Vel heppnaðar göngur í Friðlandi í Flóa

Þrjár göngur hafa verið farnar í Friðlandið okkar á vegum Fuglaverndar í júní og júli.
Mikið var af óðinshönum í byrjun júní og álftarpar var á vappi á ýmsum stöðum í mýrinni. Skúfendur á tjörnum svo og rauðhöfðar. Órólegir þúfutittlingar við fuglskoðunarhúsið en væntanlega eru þeir með hreiður rétt hjá. Enginn stari, hann hefur móðgast þegar lokað var fyrir hreiðurstæði hans í þakskeggi undir stiganum. Honum hefur ekkert litist á varpkassana.
Lómarnir stela agjörlega senunni á kvöldin með sínum margbreytilegu hljóðum; kurri, góli, væli, mali og svo fram eftir götunum. Einnig er mikið fjör þegar 7 – 12 lómar safnast saman og skemmta sér á dæli eða tjörn.
Hópurinn í gærkvöldi var svo heppinn að sjá branduglu með æti í klóm væntanlega á leið heim til unganna og sá einnig álftapar með nokkura daga unga.
Sjöstjarnan sem vex af miklum móð í mýrinni hefur verið í blóma og mýrin virkilega verið stjörnum prýdd. Þessi planta er algengust á austurlandi en í Friðlandinu er hún út um allt. Um sjöstjörnuna

Nýsjálenska tímaritið Forest & Bird fjallar um íslenska Fugl ársins

Fjallað var um Fugl ársins 2021 í vetrar tímariti Forest & bird sem gefið er út í Nýja Sjálandi. Þar er vissulega vetur nú.
Ef þið hafið hug á að skoða greinina þá getiði smellt á eftirfarandi hlekk og flettið síðan á bls. 8
Forest & Bird
Meðfylgjandi mynd er af Lóu- barmmerkinu sem Fuglavernd lét framleiða og er til sölu í netversluninni.

Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Formaður Fuglaverndar Ólafur Karl Nielsen sæmdur Fálkaorðunni

Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar var sæmdur Fálkaorðunni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær 17. júní 2021. Heiðurinn hlýtir hann vegna rannsókna á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði.
Það er auðvitað viðeigandi að Ólafur K. beri Fálkaorðu á brjósti.

Hér er hann Ólafur K. í góðum félagasskap á Bessastöðum í gær.

Kría í Vatnsmýrinni

Alþjóðlegi farfugladagurinn 8. Maí

Alþjóðlegi farfugladagurinn er í dag en hann er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Fuglaverndarfélög um allan heim standa þá fyrir fuglaskoðunarferðum og ýmsum fuglatengdum viðburðum. Hefð hefur verið að Fuglavernd bjóði upp á fuglaskoðun á þessum degi en vegna sóttvarnarráðstafana sér félagið sér ekki fært að gera það í þetta skiptið en hvetur fólk til að fara í fuglaskoðun á eigin vegum. Gott er að taka með sér sjónauka og handbók um fugla og spreyta sig á að þekkja þá. Einnig er hægt að finna smáforrit í síma til að styðjast við. Víða um land má finna skemmtilega fuglaskoðunarstaði og Reykjavíkurborg og Fuglavernd hafa m.a. gefið út bækling um fuglaskoðun í Reykjavík sem nálgast má hér.

 

Farfuglar

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar og nokkrar tegundir fargesta fara hér einnig um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið sinni milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva í Evrópu. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum.

Þeirra á meðal er krían sem flýgur langleiðina yfir hálfan hnöttinn milli varp- og vetrarstöðva vor og haust. Þetta langa flug kostar mikla orku og fyrirhöfn en ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri. Krían á þó undir högg að sækja og varpárangri hennar hefur hrakað mjög á síðustu árum og er talið að fæðuskortur vegna umhverfisbreytinga í hafinu sé orsök þess. Margt bendir til að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu rótin að þeim vanda.

Krían er komin til landsins og hefur sést um sunnanvert landið undanfarið. Hún er m.a. mætt í Vatnsmýrina þar sem njóta má þess að sjá hana og heyra og bjóða hana velkomna í tilefni dagsins.

Fuglavernd hvetur fólk til að taka vel á móti öllum farfuglum og sýna sérstaka aðgæslu í kringum varp fugla.

Heiðlóa

Heiðlóa er Fugl ársins 2021!

Það er heiðlóan sem er sigurvegari kosninga um titilinn Fugl ársins 2021. Hún flaug beint á toppinn í atkvæðagreiðslunni og sigraði með glæsibrag þar sem hún fékk bæði flest atkvæði sem 1. val kjósenda  og var einnig með flest atkvæði samanlagt sem 1.-5. val. Himbriminn veitti henni harða keppni. Alls bárust 2054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti 5 fugla og raða þeim í sæti 1-5. 

Himbrimi
Himbriminn veitti heiðlóunni harða keppni um titilinn Fugl ársins 2021. Ljósmyndina tók Eyþór Ingi Jónsson sem var kosningastjóri himbrimans

Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningu á Fugli ársins en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá enda voru viðtökurnar frábærar. Keppnin er  haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.

Staða heiðlóunnar á Íslandi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör. Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpur hér á landi. Heiðlóan er farfugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðallega Írlands, en einnig í Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og árósa.

Enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar

Heiðlóa
Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar sem einnig sigraði BirdEurovisionkeppnina árið 2002 með fögrum söng sínum. Heiðlóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar og er fréttum af fyrstu komu heiðlóunnar á hverju vori ákaft fagnað. Um hana hafa einnig löngum verið ort og kveðin rómantísk ljóð.

Sé ég gróa og grænka kvist
grynnist snjóatakið
vorið hló er heyrði ég fyrst
hlýja lóukvakið

Lóuvísur 1929, Stefán Vagnsson

 

Allir frambóðendur voru með kosningastjóra

Heiðlóan stóð ekki ein í sinni kosningabaráttu en sérstök talskona hennar í keppninni var Guðrún Jónsdóttir. Hún lagði dag við nótt við að lyfta heiðlóunni á flug í keppninni, fór í útvarpsviðtöl, opnaði kosningaskrifstofu, var með kosningakaffi á pallinum og lét útbúa sérstakan hringitón í síma með lóusöng. Hún stofnaði einnig fésbókarsíðu fyrir heiðlóuna sem þegar er komin með um 600 fylgjendur. 

Allir 20 fuglarnir í framboði höfðu kosningastjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum, á öllum aldri, sem stóð sig með stakri prýði. Margir stofnuðu samfélagsmiðlasíður fyrir sína fugla, gerðu myndbönd, fóru í viðtöl og fengu jafnvel sína eigin vefsíðu eins og himbriminn. Fuglavernd þakkar öllum kosningastjórunum kærlega fyrir að leggja fuglum og félaginu lið sitt með þessum hætti og vonar að þau hafi öll haft ánægju af.

,,Lóan er hið eina sanna sameiningartákn þjóðarinnar” sagði Guðrún Jónsdóttir talskona lóunnar og var á því að landsmenn ættu að sameinast um að kjósa hana fugl ársins til að kveða burt kóf og leiðindi síðasta vetrar og það hafa þeir nú gert.

Fuglavernd óskar heiðlóunni til hamingju með titilinn Fugl ársins 2021 og vonar að sumarið verði henni og hennar fiðruðu bræðrum og systrum gjöfult og gott.

Fuglar í 10 efstu sætum í kosningum um Fugl ársins 2021:

  1. Heiðlóa
  2. Himbrimi
  3. Rjúpa
  4. Hrafn
  5. Maríuerla
  6. Kría
  7. Hrossagaukur
  8. Lundi
  9. Svartþröstur
  10. Músarrindill

Nánari upplýsingar um frambjóðendur og kosningastjóra þeirra er að finna á vefsíðunni keppninnar fuglarsins.is

Gerast félagi í Fuglavernd

Styrkja starf Fuglaverndar

Fugl ársins 2021 – Atkvæðin streyma inn

Atkvæði streyma nú inn í tengslum við kjör á Fugli ársins 2021 og hafa nú um 1500 manns greitt atkvæði. Allir sem hafa íslenska kennitölu hafa atkvæðisrétt og engin aldursmörk eru á kjörgengi. Velja má allt að 5 fugla sem 1.-5. val en ekki má setja sama fuglinn í fleiri en eitt sæti.

Allir fuglarnir komnir með kosningastjóra 
Lómar berjast um óðal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lómar eru oft með mikið busl og læti eins og kjósendur Fugls ársins 2021 í heitu pottunum um þessar mundir. Lómur keppir þó ekki um titilinn í ár. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Allir fuglarnir 20 sem eiga möguleika á titlinum Fugl ársins 2021 náðu að krækja sér í sérstaka kynningarfulltrúa í formi talskvenna og kosningastjóra. Um er að ræða fólk á öllum aldri og úr öllum áttum sem á það sameiginlegt að vera fuglavinir. Sum þeirra hafa komið upp samfélagsmiðla- og vefsíðum fyrir fugla sína og einnig hafa þau dyggilega talað máli sinna fugla í fjölmiðlum án þess að halla á aðra frambjóðendur.

Fuglavernd reiknar með að spennan eigi eftir að magnast eftir því sem líður á kosninguna en henni lýkur sunnudaginn 18. apríl kl. 18. Nú þegar heitu pottarnir hafa opnað aftur er einnig næsta víst að Fugl ársins 2021 verði heitasta umræðuefnið þar enda hefur fólk sterkar skoðanir á því hver á að verða Fugl ársins. Fuglavernd hefur nokkrar áhyggjur af því að einhverjir muni missa sig í skvett og fjaðrafok eins og buslöndum er gjarnt, en biðlar til fólks að gæta ítrustu sóttvarna og virða fjarlægðarmörk.

Á vef keppninnar má finna hlekk á kjörseðilinn, upplýsingar um frambjóðendur og fyrirkomulag kosninganna.

KJÓSA FUGL ÁRSINS 2021

Kosningin um Fugl ársins 2021 er hafin!

Kosning um Fugli árins 2021 hefur tekið flugið og stendur hún til kl. 18 sunnudaginn 18. apríl.

Finna má hlekk á rafrænt kosningaeyðublað, upplýsingar um frambjóðendur, kosningastjóra þeirra og allar nánari upplýsingar um kosninguna á síðu keppninnar á hlekknum hér:

Fugl ársins 2021

Atkvæði eru þegar farin að streyma inn eins og farfuglar að vori og einnig umsóknir um stöður kosningastjóra fuglanna sem eru í framboði.  Nú eru 9 fuglar af 20 sem eru í framboði búnir að næla sér í einn slíkan. Þó kosningin sé hafin er enn hægt að sækja um stöður kosningastjóra þeirra fugla sem út af standa og freista þess að gefa þeim byr undir báða vængi í keppninni.

Á myndinni með þessari frétt er blesgæs sem ekki keppir um titilinn Fugl ársins þetta árið en hún tók að sér af mesta hlutleysi að myndskreyta fréttina á táknrænan hátt þar sem hún hefur sig til flugs. Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson.

Uppfært: Allir fuglarnir í framboði um titilinn Fugl ársins 2021 eru nú komnir með kosningastjóra og talskonur!

 

 

Tveir auðnutittlingar. @Eyþór Ingi Jónsson

Auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra!

Spennand magnast í keppninni um Fugl ársins 2021 en nú eru auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra. Guðni Sighvatsson  tók að sér að hvetja auðnutittling til dáða í keppninni og er  auðnutittlingurinn komin með síðu á Instagram. Guðni segist vilja vera talsmaður auðnutittlings í keppninni í þakklætisskyni við auðnutittlinginn sem gleður hann og aðra Laugvetninga með návist sinni árið um kring.

Lundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sunna Dís Kristjánsdóttir kennari tilnefndi lunda í keppnina Fugl ársins 2021 ásamt 34 lundaelskum krökkum í bekknum hennar í Engidalsskóla í Hafnarfirði og er nú orðin kosningastjóri lundans. Hún hefur sett upp síðu á Facebook fyrir lundann þar sem hann er dásamaður fyrir fegurð sína og hæfileika og m.a. birtar fallegar myndir og teikningar af lundum frá krökkunum.

Fuglavernd býður Guðna og Sunnu Dís og krakkana í Engidallskóla velkomin í hóp kosningastjóra í Fugli ársins 2021 óskar þeim auðnutittlingi og lunda velfarnaðar í keppninni.

Grágæsin var áður komin með kosningastjóra en enn eru lausar stöður 17 fugla sem keppa um titilinn Fugl ársins 2021 og hvetur Fuglavernd áhugasama á öllum aldri til að kynna sér málið og sækja um fyrir sína fugla. Nánari upplýsingar um keppnina og hvernig sótt er um stöðu kosningastjóra má finna á vefsíðu keppninnar Fugl ársins 2021.

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Grágæsin komin með kosningastjóra!

Grágæsin hefur sig til flugs í keppninni um titilinn Fugl ársins 2021 ásamt 20 öðrum fuglum en er sú eina sem er komin með kosningastjóra. Líklega veitir henni ekki af því að bæta ímynd sína vegna núnings við mannskepnuna. ,,Ég vil boða þann sannleik sem hefur farið framhjá of mörgum að grágæsin er hetja og besti vinur Íslendinga” segir Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson í umsókn sinni um stöðuna. 

Hinir 19 fuglarnir í keppninni eru enn án kosningastjóra og Fuglavernd hvetur áhugasama til að senda inn umsókn HÉR. 

Hlutverk kosningastjóra er fyrst og fremst að nota hugmyndaflugið til að vekja athygli á málefnum fuglsins, t.d. á samfélagsmiðlum, svo hann nái sér á flug í keppninni. 

Nánari upplýsingar um leitina að Fugli ársins 2021 og þá 20 fugla sem keppa.

Grágæsin er komin á samfélagsmiðla:

Grágæsin tístir

Grágæsin á Instagram

#gragaesin