Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari