Gæsir

Gæsir eru meðalstórir fuglar, talsvert stærri en endur, hálslengri og háfættari. Þorri gæsa sem hefur viðkomu hér á landi er mjög norðlægur, það er að segja fljúga langt norður á auðnir heimskautssvæðanna til varps. Áður náðu varpsvæði þessara norðlægu gæsa mun sunnar en vegna ágangs manna, aukins veiðiálags og röskunar búsvæða hafa þau færst norðar.

Gæsir eru mjög vængmiklar og eiga auðveldara með að taka á loft en flestar endur, auk þess slá þær vængjunum ekki eins ótt og títt og taka stærri vængjatök. Gæsir virðast vera þungar á flugi og þær eiga erfitt með að hækka flugið. Þrátt fyrir það fljúga þær nokkuð hátt og fara hratt yfir. Þær eru mjög þolnar og geta flogið mörg hundruð kílómetra í einu.

Á haustin safnast gæsir saman í stóra hópa og hefja farflug suður á hlýrri svæði. Með oddafluginu draga gæsirnar úr loftmótstöðu á löngu flugi sínu yfir höf og lönd. Þessi flug gæsanna vekja iðulega mikla athygli þar sem þær mynda áberandi og sérkennilegar oddamyndaðar fylkingar eru utan skotfæris í háloftunum.

Gæsir eru grasbítar, þær lifa á viltum jurtum auk þess að nýta sér túnrækt.

Gæsaveiði

Allir fuglar, þar með taldir þeir sem koma reglulega eða flækjast til landsins, eru friðaðir, nema annað sé tekið fram í reglugerð sem ráðherra setur.

Því eru bæði blesgæs og margæs alfriðaðar á Íslandi.

Frá 20. ágúst til 15. mars má veiða:

  • Grágæs (Anser anser)
  • Heiðagæs (Anser brachyrhynchus)

Frá 1. september til 15. mars má veiða:

  • Helsingja ( Branta leucopsis) en helsingi er friðaður til 25. september í Skaftafellssýslum.

Vert er að benda á siðareglur Skotvís.

Blesgæs

Blesgæs (Anser albifrons) sem er dekkst gráu gæsanna, er umferðarfugl hér á landi. Hún er grábrún, með ljósum rákum að ofan og dökkum rákum á síðum. Dökkir framvængir eru einkennandi á flugi. Fullorðin blesgæs er meira eða minna með svartar þverrákir og díla á kviði og er hann stundum næstum alsvartur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Ungfugl er án dökku rákanna á kviði og blesunnar.

Blesgæs hegðar sér svipað og aðrar gráar gæsir en er sneggri í uppflugi, sýnist grennri og er liprari á flugi, hópamyndun er losaralegri. Röddin er hærra stemmd, meira syngjandi og þvaðrandi en hjá öðrum gæsum og lætur blesgæsin meira í sér heyra á flugi.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.
Grænlensk blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann

Greiningareinkenni blesgæsa

Blesgæs er friðuð fyrir skotveiði og því er mikilvægt að þekkja greiningareinkenni hennar.

  • Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs.
  • Ungar blesgæsir eru yfirleitt í fylgd með fullorðnum blesgæsum.
  • Er sneggri í uppflugi og sýnist liprari á flugi.
  • Blesgæs lendir með sveiflum og dýfum og kvakar hátt.
  • Röddin er hærra stemmd enhjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra

Á Fuglavefnum má spila hljóð blesgæsa

Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar: Blesgæs

Blesgæs er metin sem tegund í hættu (EN).

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) 

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.
Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Grágæs

Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgump, undirstél og yfirstélþökur.  Ljósgráir framvængir og gumpur áberandi á flugi.

Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl er með dökka nögl á goggi, en fullorðin með ljósa. Kynin eru eins að lit, en gassinn, karlfuglinn, er sjónarmun stærri.

Grágæsir halda sig oftast í hópum utan varptíma, fara þá um í oddaflugi og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, kvenfuglinn ungar út meðan karlfuglinn stendur á verði.

Grágæs er ekki á Válista 2018 en var metin sem tegund í nokkurri hættu (VU) á válista árið 2000 enda hafði henni fækkað stöðugt (>20%) frá því um 1990 og fram yfir 2000.
Þá tók henni að fjölga að nýju en hefur staðið í stað eða jafnvel fækkað á allra síðustu árum.

Æ erfiðara er að meta stofninn eftir því sem far héðan dregst á langinn á haustin og varpfuglum fjölgar í Skotlandi.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Grágæs (Anser anser)

Helsingi

Helsinginn er önnur tveggja „svartra“ gæsa sem fara um landið, er á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Helsingi hefur svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu.

Helsingi (Branta leucopsis). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.
Helsingi (Branta leucopsis). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.

Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir sem hér fara um en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum röðum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.

Helsingjaveiðar hafa verið aflagðar allsstaðar í heiminum nema á Íslandi.

Helsingi er ekki á Válista 2018 en var metinn sem tegund í hættu (EN) á Válista 2000. Á þeim tíma var varpstofninn hér mjög fáliðaður en hefur vaxið mjög mikið síðan og uppfyllir því ekki lengur válistaviðmið.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Helsingi (Branta leucopsis)

Heiðagæs (Anser brachyrhynchus). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.
Heiðagæs (Anser brachyrhynchus). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Heiðagæs

Heiðagæs er einn af einkennisfuglum miðhálendisins, nokkru minni en grágæs og hálsinn hlutfallslega styttri. Höfuð og háls eru kaffibrún og skera sig frá blágráum búknum. Ljósari, með fölbleikum blæ á neðanverðum hálsi og bringu, niður á kvið. Undirstél og undirgumpur eru hvít, síður dökkflikróttar. Framvængur er blágrár, dekkri en á grágæs.

Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl þó dekkri. Gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.

Heiðagæs er félagslynd á öllum tímum árs. Hún flýgur með hröðum vængjatökum og í þéttum hópum, byltir sér meira og er léttari á flugi en grágæs. Lítið höfuð og stuttur háls eru einkennandi á flugi.

Heiðagæsastofninn er mjög stór og vaxandi og er því ekki í hættu (LC). Stærstur hluti íslensk-grænlenska stofnsins verpur hér á landi, en meirihluti íslenskra geldfugla fer til Grænlands í lok júní til að fella flugfjaðrir og grænlenskir varpfuglar fara um Ísland vor og haust.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Heiðagæs (Anser brachyrhynchus)

Þjórsárver og Guðlaugstungur

Stærsta heiðagæsabyggð í heimi var í Þjórsárverum við Hofsjökul, en frá 1980 hefur stór hluti varpstofnsins flutt sig norður fyrir Hofsjökul og verpir nú í Guðlaugstungum sem er nú stærsta heiðagæsavarp í heimi. Ísland er eina Evrópulandið þar sem hún verpur, að frátöldu varpi á Svalbarða.

Þjórsárver eru friðlýst svæði, Ramsarsvæði sem eru mikilvæg votlendissvæði fyrir fugla og á IBA skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði.

Á tímabilinu 1. maí til 20. júní er umferð um og í nálægð við varplönd heiðagæsa bönnuð í Þjórsárverum sbr. viðauka II. sjá kort af svæði takmarkaðrar umferðar vegna heiðagæsavarps í friðlýsingarskilmálunum.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Þjórsárver

Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar: Þjórsárver 

 

Guðlaugstungur voru friðlýstar 2005 og eru einnig Ramsarsvæði og á IBA skrá. Guðlaugstungur eru eitt fjölbreyttasta rústamýrasvæði landsins og raunar eitt af fáum svæðum þar sem rústamýravist er til staðar.

Umferð um varplönd heiðagæsar er bönnuð frá 1. maí til 20. júní. Umferð hestamanna og beit hrossa er stýrt, lausir hundar eru ekki leyfðir, veiði í ám og vötnum er óheimil nema með leyfi veiðifélags og notkun skotvopna er bönnuð.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Guðlaugstungur

Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar: Guðlaugstungur

Margæs

Margæs er lítil „svört“ gæs, mun minni en helsingi og minnsta gæsin sem sést á Íslandi.  Hefur sótsvart höfuð, háls og bringu, hvítar rákir á hálshliðum og dökkt brúngrátt bak og vængi. Kviður og síður eru ljósgrá, aftanverðar síður rákóttar. Ungfugl er án ráka á hálshliðum og gráleitur á síðum.

Margæs (Branta bernicla hrota). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.
Margæs (Branta bernicla hrota). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Margæs flýgur hratt með örum vængjatökum, oftast í óskipulögðum hópum en einnig í oddaflugi.  Stuttur háls og smæð eru einkennandi fyrir margæsina sem er lítið eitt stærri en stokkönd.

Fuglar sem verpa á kanadísku Íshafseyjunum eru af hinni svokölluðu kviðljósu undirtegund (Branta bernicla hrota). Þær hafa vetursetu á Írlandi og eru fargestir á Íslandi vor og haust. Hér dvelja þær í tvo mánuði og fita sig upp fyrir erfitt farflug yfir Grænlandsjökul og jafnframt fyrir varpið, því það vorar ekki á varpstöðvum þeirra fyrr en langt er liðið á varptímann. Margæs er hánorræn og útbreidd með ströndum Norður-Íshafsins. Aðrar undirtegundir eru kviðdökkar og sjást slíkir fuglar stundum í margæsahópum hér á landi.

Hún er létt á sundi og hálfkafar gjarnan. Ólíkt öðrum gæsum halda margæsir sig mest á sjó og við ströndina. Kjörsvæði eru grunnir og skjólsamir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur.

Margæsir eru alfriðaðar á Íslandi, enda hefur hún hér verið flokkuð sem fargestur. Árið 2018 fannst varp hjá margæs á Bessastaðanesi og er það hið fyrsta sem vitað er um hér á landi.

Margæsastofninn hefur vaxið á viðmiðunartímabili válista og er auk þess það stór að hann telst ekki í hættu (LC).

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Margæs (Branta bernicla)