37 sjófuglabyggðir við Ísland, hluti alþjóðlegra mikilvægra fuglasvæða á Íslandi. Smelltu á myndina til að sjá meira.

 

Sjófuglabyggðir við Ísland – Story Map

 

 

Ein meginforsenda fyrir vernd fugla nú á dögum er að vernda búsvæði þeirra, hverfi búsvæðin eða rýrna þá deyja viðkomandi fuglategundir út eða stofnar þeirra minnka verulega. Fuglavernd hefur tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland, því búsvæðavernd er ein af meginstoðum í stefnu og starfi Fuglaverndar. Fuglavernd hefur einnig það hlutverk að halda utanum skrá alþjóðlegra mikilvægra fuglasvæða fyrir hönd Birdlife International, en um þessar mundir eru 99 IBA svæði á skrá á Íslandi. Þessar sjófuglabyggðir eru öll alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.

Vefurinn Sjófuglabyggðir við Ísland sýnir á korti staðsetningu byggðarinnar, og farið er réttsælis hringinn í kringum landið, byrjað við Látrabjarg sem er eitt stærsta fuglabjarg heims. Hverju svæði er lýst með mynd og texta, þá er fjallað um fuglategundir svæðisins, farið yfir stöðu tegundanna á válista fugla á Íslandi, vernd svæðisins og nytjar og lokst eru tenglar á IBA skrá BirdLife International fyrir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði sem og tengill á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands um mikilvæg fuglasvæði.

Markmið vefsins er vera ítarefni fyrir kennslu og fræðslu, fyrir öll skólastig og almenningsfræðslu. Valin var myndræn framsetning og byggt er á gögnum færustu vísindamanna okkar.