Hér má skoða kortaþekju Orkustofnunar yfir vindafls orkukosti í rammaáætlun sem er lögð yfir kortaþekju Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir mikilvæg fuglasvæði.
Þessar þekjur eru lagðar saman til að átta sig á skörun þessara þátta. Kortið sýnir þá kosti sem Orkustofnun lagði fram til 4. áfanga rammaáætlunar í apríl 2020.

 

Hér má nálgast grein Menju von Schmalensee, Náttúrstofu Vesturlands,
sem birt var
í tímaritinu Fuglar 13, júní 2021:

 

Vindmylluparadísin Ísland? – Fuglum fórnað?

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi þegar þetta er skrifað og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Vert er að huga að þessu frá upphafi m.a. með því að skilgreina svæði þar sem vindorkuvirkjanir og vindorkuver verði ekki reist. Brýnt er að fram fari almenn umræða um hvar komi til greina að staðsetja slík mannvirki og hvar þau eigi ekki heima.

Í landsskipulagsstefnu liggur ekki fyrir stefna um vindorkuvirkjanir og sveitarfélög hafa almennt ekki markað sér stefnu um þær í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi.  Sveitarstjórnir geta því ekki byggt á eigin stefnumörkun þegar fyrirspurn berst um möguleika á að reisa vindorkuvirkjun. Takmörkuð fræðsla liggur fyrir af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir sveitarstjórnir til að byggja á.

 

 

Virkjun vindorku á Íslandi – Stefnumótunar- og leiðbeiningarit Landverndar

 

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

Í stefnumótunar- og leiðbeiningariti Landverndar um virkun vindorku á Íslandi segir:

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Þar segir enn fremur (Kafli 4.2.9 Fuglar):

Reynsla erlendis frá sýnir að áhrif vindorkuvirkjana á fugla geta verið mjög alvarleg. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. apríl 2017, um matsáætlun vegna vindorkuversins Vindaborgar í Þykkvabæ, Rangárþingi Ytra, segir „að afla þurfi upplýsinga um farleiðir fugla með vettvangsathugunum og radarmælingum og gera grein fyrir flugferlum og flughæð fugla í frummatsskýrslu.  Á meðan ekki hafa verið gefnar út sérstakar leiðbeiningar hér á landi miðar Skipulagsstofnun við leiðbeiningar skoskra stjórnvalda varðandi mat á áhrifum vindorkuvera á fugla“.

Reynsla erlendis sýnir að við flestar vindorkuvirkjanir verða fáir árekstrar fugla en við nokkrar virkjanir verði margir árekstrar. Skráð hafa verið yfir 60 áflugsóhöpp fugla á ári við eitt vindorkuver á Spáni og 20 í Belgíu en meðaltalið í Evrópu og Norður Ameríku er 2,3 dauðir fuglar á hverja vindorkuvirkjun (turn) á ári. – Sjá Vindkraft på rätt plats – Roger Olsson

Lítið sem ekkert er vitað um farleiðir fugla hér á landi. Nauðsynlegt er talið að kortleggja farleiðir, einkum á svæðum þar sem vænta má umferðar farfugla hvort sem er vegna dægurfars milli fæðustöðva og náttstaða eða árstíðafars milli varp- og vetrarstöðva. Bent hefur verið á að hér á landi sé mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og því sérstök ástæða að sýna aðgát í þessum efnum.

Bent er á að t.d. heiðlóum hafi fækkað mikið á vindorkusvæðum í Bretlandi. Á öllum svæðum þar sem vindorkuvirkjun kemur til umfjöllunar þarf að gera grein fyrir far- og varpfuglum og er bent á rannsóknir við Búrfell sem dæmi þar um. Gera þarf grein fyrir hvaða þekking liggur fyrir um fugla á áhrifasvæði virkjunar, niðurstöðum rannsókna sem kunna að hafa farið fram og leggja fram mat á þörf fyrir frekari skráningu eða rannsóknir.