Kynning á ársfundi The Waterbirds Society

Í liðinni viku var haldinn hér á landi 41. ársfundur The Waterbirds Society. Dagskrá fundarinns spannaði þrjá daga og föstudaginn 11. ágúst snérist dagskráin að miklu leyti um lunda.

Starfsmenn Fuglaverndar, þær Hólmfríður og Dögg, heimsóttu fundinn þann dag og kynntu starfsemi Fuglaverndar á Íslandi.

Gaman var að koma á fundinn, þar sem m.a. er haldið uppboð á alls konar skemmtilegum hlutum til styrktar rannsóknarnemum á þessu sviði. Fuglavernd gaf barmmerki á uppboðið og vonum innilega að einhver hafi farið glaður með þá minjagripi heim frá fundinum.

Hér eru nokkrar myndir

 

13 erlendir sjófuglafræðingar

Við hýstum fund í byrjun júní sem hafði það að markmiði að tilnefna verndarsvæði til Ospar samningsins og að því tilefni fengum við til okkur 13 erlenda sjófuglafræðinga sem gáfu vinnu sína í þetta verkefni, þrír innlendir tóku líka þátt, þeir Erpur Snær Hansen, Þorkell Lindberg Þórarinsson og Arnþór Garðarsson. BirdLife International getur tilnefnt fyrir aðildarfélögin sín en Fuglavernd er aðili að BirdLife.

Hér er linkur á Ospar samninginn sem Ísland fullgilti árið 1997.

 

Tjörn í friðlandinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Friðlandið í Flóa – fuglaskoðun

Sunnudaginn 12. júní n.k. mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Jóhann Óli Hilmarsson og Alex Máni Guðríðarsson munu leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun í Heiðmörk

Mánudaginn 23.maí verður fuglaskoðun í Heiðmörk  Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 17:30 frá Elliðavatnsbænum og tekinn hringur í nágrenninu.  Skoða á ríkulegt fuglalíf við Elliðavatn og í skógarjaðrinum en Hallgrímur Gunnarsson mun leiða gönguna og mun hún taka um klukkutíma.
Þessi fuglaganga er samstarf Skógræktar Reykjavíkur og Fuglaverndar en allir eru velkomnir. Munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.
Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Nýtt tölublað fugla er komið út

Í lok júní síðastliðinn kom út tölublað nr. 10 af Fuglum, þar sem er fjallað um fugla og náttúruvernd á léttan og aðgengilegan hátt. Efnistök eru fjölbreytt og lifandi og blaðið prýðir einstakar ljósmyndir.

Ein af höfuðgreinum þessa blaðs fjallar um það hvort fuglum á Íslandi sé tryggð nægjanleg vernd með lögum, farið er inn á nýtingu og veiðar villtra fugla, og stöðu svartfugla vegna viðvarandi nýliðunarbrests. Annáll flækinga er svo alltaf áhugaverður og yfirlit yfir sjaldgæfa varpfugla líka.

Blaðið er innifalið í félagasaðild að Fuglavernd og er sent nýjum félögum þeim að kostnaðarlausu. Hér má skrá sig í félagið.

Vertu félagi í Fuglavernd

Sem aðili að Fuglavernd færðu tímaritið Fugla sent heim að dyrum – átt kost á að sækja fyrirlestra og mynda-sýningar sem haldnar eru á vegum félagsins, ásamt fuglaskoðunarferðum og vettvangsfræðslu og svo tekurðu þátt í að fylgja eftir markmiðum félagsins; að vernda fugla og búsvæði þeirra. Sendu okkur netfangið þitt og við sendum þér tilkynningar um alla atburði á vegum félagsins.

Árgjöld í Fuglavernd skiptast niður í nokkra flokka og ef greitt er beint á reikning félagsins má setja aðild í skýringu:
Reiknisnúmer: 0301-26-22994 kt. 500770-0159

  • Einstaklingsaðild fyrir fullorðinn, 4200 kr.
  • Fjölskylduaðild fyrir tvo fullorðna, börn og unglinga undir 18 ára aldri, 5200 kr.
  • Fyrirtækja- og bókasafnsaðild 5200 kr.
  • Árgjald fyrir 18 ára og yngri og 65 ára og eldri 3200 kr.
  • Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á reikninginn okkar: 0301-26-22994 – kt. 500770-0159 og hægt er að greiða reglulega með greiðslukorti með þvi að hafa samband við skrifstofu Fuglaverndar; fuglavernd@fuglavernd.is eða í 5620477.

Ályktun mófuglaráðstefnunnar

Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu.

Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins.

Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH

 

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.