Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.
Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.
Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.
Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.
Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.
Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.
Veiðimenn eru hvattir til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.
Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.
Fuglavernd sendi 5. nóvember 2022 erindi til Umhverfisstofnunar vegna tillagna stofnunarinnar sem hún sendi umhverfisráðuneytinu í vikunni, erindið er svohljóðandi:
Í tillögum Umhverfisstofnunar til ráðherra umhverfis- og auðlindamála frá 4. október varðandi veiðifyrirkomulag á rjúpu er lagt til að fjölga veiðidögum rjúpu frá því í fyrra.
Fuglavernd mótmælir þessu harðlega og félagið vill benda á eftirfarandi:
• Viðkomubrestur var hjá rjúpu á Norðausturlandi og viðkoman var léleg á Vesturlandi. Ástandið í öðrum landshlutum er óþekkt. Hér á varúðarreglan að gilda (e. precautionary principle) við alla ákvarðanatöku.
• Miðað við nýlega greiningu á stofnstærð rjúpu og veiðiafföllum, þá hefur stofnstærð rjúpu verið ofmetin og veiðiafföll vanmetin með þeim aðferðum sem NÍ hefur beitt frá 2005 (Rit LbhÍ 141 sjá https://www.lbhi.is/skolinn/rannsoknir/utgefid-efni). Veiðiafföllin samkvæmt þessu nýja mati eru við eða vel ofan við þau mörk sem t.d. Norðmenn meta sem ásættanleg.
Í ljósi þessa ætti frekar að fækka leyfilegum veiðidögum en að fjölga þeim líkt og tillögur UST gera.
Árlega er Fuglavernd ásamt öðrum hagsmunaaðilum boðið á fund um ástand rjúpnastofnsins á Náttúrufræðistofnun. Viðkoma rjúpnastofnsins er því miður mjög slök í ár og fáir ungar hafa lifað af sumarið. Auðvitað eru það vonbrigði því talningar í vor sýndu að stofninn væri nærri hámarki á Norð-vesturlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum, en nú hefur þessi lélegi varpárangur aldeilis breytt þeirri stöðu.
Það er ekki einfalt mál að áætla veiðiþol stofnsins og ekki alltaf þakklátt verkefni en það er nú eitt af því sem þessi vöktun snýst um. Alltaf eru uppi háværar raddir um að ekki sé hægt að fullyrða um stofnstærðina vegna skorts á vöktun eða að sveiflna í stofni. En svokölluð stofnvísitala rjúpunnar sýnir að til lengri tíma litið hefur rjúpnastofninum okkar hrakað og það sama má segja um varpárangur fuglanna. Mikilvægt er þó að við gefum rjúpnastofninum rými til að vaxa þegar svona stendur á, og drögum úr veiði eða jafnvel hættum henni alveg, gefum fuglinum frí. Við þökkum samráðið og vonum að rjúpan fái að njóta vafans ef einhver er.
Flestir hafa eflaust tekið eftir því að vorhugur er kominn í fugla landsins. Farfuglum sem verpa á Íslandi fjölgar með hverjum deginum og staðfuglar eru komnir í æxlunargír. Heillandi tilhugalíf fuglanna getur gefið hversdagsleika okkar ánægjulega fyllingu, taki menn sér tíma til að njóta fuglasöngsins og fylgjast með varphegðun fiðraðra vina okkar. Þetta tímabil í æviskeiði fuglanna er jafnan mjög krefjandi fyrir þá. Þar reynir bæði á líkamsástand og atferli fuglanna við að koma næstu kynslóð á legg og getur truflun af ýmsum orsökum haft afdrifaríkar afleiðingar. Farfuglarnir eiga að baki langt og strembið ferðalag og staðfuglanir hafa þraukað erfiðan vetur með takmörkuðu aðgengi að fæðu. Allir eiga þeir skilið að geta hugað að varpi án teljandi hindrana að hálfu okkar mannanna.
Kettir og útivera
Margir kettir eru einnig hækkandi sól fegnir og njóta útiverunnar eftir langan og kaldan vetur. Þeir eru flestir forvitnir um fuglana ekki síður en við. Þótt sumir kettir láti sér nægja að fylgjast með annríki fuglanna úr fjarlægð sækja aðrir mjög í að veiða þá. Afrán katta á fuglum og truflun sem þeir valda á varptíma getur aukið verulega á raunir fuglanna á þessu viðkvæma tímabili og gætu haft í senn neikvæð áhrif á einstaklinga og á stofna. Kettir á Íslandi voru fluttir hingað af mönnum og geta veiðar þeirra á fuglum hérlendis því ekki talist náttúrulegar, heldur verður að líta svo á að þær séu á ábyrgð manna. Þær eru þess vegna einn af fjölmörgum þáttum í nútímasamfélagi manna sem hefur neikvæð áhrif á fuglalíf og bætast ofan á neikvæð áhrif vegna búsvæðaeyðingar, loftslagsbreytinga, mengunar og ósjálfbærra veiða svo eitthvað sé nefnt.
Kattaeigendur eru stundum óviðbúnir ef í ljós kemur að skemmtilega og gæfa gæludýrið þeirra sé veiðikló. Margir vilja þó leggja sitt af mörkum til að draga verulega úr eða hindra alfarið veiðar kattanna sinna og truflun sem þeir kunna að valda. Til allrar lukku eru ýmis góð ráð til þess.
Fuglavernd hvetur eindregið alla kattaeigendur til að standa vörð um öryggi og velferð villtra fugla með því að:
1) Stýra útivistartíma kattarins. Á varptíma fugla ætti að halda ketti inni eins mikið og unnt er, en helst a.m.k. frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun. Gott er að gefa köttum sem fara út eitthvað sérlega girnilegt að éta hvern dag um það leyti sem þeir eiga að koma inn, til að venja þá við að koma heim á réttum tíma.
2) Nota hjálpartæki til að draga úr veiðum. Fái köttur að fara út ætti fuglakragi (t.d. Birdsbesafe®) að vera staðalbúnaður, en rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þeirra. Í einhverjum tilfellum er æskilegt að bæta við bjöllu líka. Á meðan fuglar liggja á eggjum og þangað til ungar eru orðnir vel fleygir gæti verið nauðsynlegt að setja kattasvuntu (t.d. CatBib®) á sérlega veiðiglaða ketti og þá sem eiga til að klifra í trjám til að komast í hreiður. Kattaeigendur gætu þurft að prófa sig áfram til að finna þá lausn sem virkar best á sinn kött.
3) Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir. Sé köttur saddur og sæll og fær að eltast við leikföng hjá fólkinu sínu er ólíklegra (en þó ekki útilokað) að hann sæki í þá fyrirhöfn og spennu sem fylgir veiðum.
4) Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum. Þá er gelding útikatta mjög mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir myndun villikattastofna, en slíkir stofnar geta haft verulega neikvæð áhrif á fuglalíf.
Ólafur Karl Nielsen formaður Fuglaverndar og Jóhann Óli Hilmarsson fyrrum formaður Fuglaverndar birtu grein í Kjarnanum 6. febrúar 2022 til varnar lífríki Skerjafjarðar.
Skerjafjörður, grunnsævi og fjörur, er flokkaður sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði og því ræður m.a. fjöldi þeirra grágæsa, margæsa, æðarfugla, sílamáfa og sendlinga sem þar búa eða fara um vor og haust. Kópavogur og Garðabær hafa fyrir löngu samþykkt formlega vernd síns hluta Skerjafjarðar. Reykjavík hefur ekki stigið það skref og ætlar með þessari landfyllingu að skerða verulega búsvæði þessara fugla og fjölda annarra sem koma þarna við árið um kring. Fuglavernd vill benda á að búsvæðamissir er helsti áhrifaþáttur líffræðilegrar fjölbreytni og margt smátt gerir eitt stórt. Endilega lesið þessa grein en hana má finna hér.
Systurfélag Fuglaverndar á Kýpur sendi ákall um hjálp.
Eftir að hafa með þrotlausri vinnu í 20 ár tekist að fá veiðar á smáfuglum í farflugi bannaðar á Kýpur þá breytti þingið nýverið lögunum aftur og lækkuðu sektir úr 2000 evrum í 200 fyrir brot á lögunum. Eins og þekkt er hafa þessar veiðar farið fram með lími á greinum og haglabyssum. Meðal þeirra 14 tegunda sem eru mest vinsælar til veiðar og flokkast sem “lostæti” eru fuglar sem sjást árlega hér á landi: Hettusöngvari (sylvia atricapilla), bókfinka (fringilla coelebs), gráspör (passer domesticus), laufsöngvari (phylloscopus trochilus), gransöngvari (phylloscopus collybita) og glóbrystingur (erithacus rubecula).
BirdLife Cyprus vilja ná 15000 undirskriftum til að til að leggja fyrir þingið. Fuglavernd ásamt öðrum félögum í náttúruvernd hafa ljáð málinu stuðning. Félagar í Fuglavernd sem og utanfélags geta skráð nafn sitt á undirskriftarlista sem má finna hér.
Vegna ábendinga fóru fulltrúar frá Fuglavernd og Landvernd að skoða svæði á Norðurnesi á Álftanesi þar sem til stendur að byggja golfvöll. Hann mun þrengja að fuglalífi og þeir sem þekkja til sjá væntanlega fyrir sér margæsir vappandi um völlinn á meðal golfspilara.
Landvernd og Fuglavernd hafa kynnt sér drög að deiliskipulagi á Norðurnesi. Uppdrátturinn sýnir að áformað er að fara með golfvöllinn alveg niður að bökkum Bessastaðatjarnar. Þá er svæðið á milli tveggja læna sem ganga vestur úr Tjörninni notað sem „græna (green)“. Gangi þessi áform eftir mun þrengja mjög að fuglalífi við Bessastaðatjörn sem skýrslur um fuglalíf sýna að er bæði mikið og vermætt. Svæðið eins og það er í dag hefur einnig mikið upplifunargildi fyrir bæði íbúa og gesti. Hætt er við að þetta spillist ef farið verður að þessum tillögum.
Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir.
Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.
Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.
Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að
bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.
Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.
Veiðistofn rjúpu metinn sá minnsti frá því mælingar hófust
Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995.
Því er: “ Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.”
Ábyrgir neytendur hugsa sig líka tvisvar um áður en þeir þiggja rjúpu eða rjúpnaafurðir að gjöf eða taka þátt í neyslu rjúpnaafurða þar sem þær verða í boði.
Það eru fjölmargar aðrar vörur í boði, ekki hvað síst með auknum vinsældum jurtaafurða. Er því ekki tilvalið að gefa jólarjúpunni í ár jólafrí?
Ábyrgð veiðimanna
Hvað geta veiðimenn gert? Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.
Þessu til viðbótar árið 2020 eru veiðimenn einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.