Ársskýrsla Fuglaverndar — innsýn í starf félagsins

Ársskýrsla Fuglaverndar var flutt á aðalfundi 4. apríl s.l. Fjallað er um starfsemi félagsins, fjárhag, eignir, mannauð og ríkulegt starf félagsins og samstarf við félög og stofnanir innan- og utanlands.

Fuglavernd eru óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök, sem stofnuð voru 1963. Í árdaga félagsins var áhersla lögð á verndun arnarins en í dag er tilgangur félagsins verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir. Starfsemi félagsins einskorðast þó ekki við þessa hópa og eru engar fuglategundir eða -búsvæði undanskilin. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og hefur í starfi sínu ávallt hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og alla alþjóðlega samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða skipta máli fyrir fuglafánu landsins.

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið lagt áherslu á eftirfarandi atriði í starfsemi sinni:
● Fræðsla til almennings um fuglalíf landsins og hættur sem að því steðja.
● Samstarf við innlend og erlend fugla- og náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem hafa svipuð
markmið og Fuglavernd.
● Rannsóknir á fuglum og búsvæðum þeirra.
● Aðhald gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum sem lúta að markmiðum
félagsins.
● Beinar aðgerðir í samræmi við markmið Fuglaverndar.
● Umsjón með mikilvægum fuglasvæðum sem félagið á beina aðild að, ýmist með sérstökum
samningum eða eignarhaldi.
● Efling félagsins, meðal annars með fjáröflun og fjölgun félaga.

Félagar og aðrir velunnarar Fuglaverndar eru hvattir til að lesa skýrsluna og kynna sér starf félagsins.

 

Kattakragar – minnkum veiðar katta

Kattakragar
Frábærir kragar sem að gera ketti sýnilegri fyrir fugla.
Kettir eru mjög duglegir að leynast, sama hvort þeir eru bröndóttir, skjöldóttir, mjallahvítir eða annara lita þá geta þeir gert sig nær ósýnilega með því einu að liggja grafkyrrir jafnvel á miðri grasflöt. Fuglar sjá liti mjög vel og með því að setja litríkan kattakraga á köttinn þá er búið að auka líkur á því að fuglarnir komi auga á köttinn áður en það er um seinan.
Á kattakrögunum sem að Fuglavernd selur er endurskinsrönd á ystu brún kragans. Endurskinsröndin getur bjargað köttum frá því að verða undir bíl í skammdeginu en endurskinið sést í nær 100 m fjarlægð í ljósgeisla bílsins. Endurskinmerkislaus köttur sést ekki fyrr en hann er stokkinn út á götu framfyrir bílinn, og það getur verið of seint fyrir kisa, jafnvel þó kettir kváðu eiga níu líf.

Sjá nánar í vefverslun Fuglaverndar

 

Kattakragi - litríkar bylgjur
Kattakragi með litríkum bylgjum.

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins. Gakktu (svífðu) til liðs við Fuglavernd. Árgjald er frá 4400 kr til 6600 kr.  Hér geturðu sótt um félagsaðild. 

Verkefni Fuglaverndar eru margvísleg

Fuglar byggja tilveru sína á því að geta aflað sér fæðu, ásamt því að hafa hentuga staði til hvíldar og varps. Mörg þeirra svæða sem fuglar byggja afkomu sína á eru í hættu vegna athafna mannsins.

Á meðal verkefna eru: ELP – Endurheimt landslagsheilda  sem er frekar nýlegt verkefni hjá Fuglavernd,  Friðland í Flóa sem er griðastaður votlendisfugla  og annara fugla,garðfuglaverkefni almennings; fóðrun og talning, Hafnarhólminn þar sem mannveran kemst í seilingarfjarlægð við lunda og stendur á öndinni af gleði.
Hér geturðu lesið nánar um starf Fuglaverndar

Fuglavernd er aðili að BirdLife International sem eru samtök 115 fuglaverndarfélaga út um allan heim.

Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason
Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason
Grágæsir, Ljósm, Jóhann Óli Hilmarsson

Bann sett við sölu á grægæs

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undiritað bann við sölu á grágæs og afurðir hennar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Með breytingunni er óheimilt að bjóða til sölu eða selja grágæs og afurðir hennar. Einnig er óheimilt að flytja hana út. Heimilt er þó að selja uppstoppaða gæs.

Á undanförnum árum hefur grágæsarstofninum hnignað og er sölubann sett fram til að auka líkurnar á að stofninn nái sér á strik á ný. Lagt verður mat á stöðuna að ári liðnu og verði áframhaldandi hnignun á stofninum á þeim tíma verður lengd veiðitímabils grágæsar tekið til skoðunar. Verði hins vegar fjölgun í stofninum verður metið hvort þörf verði á áframhaldandi sölubanni.

Hér má lesa umsögn Fuglaverndar um breytingu laganna til verndunar grágæsa

Hér má lesa fréttina í heild sinni á heimasíðu Stjórnarráðsins

Harmafrétt: Fallinn er frá Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur

Harmafrétt hefur borist, vinur okkar Skarphéðinn G. Þórisson er allur! Hann fórst ásamt samstarfskonu og flugmanni er flugvélin TF-KLO brotlenti við Sauðahnjúka þann 9. júlí. Tilgangur þessarar ferðar, eins of fjölmargra annarra áður, var að vakta hreindýrastofninn. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Á öræfunum þar eystra, landi sem Skarphéðni var svo kært, mætti hann sinni skapanorn. Sannarlega grimm örlög góðs drengs.

Skarphéðinn fékk snemma áhuga á gangverki náttúrunnar. Á unglingsárum urðu fuglar hugfang hans, en einnig flóran og dýralíf fjörunnar. Þá var alfa og ómega fuglarannsókna hér á landi á Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem dr. Finnur Guðmundsson ríkti og skipulagði öflugt starf fuglaáhugamanna. Skarphéðinn tók virkan þátt í því starfi og þar var hans ævibraut mörkuð, líkt og svo margra annarra sem unnu undir handarjaðri dr. Finns.

Að loknu námi í menntaskóla fór hann í Háskóla Íslands og nam líffræði. Teningunum var kastað þegar hann sem nýútskrifaður líffræðingur árið 1978 var ráðinn til Náttúrufræðistofnunar til að sinna hreindýrarannsóknum vegna fyrirhugaðra virkjana á Austurlandi. Þá var ekki aftur snúið, hreindýrin, náttúran, landið og mannlíf þar eystra heillaði og seiddi hann til sín. Hann fluttist austur 1983 og bjó þar allar götur síðan. Hans aðalvinna til aldamóta var kennsla við Menntaskólann á Egilsstöðum. Honum féll vel það hlutskipti, hafði ánægju af því að kenna og fræða, og sem uppfræðari var hann virtur og elskaður af nemum sínum.

Meðfram kennslu sinnti Skarphéðinn hreindýrarannsóknum og vöktun stofnsins hvíldi reyndar meira og minna á hans herðum allt frá 1978. Með stofnun Náttúrustofu Austurlands 1995 var kominn vettvangur þar eystra fyrir fast athvarf hreindýrarannsókna. Skarphéðinn var sjálfkjörinn fræðimaður í það hlutverk og frá árinu 2000 var hann starfsmaður stofunnar. Það er þyngra en tárum taki að nú svo nærri lokum farsæls ferils og í fylgd þess sem átti að taka við keflinu, skuli höggið ríða! Eftir sitjum við hin ráðvillt og hnípin.

Skarphéðinn var náttúruverndarmaður og talaði fyrir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Hann var félagi í Fuglavernd frá unglingsárum, en það er félag sem berst fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Hann stýrði um langt skeið Austurlandsdeild Fuglaverndar og sat í stjórn Fuglaverndar er hann lést. Fyrir hönd Fuglaverndar þökkum við Skarphéðni fyrir hans framlag til félagsins í áratugi. Ólafur og Jóhann Óli vilja jafnframt nota tækifærið og þakka fyrir hálfrar aldar vináttu og tryggð. Við vottum Ragnhildi, börnunum og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð, þeirra missir er mestur. Minningin um góðan dreng lifir!

Ólafur K. Nielsen, fyrrum formaður Fuglaverndar
Jóhann Óli Hilmarsson, fyrrum formaður Fuglaverndar
Menja von Schmalensee, formaður Fuglaverndar
Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar

Nýr formaður og ný stjórn Fuglaverndar

Aðalfundur 2023

Á nýliðnum aðalfundi Fuglaverndar var Menja von Schmalensee kosin nýr formaður félagsins. Menja hefur setið í stjórn Fuglaverndar frá árinu 2018 og verið varaformaður frá 2019.Hún hefur mikla reynslu af fuglavernd og var m.a. formaður nefndar umhverfisráðherra sem vann viðmikla úttekt um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýra á Ísland.  Hér má opna og lesa skýrsluna á heimasíðu stjórnarráðs. Þá hefur hún skrifað fjölda greina sem tengjast fugla- og náttúruvernd og finna má hér. Menja er líffræðingur að mennt og starfar sem sviðsstjóri á Náttúrustofu Vesturlands.

Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn í 60 ára sögu félagsins að kona gegnir stöðu formanns, sem verður að teljast tímamót.

Svenja Auhage og Aldís Erna Pálsdóttir voru kosnar nýjar inn í stjórn. Þær eru báðar fuglafræðingar með mikla reynslu af fuglarannsóknum.

Úr stjórninni gengu Ólafur Karl Nielsen og Erpur Snær Hansen og er þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf til margra ára í þágu félagsins.

Stjórn Fuglaverndar 2023-2024 er því þannig skipuð:
Menja von Schmalensee, formaður
Aldís Erna Pálsdóttir
Daníel Bergmann
Skarphéðinn G. Þórisson
Snæþór Aðalsteinsson
Svenja Auhage
Trausti Gunnarsson

Í tilefni kosningarinnar hélt nýkjörinn formaður Fuglaverndar ræðu sem finna má hér

Veljið hófsemi við rjúpnaveiðar!

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2022 

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2022

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.

Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.

Veiðimenn eru hvattir  til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.

 

Hefurðu áhuga á fuglum? Taktu þátt í Fuglavernd

Hefurðu áhuga á fuglum? Taktu þátt í Fuglavernd

Langar þig að kynnast fólki sem hefur gaman að  því að fara út með sjónauka og horfa á fugla?

Þá er Fuglavernd rétti vettvangurinn fyrir þig. Fyrir utan að kynnast fólki með sama áhugamál þá muntu styrkja félag  sem:

Starfar að  vernd fuglategunda sem eru í útrýmingarhættu á Íslandi, bæði stað- og farfugla.

Rekur friðlönd fyrir fugla: Sjálfboðaliðar koma að viðhaldi þeirra.

-Vinnur að fræðslu um fugla og búsvæði þeirra: Sjálboðaliðar leiða fuglaskoðanir t.d. í Friðlandi í Flóa.

Heldur myndasýningar um fugla: Sjálfboðaliðar Fuglaverndar sýna myndir og segja frá. Frítt inn fyrir félaga en myndasýningarnar eru einnig opnar almenningi sem greiðir aðgangseyri.

Fuglavernd er vettvangur fyrir fólk sem hefur áhuga á fuglum og náttúruvernd.

Hér geturðu skráð þig í félagið.

Taktu þátt í Fuglavernd; friðlönd

Loftmynd af Friðlandi í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Loftmynd af Hafnarhólma. Ljósmynd: ©Daníel Bergmann.

Fuglavernd rekur friðlönd fyrir fugla og hvetur til að  miklvæg svæði verði vernduð með tilliti til  fugla:

Félagar eru um 1300. Félagið heldur myndasýningar og fyrirlestra um fugla og fer í fuglaskoðun með félögum. Það gefur út tímaritið FUGLAR sem fjallar um fugla og málefni tengd fuglum.
Fuglavernd er aðili að Birdlife International sem eru samtök fuglaverndarfélaga um allan heim.

Með aðild tekur þú þátt í fugla- og náttúruvernd, vertu með í Fuglavernd!