Lómur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

 

Lómur (Gavia stellata)

Lómur á flugi með sýli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lómur á flugi með sýli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Lengd: 53-69 cm

Vænghaf: 106-116 cm

Þyngd: 1.7 kg

Urpt: 2 egg

Varptími: maí - júní

Ungatími: júní - miður ágúst

Klaktími: 4 vikur

Uppvöxtur unga: 6 vikur

Varpstofn: 1.500 - 2.000 pör

Vetrarstofn: 1.000 - 3.000 fuglar

 

Útlit og atferli lómsins

Lómurinn (Gavia stellata) er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) eins og himbrimi, en aðeins fimm tegundir tilheyra þeim ættbálki og búa þær allar á Norðurhveli. Lómurinn er straumlínulagaður og svipaður frænda sínum himbrimanum, en þó mun minni og ávallt auðgreindur frá honum á uppsveigðum, grönnum gogginum. Hann er gráleitur, dökkur að ofan en ljós að neðan, með langa, mjóa vængi.

Á sumrin er hann grár á höfði og hálshliðum, langröndóttur á afturhálsi og með dumbrauða skellu á framhálsi. Hann er grábrúnn að ofan; bringa, kviður og undirvængir hvít og síðurnar rákóttar. Á veturna er hann hvítur á höfði og hálsi nema með gráan koll og afturháls, grár á baki með hvítum, smágerðum dílum og hvítur að neðan. Ungfugl er svipaður en brúnni og dekkri á baki, höfði og hálsi.

Goggurinn er grannur, oddhvass og lítið eitt uppsveigður, grásvartur en ljósari á veturna. Fætur eru grásvartir, augu rauð, brúnni á ungfugli.

Lómurinn er þungur á sér og þarf því að taka tilhlaup á vatnsborðinu til að ná fluginu. Hálsinn er niðursveigður á flugi og fæturnir skaga langt aftur fyrir stutt stélið og þeir bera þá ekki fyrir sig í lendingu (bremsa) eins og andfuglar, heldur ástunda magalendingu með talsverðum buslugangi.

Lómurinn er ófær til gangs þar sem fæturnir eru svo aftarlega á búknum. Þeir nýtast þeim mun betur til að ýta fuglinum áfram í kafi, enda er lómurinn sérhæfður kafari og unir  sér best á vatni. Hann er, eins og svo margar aðrar fiskiætur, langur og mjór með langan, beittan gogg. Nægir að bera hann saman við himbrima, fiskiendur, skarfa og suma svartfugla til að staðfesta þessa sérhæfni. Þegar lómurinn verður fyrir styggð lætur hann sig síga í vatninu svo aðeins hausinn stendur uppúr.

Lómar sjást stakir eða í litlum hópum. Lómur vælir ámótlega á sundi en á flugi gefur hann frá sér hávært gargandi kokhljóð, minnir á hása gæs. Hljóð lómsins þóttu segja fyrir um veður, hann gaggaði fyrir þurrki, en vældi fyrir óþurrki. Þannig varð til heitið þerrikráka fyrir lóm.

 

Lífshættir

Lómurinn er fiskiæta, á ferskvatni kafar hann eftir hornsíli og smásilungi. Þar sem lómar verpa við smátjarnir sækja þeir sandsíli til sjávar, silung í vötn eða jafnvel flundru í árósa. Á veturna er aðalfæðan smáfiskur eins og sandsíli, smáufsi og  loðna. Eitthvað eta þeir krabbadýr og lindýr.

Lómurinn verpir við tjarnir, vötn, ár og læki, oftast við eða nærri fiskiauðugum stöðum. Hann myndar sums staðar dreifðar byggðir nærri sjó. Hreiðurgerð lómsins er lítilfjörleg. Fuglinn verpur tveimur eggjum í grunna skál á tjarnarbakka og skríður hann á maganum að og frá hreiðrinu. Stundum  komast báðir ungarnir á legg, en oft bara annar. Þegar ungarnir eru orðnir fleygir fara þeir með foreldrunum til sjávar og læra að afla sér fæðu uppá eigin spýtur.
Lómurinn er harður í horn að taka þegar verja þarf hreiður eða unga. Hann fer ekki í „fuglgreinarálit“ en ræðst jafnt á minni endur sem álftir. Lómar og álftir deila oft varpstöðum og er vissara fyrir álftina, sem venjulega kallar ekki allt ömmu sína, að halda sig á mottunni. Lómurinn kafar oft undir álftirnar eða aðra fugla og kemur upp undir þeim með beittan gogginn að vopni.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Lómurinn verpur um land allt en er algengastur við sjávarsíðuna, þar sem hann verpur sums staðar í dreifðum byggðum, en annars eru pörin venjulega stök. Hluti stofnsins flýgur til V-Evrópu á haustin en staðfuglar dvelja að mestu við vestanvert landið á veturna. Grænlenskir varpfuglar hafa hér viðdvöl
á leið til vetrarstöðva á Norðursjó og mögulega gætu einhverjir haft hér vetrardvöl. Varplönd eru allt umhverfis norðurheimskautið.

Sennilega er meira af lómi til hér við land á veturna heldur en áður var talið en merkingar með svonefndum dægurritum benda til að lómar, sem verpa á Mýrum vestur, haldi til við vestanvert landið á veturna. Það er í samræmi við niðurstöður vetrafuglatalninga (jólatalninga) í svartasta skammdeginu; að jafnaði sjást 100–300 fuglar í þessum talningum, flestir við SV-land, en einnig talsvert við Vesturland og Vestfirði. Litlir hópar sjást jafnframt stundum við SA-land, í Berufirði og Hornafirði. Ég ætla að leyfa mér að álíta að það sé um tíundi hluti vetrarstofnsins sem sést í talningunum.

 

Verndun – hættur

Lómurinn hefur verið alfriðaður frá 1994 en áður mátti veiða hann á veturna. Það hefur væntanlega ekki verið mikið stundað. Lómur er ekki á válistum og er stofninn talinn stöðugur. Aðalhættan nú er vegna eyðileggingar búsvæða lómsins, eins og með framræslu. Þurr sumur geta haft áhrif á varpafkomu
lóma. Það hendir stundum í Friðlandinu í Flóa að lómar verpi við tjarnir sem síðan þorna upp og þá geta þeir ekki lent eða haft sig til flugs og ungarnir drepast. Það eru vísbendingar um að lómar geti flutt unga á milli tjarna þegar svo stendur á. Afrán er eitthvað, bæði af völdum tófu, minks, og máfa. Fæðuskortur getur líka verið vandamál og í sílaskortinum á síðustu árum mátti sjá lóma reyna að fá unga til að gleypa flundruseiði, en það gekk brösuglega. Hætta á vetrarstöðvum er aðallega vegna mengunar, eins og af olíu eða slíku.

 

Lómurinn í Friðlandinu í Flóa

Lómurinn er afar áberandi á Flóagaflsengjum og má með sanni segja að hann sé einkennisfugl Friðlandsins. Lómar fara að sjást á Ölfusárósi í endaðan mars og fljótlega eftir það fara þeir að setjast upp í Friðlandinu. Frá vori og allt fram eftir ágúst eru köll lómanna áberandi. Þeir eru hávaðasamastir á
kvöldin og morgnanna, stundum fljúga þeir saman í litlum hópum með miklum látum.

Lómur verpur við flestar þær tjarnir eða dælir í Friðlandinu þar sem hann nær að hefja sig til lofts og skipta varppörin tugum. Lómurinn hleypur eftir vatnsfleti til að hefja sig til flugs og þarf því talsverða flugbraut til þess arna. Lágmarkslengd varptjarnar er sennilega um 10 metrar. Lómar hafa reynt varp við styttri tjarnir en þeir afræktu allir.

Eftir að Fuglavernd hóf endurheimt votlendis í Friðlandinu með stuðningi Pokasjóðs hefur lómi fjölgað þar. Fleiri tjarnir eru nú með tæru vatni en áður og álitlegri fyrir lóma og aðra fugla til varps. Honum hefur líka fjölgað, sennilega hefur varpstofninn meira en tvöfaldast eftir að farið var að endurheimta.
Nú verpa árlega um 25 lómapör í Friðlandinu. Þó talsvert sé af hornsílum og smábröndum í tjörnunum sækja lómarnir fæðu sína aðallega til sjávar, en einnig eitthvað á Ölfusárós. Síli er þeim mikilvæg fæða, eins og svo mörgum íslenskum fuglum.

Lómur - Myndir

 

Greinin birtist í Fuglum 11 2017. Texti og myndir Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar.