Í upphafi skyldi endinn skoða.

Að beisla vindinn og nýta til rafmagnsframleiðslu getur hljómað vel í eyrum margra, sérstaklega þegar litið er til þeirrar loftslagsváar sem við stöndum frammi fyrir og nauðsyn þess að beina orkuframleiðsla inn á umhverfisvænni brautir. Litið er til grænna lausna í auknum mæli, en er nýting vindorka eins græn og haldið hefur verið á lofti?
Á málþinginu verður sjónum beint sérstaklega að mögulegum áhrifum vindorkuvera á fuglalíf á Íslandi. Farið verður yfir stórtækar hugmyndir um vindmyllugarða og hvernig staðsetning þeirra skarast við mikilvæg fuglasvæði á landi og sjó og gætu haft neikvæð áhrif á sumar fuglategundir. Erum við tilbúin að taka slíka áhættu? Gæti opinber stefnumótun og löggjöf komið í veg fyrir umhverfisslys í þessum málum og þá hvernig?

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Fundarstjóri er Guðrún Pétursdóttir.

16:00-16:05 Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar setur málþingið.

16:05-16:10 Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson.

16:10-16:35 Vindmylluáform og mikilvæg fuglasvæði.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
Hér verður farið yfir þau áform um vindmyllugarða sem komið hafa til tals síðustu ár. Rætt verður um skörun við mikilvæg fuglasvæði og mikilvægar farfuglaleiðir og afleiðingar af því að setja upp þessa garða. Fjallað verður um nauðsyn þess að mikilvæg fuglasvæði og jaðarsvæði þeirra verði friðuð fyrir vindorkuvinnslu.

16:35-16:55 Vindorkuver og íslenskir fuglar.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands
Gerð verður grein fyrir þeim áhrifum sem vindorkuver geta haft á fuglalíf almennt og hvaða aðferðum er beitt við mat á þeim hér á landi. Fjallað verður um þá þætti, bæði í umhverfi og líkamsgerð fugla, sem hefur áhrif á viðkvæmni þeirra fyrir vindorkuverum og gerð tilraun til að flokka íslenskar fuglategundir með tilliti til þessarar viðkvæmni.

16:55-17:15 White tailed sea eagles and wind turbines
Dr. Oliver Krone, Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research (IZW), Berlin, Germany.
White-tailed sea eagles (WTSE) are among the birds which are frequently killed by wind power plants (WPP). In relation to population size the WTSE is the species mostly affected. In order to reduce the frequency of collisions and to protect the eagles include a minimum distance of a new installed wind turbines to known nests. Research to better understand the reasons for collisions and develop mitigation measures are becoming increasingly important since WPP, as renewable energy sources are planned to increase significantly to match the goals of the government. New legislation will facilitate and accelerate the construction of new WPP in Germany with negative consequences for the eagles.

17:15-17:35 Vindorkuver á sjó við Ísland. Hvað þarf að varast? Ib Krag Petersen, Senior Advisor at Aarhus University.
Greint verður mjög stuttlega frá reynslu annarra þjóða af áhrifum vindmyllugarða á sjó á fuglalíf. Farið verður yfir stöðu þekkingar hérlendis á mikilvægum fuglasvæðum á sjó og skoðað hvaða sjófuglategundir gætu helst orðið fyrir áhrifum af slíkum görðu hér við Ísland og af hverju. Settar verða fram vangaveltur um hvaða þekkingargöt þyrfti helst að bæta og hvort vindmyllugarðar á sjó séu eitthvað sem Íslendingar ættu að skoða yfir höfuð – væru aðrar útfærslur betri? Erindið verður á ensku.

17:35-17:55 Umhverfisáhrif vindorkuvera.
Egill Þórarinsson, sviðsstjóri á sviði umhverfismats.
Í erindinu verður fjallað um möguleg umhverfisáhrif af byggingu og rekstri vindorkuvera. Auk mögulegra áhrifa á fugla getur uppsetning og rekstur vindorkuvera haft áhrif á aðra þætti eins og landslag, fólk, umferð og vatnafar svo eitthvað sé nefnt. Þá geta framkvæmdum við uppbyggingu vindorkuvera fylgt aðrar framkvæmdir sem einnig geta haft áhrif á umhverfið. Greint verður frá því hvað framkvæmdir við vindorkuver fela í sér og hvernig vindorkuver geta haft áhrif á hina ýmsu umhverfisþætti.

17:55-18:10 Áætlanir og stefna um vindorkuver á Íslandi.
Skúli Skúlason, prófessor Háskólanum á Hólum og Náttúruminjasafni Íslands
Rætt verður um lagaramma, áætlanir og stefnu stjórnvalda um vindmyllur og umhverfisáhrif þeirra. Sérstök áhersla verður á hlutverk, vinnu og stöðu Áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun) og hvernig haga megi vinnubrögðum á opinberum vettvangi til að vernda fugla og aðra náttúru fyrir neikvæðum áhrifum framkvæmda af þessu tagi.

18:10 -18:40 Pallborðsumræður í ráðstefnulok sem Guðrún Pétursdóttir stjórnar.

18:40 Fundarstjóri slítur ráðstefnunni

Léttar veitingar í ráðstefnulok

Allir velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og enginn er aðgangseyrir.

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Framtíð spóans

Alþjóðlegi farfugladagurinn var laugardaginn 12. maí og Spóahátíð var einn af þeim viðburðum sem haldinn var víðs vegar um heiminn til að halda daginn hátíðlegan.

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi hélt síðasta erindi dagsins um vernd spóans hér á landi.

Myndband: Framtíð spóans

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2017

Í ár fer Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram laugardaginn 19. ágúst.

Að þessu sinni eru 22 hlauparar búnir að velja Fuglavernd sem það góðgerðarfélag sem hlýtur þau áheit sem þeir safna. Við hjá Fuglavernd kunnum þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Við viljum sýna hlaupurunum stuðning á móti og þakka fyrir okkur. Það er meðal annars hægt að gera gegnum vefinn hlaupastyrkur.is. Þar er hægt að senda hlaupurunum skilaboð og hvetja þá áfram. Einnig er hægt að heita á hlauparana og eru margar leiðir í boði, senda SMS skilaboð eða borga með kortum eða Kass appinu.

Öllum hlaupurum óskum við góðs gengis á laugardaginn, því mörg verðug málefni njóta góðs af.

Kynning á ársfundi The Waterbirds Society

Í liðinni viku var haldinn hér á landi 41. ársfundur The Waterbirds Society. Dagskrá fundarinns spannaði þrjá daga og föstudaginn 11. ágúst snérist dagskráin að miklu leyti um lunda.

Starfsmenn Fuglaverndar, þær Hólmfríður og Dögg, heimsóttu fundinn þann dag og kynntu starfsemi Fuglaverndar á Íslandi.

Gaman var að koma á fundinn, þar sem m.a. er haldið uppboð á alls konar skemmtilegum hlutum til styrktar rannsóknarnemum á þessu sviði. Fuglavernd gaf barmmerki á uppboðið og vonum innilega að einhver hafi farið glaður með þá minjagripi heim frá fundinum.

Hér eru nokkrar myndir

 

13 erlendir sjófuglafræðingar

Við hýstum fund í byrjun júní sem hafði það að markmiði að tilnefna verndarsvæði til Ospar samningsins og að því tilefni fengum við til okkur 13 erlenda sjófuglafræðinga sem gáfu vinnu sína í þetta verkefni, þrír innlendir tóku líka þátt, þeir Erpur Snær Hansen, Þorkell Lindberg Þórarinsson og Arnþór Garðarsson. BirdLife International getur tilnefnt fyrir aðildarfélögin sín en Fuglavernd er aðili að BirdLife.

Hér er linkur á Ospar samninginn sem Ísland fullgilti árið 1997.

 

Tjörn í friðlandinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Friðlandið í Flóa – fuglaskoðun

Sunnudaginn 12. júní n.k. mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Jóhann Óli Hilmarsson og Alex Máni Guðríðarsson munu leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun í Heiðmörk

Mánudaginn 23.maí verður fuglaskoðun í Heiðmörk  Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 17:30 frá Elliðavatnsbænum og tekinn hringur í nágrenninu.  Skoða á ríkulegt fuglalíf við Elliðavatn og í skógarjaðrinum en Hallgrímur Gunnarsson mun leiða gönguna og mun hún taka um klukkutíma.
Þessi fuglaganga er samstarf Skógræktar Reykjavíkur og Fuglaverndar en allir eru velkomnir. Munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.
Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Nýtt tölublað fugla er komið út

Í lok júní síðastliðinn kom út tölublað nr. 10 af Fuglum, þar sem er fjallað um fugla og náttúruvernd á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir.

Ein af höfuðgreinum þessa blaðs fjallar um það hvort fuglum á Íslandi sé tryggð nægjanleg vernd með lögum, farið er inn á nýtingu og veiðar villtra fugla, og stöðu svartfugla vegna viðvarandi nýliðunarbrests. Annáll flækinga er svo alltaf áhugaverður og yfirlit yfir sjaldgæfa varpfugla líka.

Blaðið er innifalið í félagasaðild að Fuglavernd og er sent nýjum félögum þeim að kostnaðarlausu. Hér má skrá sig í félagið.