Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.