Glókollur

Glókollur - karlfugl
Glókollur karlfugl. Örn Óskarsson tók myndina

Fræðiheiti: Regulus regulus.

Ætt: Söngvaraætt (Sylviidae)

Einkenni: Mjög lítill fugl en hann er minnsti fugl Evrópu. Líkist söngvurum í útliti en er þó hnöttóttari. Ólífugrænn að ofan og ljósleitur að neðan. Tvö ljós vængbelti. Gulur litur á kolli bryddaður með svörtu. Karlfuglinn er meira appelsínugulur á kolli en kvenfuglinn sem einungis hefur gulan lit. Ungfuglar hafa ekki gulan lit á kolli. Svart augað er áberandi á ljósum vanga.

Búsvæði: Barrskógar, stundum í blönduðum skógum, þar sem einhver barrtré eru til staðar. Kemur einnig í garða þar sem barrtré eru. Getur sest að í plöntuðum barrskógum þegar trén eru að ná tveimur metrum að hæð.

Far: Farfugl að hluta á varpstöðvum í Evrópu, nyrstu varpssvæði eru yfirgefin að vetri. Á Íslandi er glókollur líklega staðfugl.

Glókollur - karlfugl
Glókollur karlfugl. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Varptími: Apríl og þar til í júní. Getur orpið tvisvar. Miklar sveiflur virðast vera fjölda varppara á milli ára. Stofnstærð sveiflast líklega í takt við framboð á grenilúsum.

Glókollur hóf líklega varp á Íslandi árið 1996 í kjölfar stórrar göngu haustið 1995. Varp var þó ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Nú er glókollur varpfugl í skógarlundum um allt land nema á Vestfjörðum.

Fæða: Smádýr, aðallega skordýr. Sjaldan fræ barrtrjáa.

Stofnstærð: Stofn glókolls hrundi haustið 2005 en hefur vaxið síðan, með einhverjum sveiflum (Náttúrufræðistofnun, vetrarfuglatalningar). Er staðfugl að öllum líkindum og telur stofninn væntanlega þúsundir para þegar hann er stærstur.

EVRÓPA (VARPPÖR) ÍSLAND (VARPPÖR) ÍSLAND VETUR (EINSTAKLINGAR)
19.000.000-35.000.000 Fáeinir tugir-1000+? Hundruð-fáein þúsund ?