang hans, en einnig flóran og dýralíf fjörunnar. Þá var alfa og ómega fuglarannsókna hér á landi á Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem dr. Finnur Guðmundsson ríkti og skipulagði öflugt starf fuglaáhugamanna. Skarphéðinn tók virkan þátt í því starfi og þar var hans ævibraut mörkuð, líkt og svo margra annarra sem unnu undir handarjaðri dr. Finns.

Að loknu námi í menntaskóla fór hann í Háskóla Íslands og nam líffræði. Teningunum var kastað þegar hann sem nýútskrifaður líffræðingur árið 1978 var ráðinn til Náttúrufræðistofnunar til að sinna hreindýrarannsóknum vegna fyrirhugaðra virkjana á Austurlandi. Þá var ekki aftur snúið, hreindýrin, náttúran, landið og mannlíf þar eystra heillaði og seiddi hann til sín. Hann fluttist austur 1983 og bjó þar allar götur síðan. Hans aðalvinna til aldamóta var kennsla við Menntaskólann á Egilsstöðum. Honum féll vel það hlutskipti, hafði ánægju af því að kenna og fræða, og sem uppfræðari var hann virtur og elskaður af nemum sínum.

Meðfram kennslu sinnti Skarphéðinn hreindýrarannsóknum og vöktun stofnsins hvíldi reyndar meira og minna á hans herðum allt frá 1978. Með stofnun Náttúrustofu Austurlands 1995 var kominn vettvangur þar eystra fyrir fast athvarf hreindýrarannsókna. Skarphéðinn var sjálfkjörinn fræðimaður í það hlutverk og frá árinu 2000 var hann starfsmaður stofunnar. Það er þyngra en tárum taki að nú svo nærri lokum farsæls ferils og í fylgd þess sem átti að taka við keflinu, skuli höggið ríða! Eftir sitjum við hin ráðvillt og hnípin.

Skarphéðinn var náttúruverndarmaður og talaði fyrir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Hann var félagi í Fuglavernd frá unglingsárum, en það er félag sem berst fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Hann stýrði um langt skeið Austurlandsdeild Fuglaverndar og sat í stjórn Fuglaverndar er hann lést. Fyrir hönd Fuglaverndar þökkum við Skarphéðni fyrir hans framlag til félagsins í áratugi. Ólafur og Jóhann Óli vilja jafnframt nota tækifærið og þakka fyrir hálfrar aldar vináttu og tryggð. Við vottum Ragnhildi, börnunum og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð, þeirra missir er mestur. Minningin um góðan dreng lifir!

Ólafur K. Nielsen, fyrrum formaður Fuglaverndar
Jóhann Óli Hilmarsson, fyrrum formaður Fuglaverndar
Menja von Schmalensee, formaður Fuglaverndar
Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar

Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason

NACES hafsvæðið verður verndað að öllu leyti, einnig sjávarbotninn.

Fuglavernd hvatti félagasmenn og alla fuglaunnendur að skrifa undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um vernda sjávarbotn NACES svæðisins, ekki bara yfirborðið.

OSPAR nefndin hefur ákveðið að svæðið allt þ.m.t. hafsbotninn verði verndað.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

Smelltu hér til að sjá hvar í veröldinni  NACES er statt.

 

 

Lundi er ein margra fuglategunda sem að dvelst þar veturlangt.

 

Nánari frétt um verndun  NACES frá botni til yfirborðs á heimasíðu BirdLife International

Kría með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benedíktsdóttir.

Vegna aðgerða Ísafjarðarbæjar gegn kríuvörpum

Snemma í júní sendi Fuglavernd bréf til Ísafjarðarbæjar vegna aðgerða sveitarfélagsins gegn kríuvörpum.

,,Fuglavernd vill með bréfi þessu koma á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum
Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að
markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð.”

Lögin

,,Bent er á að samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) er krían friðaður fugl. Í lögunum, sem meðal annars hafa það að
markmiði að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, kemur fram að:
Úr 1. gr.:
Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr
viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og
hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.”

Krían komin á válista

,,Krían er stórkostleg lífvera. Hún er heimsmetshafi í öllu dýraríkinu þegar kemur að árlegum
farvegalengdum. Krían er langlíf, verður að jafnaði um 30 ára, og ferðast um 80-90.000 km á
ári, sem jafngildir því að hver fugl fari um þrisvar sinnum fram og til baka til tunglsins á ævi
sinni. Það er því kannski engin furða að hún verji afkvæmi sín með miklum tilþrifum, eftir að
hafa lagt á sig þetta mikla ferðalag til að komast á varpstöðvar.1
Því miður hefur krían átt verulega undir högg að sækja frá því snemma á þessari öld, að
öllum líkindum vegna breytinga í hafinu sem mögulega eru til komnar vegna loftslagsvár af
mannavöldum. Hún telst vera tegund í nokkurri útrýmingarhættu (VU) skv. válista íslenskra
fugla. Mikilvægt er að hafa í huga að 20–30% af heimsstofni kríunnar er að finna hér á landi
á sumrin.”

Válisti fugla á heimasíðu NÍ

Aðgerðir og lögin

,,Að lokum vill Fuglavernd leggja áherslu á að kjósi Ísafjarðarbær að halda uppteknum hætti
með notkun fælingaraðgerða er mjög brýnt að rannsóknir á áhrifum þessara aðgerða fari
fram, til að skilja til fullnustu hvaða áhrif þær hafa á bæði kríuna og aðra friðaðar tegundir
sem verpa á svipuðum slóðum, og til að mæla hversu langt frá fælingarbúnaðinum þau áhrif
ná. Fuglavernd getur haft milligöngu um að koma slíkum rannsóknum á, en áréttar þó að
notkun fælingarbúnaðar í vörpum friðaðra fuglategunda stríðir gegn markmiðum gildandi
laga.”

Bréfið í heild sinni má lesa hér.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

Erindið var tekið fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og afgreitt á eftirfarandi hátt: „Kríuvarp í Tunguhverfi: Lagt fram bréf frá Fuglavernd dags. 5. júní 2023, þar sem komið er á framfæri áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs þann 12. júní sl. þar sem eftirfarandi var bókað „Bæjarráð þakkar erindið og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar. Við undirbúning máls þessa var reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hefur fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutulsfirði um aðgerðir. Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Ísafjarðarbær hefur verið í samskiptum við Nave til að finna lausn á málinu og verður áfram, og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Nave, auk Fuglaverndar vegna málsins.“

 

Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari

 

Samstarfsaðilar frá RSPB

Í apríl heimsóttu Zbig Karpowicz og Wenceslas Gatarabirwa Fuglavernd, en báðir eru þeir starfsmenn RSPB;  Royal Society for the Protection of Birds. Zbig er verkefnisstjóri og tengill Fuglaverndar innan RSPB og Wenceslas er yfirmaður Flyway Conservation eða verndun farleiða fugla.  Hér er hægt að fræðast nánar um farleiðaverkefnið á ensku.

Votlendi mikilvæg fuglum

Votlendi eru ofarlega á baugi því að þau eru mikilvæg búsvæði og fæðuöflunarsvæði margra fuglategunda og eru stundum kölluð lungu landsins. Starfsmenn Fuglaverndar Hólmfríður  og Anna María sýndu þeim félögum Friðland í Flóa og votlendi í kringum Grunnafjörð sem er friðlýst svæði m.a. vegna fuglalífs.

Farið var í Odda á Rangárvöllum og skoðað votlendi sem að Landgræðslan hefur umsjón með, en Oddi er ríkisjörð. Þar tók á móti okkur Ágústa Helgadóttir, líffræðingur hjá Landgræðslunni.  Hún fræddi okkur um hvernig stendur til að endurheimta votlendi jarðarinnar langkeru í eigu ríkisins og sameina það votlendinu Oddaflóði. Einnig skoðuðu þau verkefni um endurheimt á Mýrunum sem gagnast bæði fuglum og fiskum, sem Fuglavernd stendur að ásamt Hafrannsóknarstofnun og Landgræðslunni.

Þeir Wenceslas og Zbig ásamt Hólmfríði heimsóttu svo m.a. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og áttu þar fund með Sigurði Þráinssyni og Steinari Kaldal.  Rætt var um votlendi og farleiðir fugla og möguleikann á að sækja í sjóð til endurheimtar á votlendi.

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.