Alþjóðlegur dagur náttúrunnar 3. mars

Alþjóðlegur dagur náttúrunnar 3. mars

Lógó eða merki Fuglavernar prýðir spói. Ef enginn væri spói á merki félagsins væri það heldur ljótt eins og konan sagði. Þannig er lógó Fuglaverndar í þessari færslu.

Aljóðlegur dagur náttúrunnar er í dag og þá skulum við leiða hugann að því hvernig heimur það væri sem að innihéldi ekki neitt gras, tré, mosa, fugla, spendýr og þar fram eftir götunum.  Hvernig það verður að vera lifa í malbikuðum og steyptum plastheimi þar sem lítið líf annað en mannkyn og veirur þrífast eða bara veirur.  Er það framtíðin?

Örstutt myndband frá BirdLife International í tilefni dagsins. 

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Að beisla vindinn og nýta til rafmagnsframleiðslu getur hljómað vel í eyrum margra, sérstaklega þegar litið er til þeirrar loftslagsváar sem við stöndum frammi fyrir og nauðsyn þess að beina orkuframleiðsla inn á umhverfisvænni brautir. Litið er til grænna lausna í auknum mæli, en er nýting vindorka eins græn og haldið hefur verið á lofti?
Á málþinginu verður sjónum beint sérstaklega að mögulegum áhrifum vindorkuvera á fuglalíf á Íslandi. Farið verður yfir stórtækar hugmyndir um vindmyllugarða og hvernig staðsetning þeirra skarast við mikilvæg fuglasvæði á landi og sjó og gætu haft neikvæð áhrif á sumar fuglategundir. Erum við tilbúin að taka slíka áhættu? Gæti opinber stefnumótun og löggjöf komið í veg fyrir umhverfisslys í þessum málum og þá hvernig?

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Fundarstjóri er Guðrún Pétursdóttir.

16:00-16:05 Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar setur málþingið.

16:05-16:10 Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson.

16:10-16:35 Vindmylluáform og mikilvæg fuglasvæði.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Hér verður farið yfir þau áform um vindmyllugarða sem komið hafa til tals síðustu ár. Rætt verður um skörun við mikilvæg fuglasvæði og mikilvægar farfuglaleiðir og afleiðingar af því að setja upp þessa garða. Fjallað verður um nauðsyn þess að mikilvæg fuglasvæði og jaðarsvæði þeirra verði friðuð fyrir vindorkuvinnslu.

16:35-16:55 Vindorkuver og íslenskir fuglar.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands
Gerð verður grein fyrir þeim áhrifum sem vindorkuver geta haft á fuglalíf almennt og hvaða aðferðum er beitt við mat á þeim hér á landi. Fjallað verður um þá þætti, bæði í umhverfi og líkamsgerð fugla, sem hefur áhrif á viðkvæmni þeirra fyrir vindorkuverum og gerð tilraun til að flokka íslenskar fuglategundir með tilliti til þessarar viðkvæmni.

16:55-17:15 White tailed sea eagles and wind turbines
Dr. Oliver Krone, Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research (IZW), Berlin, Germany.
White-tailed sea eagles (WTSE) are among the birds which are frequently killed by wind power plants (WPP). In relation to population size the WTSE is the species mostly affected. In order to reduce the frequency of collisions and to protect the eagles include a minimum distance of a new installed wind turbines to known nests. Research to better understand the reasons for collisions and develop mitigation measures are becoming increasingly important since WPP, as renewable energy sources are planned to increase significantly to match the goals of the government. New legislation will facilitate and accelerate the construction of new WPP in Germany with negative consequences for the eagles.

17:15-17:35 Vindorkuver á sjó við Ísland. Hvað þarf að varast? Ib Krag Petersen, Senior Advisor at Aarhus University.
Greint verður mjög stuttlega frá reynslu annarra þjóða af áhrifum vindmyllugarða á sjó á fuglalíf. Farið verður yfir stöðu þekkingar hérlendis á mikilvægum fuglasvæðum á sjó og skoðað hvaða sjófuglategundir gætu helst orðið fyrir áhrifum af slíkum görðu hér við Ísland og af hverju. Settar verða fram vangaveltur um hvaða þekkingargöt þyrfti helst að bæta og hvort vindmyllugarðar á sjó séu eitthvað sem Íslendingar ættu að skoða yfir höfuð – væru aðrar útfærslur betri? Erindið verður á ensku.

17:35-17:55 Umhverfisáhrif vindorkuvera.
Egill Þórarinsson, sviðsstjóri á sviði umhverfismats.
Í erindinu verður fjallað um möguleg umhverfisáhrif af byggingu og rekstri vindorkuvera. Auk mögulegra áhrifa á fugla getur uppsetning og rekstur vindorkuvera haft áhrif á aðra þætti eins og landslag, fólk, umferð og vatnafar svo eitthvað sé nefnt. Þá geta framkvæmdum við uppbyggingu vindorkuvera fylgt aðrar framkvæmdir sem einnig geta haft áhrif á umhverfið. Greint verður frá því hvað framkvæmdir við vindorkuver fela í sér og hvernig vindorkuver geta haft áhrif á hina ýmsu umhverfisþætti.

17:55-18:10 Áætlanir og stefna um vindorkuver á Íslandi.
Skúli Skúlason, prófessor Háskólanum á Hólum og Náttúruminjasafni Íslands
Rætt verður um lagaramma, áætlanir og stefnu stjórnvalda um vindmyllur og umhverfisáhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á hlutverk, vinnu og stöðu Áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun) og hvernig haga megi vinnubrögðum á opinberum vettvangi til að vernda fugla og aðra náttúru fyrir neikvæðum áhrifum framkvæmda af þessu tagi.

18:10 -18:40 Pallborðsumræður í ráðstefnulok sem Guðrún Pétursdóttir stjórnar.

18:40 Fundarstjóri slítur ráðstefnunni

Léttar veitingar í ráðstefnulok

Allir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og enginn er aðgangseyrir.

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Horfið til grágæsa um helgina

Grágæsir verða taldar hér á landi og á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum 19.–20. nóvember 2022.

Um áratugaskeið hafa gæsir verið taldar á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Um næstu helgi beinast talningar að grágæs. Náttúrufræðistofnun Íslands óskar eftir að fá upplýsingar um grágæsir sem fólk verður vart við hér á landi á næstu dögum, þar á meðal hvar þær sáust og mat á fjölda þeirra. Upplýsingarnar verða sendar samstarfsaðilum hér á landi og á Bretlandseyjum sem taka saman árlegar skýrslur um talningarnar.

Vinsamlegast sendið upplýsingarnar til Svenju N.V. Auhage (svenja[hja]ni.is).

Portúgal: ósar Tagus ánnar í hættu – undirskriftasöfnun

Stjórn Fuglaverndar hefur sent frá sér bréf, bæði til forseta Portúgal og forsætisráðherra þar sem bent er á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Þarna er mikilvægt búsvæði íslenska jaðrakansins (Limosa limosa islandica)

Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport).

Einnig hefur stjórn Fuglaverndar sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni Umhverfis- og auðlindaráðherra bréf um sama efni en þar segir: (Bréfið í heild má finna undir Ályktanir og umsagnir.

Fyrir hönd stjórnar Fuglaverndar vil ég benda á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport). SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Aðstæður eru allar sérkennilegar, svæðið nýtur verndar skv. portúgölskum lögum og er á lista sem Ramsar-svæði, samt sem áður ætla stjórnvöld að knýja þetta fram.

Ósar Tagus-árinnar eru mikilvægasta votlendissvæði í Portúgal. Um 300 þúsund votlendisfuglar fara þar um vor og haust, um 200 þúsund fuglar hafa þar vetursetu og verndargildi þessa svæðis er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Þetta svæði snertir beint fuglaverndarhagsmuni hér á landi þar sem nokkrar af vaðfuglategundum okkar fara þar um vor og haust og íslenskir jaðrakanar hafa þar vetursetu.

SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Sjá nánar á vef þeirra: http://www.spea.pt/en/news/airport-proposal-threatens-one-of-the-most-important-wetlands-in-europe/.

Þá stendur systurfélag okkar í Hollandi fyrir undirskriftasöfnun:

https://www.vogelbescherming.nl/petitie-grutto-lissabon.

Mannlegur lundi

Til okkar á skrifstofu Fuglaverndar kom í gærmorgun amerískur ferðamaður. Hann hafði hug á því að eyða deginum í borginni og langaði til að láta gott af sér leiða. Hugmynd hans var að veita fólki tækifæri til að taka mynd af sér með mannlegum lunda og láta fé af hendi rakna til Fuglaverndar.

Síðar um  daginn  kom  hann  aftur  og  færði  Fuglavernd  afraksturinn  og  þessa  skemmtilegu  mynd.  Við  þökkum  að  sjálfsögðu  kærlega  fyrir  stuðninginn.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) – friðuð tegund í hættu

Fuglavernd vill áminna skotveiðimenn um friðun blesgæsar nú meðan gæsaveiðitímabilið stendur yfir eða frá 20. ágúst til 15. mars.

Blesgæs er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og hefur verið frá og með 12. júní 2006 skv. reglugerð 519/2006. Friðun blesgæsar er ótímabundin.

Blesgæs verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Fuglar sem verpa á V-Grænlandi eru sérstök deilitegund (Anser albifrons flavirostris). Vetrarstöðvar þessara fugla eru á Bretlandseyjum og þá aðallega á Írlandi og í Skotlandi.

Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Helstu viðkomustaðir blesgæsa hér á landi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þar dveljast a.m.k. 60% stofnsins samtímis og væntanlega fer allur stofninn um þessi svæði. Þetta eru Andakíll, Ferjubakkaflói–Hólmavað, Borgarfjörður–Löngufjörur og Suðurlandsundirlendi.

Kort 2: Fjöldi og dreifing blesgæsa á S- og V-landi 13.−15. október 2013. Alls sáust 11.091 fuglar.

Válisti fugla, blesgæs í hættu

Á válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman er blesgæs tegund í hættu (EN).

Kynslóðalengd (IUCN): 11,3 ár. Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998–2032.

Þessi stofn var fyrst metinn með sæmilegu öryggi árið 1983 og var þá talinn um 16.500 fuglar. Í kjölfarið var gripið til verndarráðstafana á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum og óx stofninn hratt fram til 1998 í nær 36.000 fugla. Þá tók honum að hnigna meira og minna samfellt til 2015 (<19.000 fuglar) en var metinn 22.000 fuglar árið 2017 (Wildfowl & Wetlands Trust). Fækkunin á þessum 20 árum er því tæp 40%.

Viðmiðunartímabil IUCN fyrir blesgæsir (alla stofna) hefur verið lengt úr 21 ári í 34 ár vegna þess að nú er notað annað kynslóðabil. Þetta þýðir að grænlenska blesgæsin telst strangt til tekið ekki í hættu, eins undarlega og það kann að virðast. Ef fækkun sú sem hófst árið 1998 heldur áfram með sama hraða og sem svarar þremur kynslóðum (1998–2032) leiðir það til 56% fækkunar eða 2,44% á ári. Samkvæmt því telst blesgæsin í hættu (EN, A4a) og er miðað við það hér.

Sjá nánar á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

 

Greining blesgæsar

Í kjölfar friðunar blesgæsa 2006 var gefinn út bæklingur til að auðvelda skotveiðimönnum greiningu blesgæsa. Bæklingurinn er í fullu gildi og hann má finna á vef Umhverfisstofnunar: Friðun blesæsar, upplýsingar fyrir skotveiðimenn.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann

 

Loftslagsgangan í Reykjavík

Hinn 8. september verður Loftslagsgangan gengin í Reykjavík í þriðja sinn og í ár verður baráttugleðin í fyrrirúmi.

Krafa göngunnar er einföld: Að tafarlaust verði gripið til árangursríkra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin verður að draga vagninn og greiða götuna fyrir sjálfbæru samfélagi.

Safnast verður saman fyrir framan Hallgrímskirkju kl. 14 og gengið niður Skólavörðustíg, Laugaveg og Bankastræti að Lækjartorgi, þar sem haldinn verður stuttur kröfufundur.

Við hvetjum alla til að koma og ganga með loftslaginu!

 

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndum Svartá – Skilafrestur 23. október

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndarfélag Svartár og Suðurár heldur úti síðu á Facebook, Verndum Svartá, en uppi eru áform um Svartárvírkjun, allt að 9,8 Mw virkjun. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar er nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.

Skilafrestur athugasemda er 23. október 2017. 

Hægt er að gera athugasemdir og koma ábendingum á framfæri við Skipulagsstofnun með því að senda tölvupóst á netfangið: skipulag@skipulag.is eða senda bréf stílað á:

Skipulagsstofnun
b.t. Sigurðar Ásbjörnssonar
Borgartúni 7b
105 Reykjavík

Athugasemdir

Mikilvægt er að sem flestir skili inn athugasemdum, í eigin nafni og ekki aðeins náttúruverndarsamtök.

Hér neðanmáls er hugmynd að athugasemdum sem öllum er heimilt að styðjast við. Aftan við þær er skeytt greinargerð Árna Einarssonar “Svartá og Suðurá í Bárðardal-Greinargerð”, grein Viðars Hreinssonar “Verndun Svartár/Suðurár” og grein Börre Skodvins “Value of Nature”. Vísað er til þessara greina í athugasemdum.

Í þessum hugmyndum eru teknir fyrir nokkrir þættir af mörgum í matsferlinu. Þeir sem vilja geta tekið ákveðna þætti fyrir eða stuðst við skjalið eins og þeim hentar best yfirhöfuð. En auðvitað með sínum eigin tilbrigðum!

Umhverfisáhrif á virkjað svæði Svartár – Hugmyndir að athugasemdum

Búsvæðavernd og tegundavernd

Tvær meginstoðir í stefnu Fuglaverndar eru búsvæðavernd og tegundavernd. Vernd Svartár í Bárðardal fellur í báða flokkana, sjá Verkefnin> Svartá í Bárðardal.

Húsönd, straumönd, gulönd og fálki eru allt fuglategundir á válista. Húsönd og straumönd njóta sérstakrar verndar Viðauka II skv. Bernarsamningnum og eru ábyrgðartegundir okkar Íslendinga.

Ramsarsamningurinn snýr að verndun votlendis, en votlendi sem og eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Reglugerð 252/1996 kveður á um dvöl manna við hreiður t.d. fálka og röskun þeirra.

Fyrirhugað virkjanasvæði Svartár er innan svæðis sem er í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar (Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða) en nær út fyrir það svæði ef fyrir valinu verður að plæja niður jarðstreng um 47 km leið yfir heiðar og koma rafmagninu niður í Laxárvirkjun til dreifingar.