Nýtt tölublað fugla er komið út

Í lok júní síðastliðinn kom út tölublað nr. 10 af Fuglum, þar sem er fjallað um fugla og náttúruvernd á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir.

Ein af höfuðgreinum þessa blaðs fjallar um það hvort fuglum á Íslandi sé tryggð nægjanleg vernd með lögum, farið er inn á nýtingu og veiðar villtra fugla, og stöðu svartfugla vegna viðvarandi nýliðunarbrests. Annáll flækinga er svo alltaf áhugaverður og yfirlit yfir sjaldgæfa varpfugla líka.

Blaðið er innifalið í félagasaðild að Fuglavernd og er sent nýjum félögum þeim að kostnaðarlausu. Hér má skrá sig í félagið.

Vertu félagi í Fuglavernd

Sem aðili að Fuglavernd færðu tímaritið Fugla sent heim að dyrum – átt kost á að sækja fyrirlestra og mynda-sýningar sem haldnar eru á vegum félagsins, ásamt fuglaskoðunarferðum og vettvangsfræðslu og svo tekurðu þátt í að fylgja eftir markmiðum félagsins; að vernda fugla og búsvæði þeirra. Sendu okkur netfangið þitt og við sendum þér tilkynningar um alla atburði á vegum félagsins.

Árgjöld í Fuglavernd skiptast niður í nokkra flokka og ef greitt er beint á reikning félagsins má setja aðild í skýringu:
Reiknisnúmer: 0301-26-22994 kt. 500770-0159

  • Einstaklingsaðild fyrir fullorðinn, 4200 kr.
  • Fjölskylduaðild fyrir tvo fullorðna, börn og unglinga undir 18 ára aldri, 5200 kr.
  • Fyrirtækja- og bókasafnsaðild 5200 kr.
  • Árgjald fyrir 18 ára og yngri og 65 ára og eldri 3200 kr.
  • Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á reikninginn okkar: 0301-26-22994 – kt. 500770-0159 og hægt er að greiða reglulega með greiðslukorti með þvi að hafa samband við skrifstofu Fuglaverndar; fuglavernd@fuglavernd.is eða í 5620477.

Ályktun mófuglaráðstefnunnar

Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu.

Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins.

Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH

 

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.