Framkvæmdastjóri Fuglaverndar á BirdLife Partnership Meeting 2024

Hólmfríður framkvæmdastjóri Fuglaverndar tók þátt í fundi BirdLife Evrópu og mið Asíu sem haldinn var í síðustu viku í Almaty, Kazakstan en þar voru samankomnir fulltrúar frá 50 löndum til að miðla reynslu sinni af verndun og endurheimt búsvæða. Eftir fundinn var farið í fugla- og náttúruskoðun í þjóðgarðinn Altyn-Emel og sáust m.a. villtir asnar og gasellur, refir, eðlur, ernir, fálkar og hrægammar- ekki náðust þó þessi dýr á mynd 😊. Fuglavernd hefur verið fullgildur aðili að BirdLife frá því 2018 og hefur þetta samstarf skipt okkur miklu máli þar sem við höfum fengið bæði tæknilega og fjárhagslega aðstoð frá þeim.

Jóhann Óli Hilmarsson fékk Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar frá Brattholti, 2024

Þann 16. september s.l.  var Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt félaga Fuglaverndar og fyrrum formanni þess, Jóhanni Óla Hilmarssyni fyrir ötult starf í þágu náttúrverndar. 16. september er afmælisdagur annars ötuls náttuverndara hans Ómars Ragnarssonar, og var afmælibarnið viðstatt afhendingu viðurkenningarinnar. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem veitti viðurkenninguna í ráðuneytinu.

Jóhann Óli þakkaði fyrir sig og hélt þakkar- og umvöndunarræðu sem hófst svona:

,,Góðir gestir, ráðherra, afmælisbarnið Ómar Ragnarsson

Mig langar til að þakka ráðuneytinu af heilum hug fyrir þessa virðulegu viðurkenningu – Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Hún hlýtur að tákna að ég hef gert eitthvað rétt í lífinu, þar sem náttúruvernd hefur lengi verið mér ofarlega í huga og ég hef eitt stórum hluta ævinnar úti í náttúrunni við ýmislegt bardús, náttúran hefur verið ævistarf mitt.

Baráttan fyrir náttúrunni, í mínu tilviki fugla og búsvæða þeirra, tekur aldrei enda. Það eru alltaf einhverjir sem sjá hag sinn í að maka krókinn með því að ganga á náttúruna. Auður okkar liggur í náttúrunni, hún er afkomenda okkar og því er afskaplega vandfarinn hinn gullni meðalvegur milli nýtingar og verndar.”

 

Hér er hægt að lesa ræðuna í heild sinni. 

 

Formaður Fuglaverndar birti um helgina perónulega hugleiðingu um skógræktarmálið í Saltvík, nærri Húsavík, sem má lesa hér.

“Stundum skil ég bara alls ekki ákvarðanir sem eru teknar í stjórnsýslunni þegar kemur að náttúruvernd og dýravelferð. Aðfarir Ísafjarðabæjar gegn kríum og Garðabæjar gegn sílamáfum eru dæmi um þetta. Nýjasta dæmið er hins vegar leyfisveiting Norðurþings til Yggdrasill Carbon til jarðvinnslu vegna skógræktar. Nærri Húsavík var í sumar plægt upp fallegt og vel gróið búsvæði margra fuglategunda sem verpa á opnum svæðum Á MIÐJUM VARPTÍMA!!

Nógu slæmt er að fara svona fram með offorsi gegn náttúrunni undir því yfirskini að vilja binda kolefni, en þessi tímasetning aðgerða er gjörsamlega galin. Samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar (https://vistgerdakort.ni.is/) er ríkjandi vistgerð á svæðinu sem um ræðir fjalldrapamóavist. Einnig má finna þarna aðrar vistgerðir í minna mæli samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunar, en nefna má starungsmýravist og víðikjarrvist. Í þessum vistgerðum má finna ríkulegt fuglalíf og algengt er að t.d. þúfutittlingur, hrossagaukur, spói, heiðlóa, lóuþræll, rjúpa, jaðrakan, stelkur, skógarþröstur og grágæs verpi þar. Allar þessar tegundir nema rjúpa og grágæs eru alfriðaðar, en rjúpa og grágæs eru veiðitegundir sem þó að sjálfsögðu eru friðaðar á varptíma. Fjalldrapamóavist, starungsmýravist og víðikjarrvist eru allar á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Eyðilögð gróðurþekja Saltvík, Húsavík. Ljsm. Áskell Jónsson

 

Hér er því rétt að staldra við.

Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994064.html) kemur fram að „Villt dýr, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum“ (6. grein). Þá er friðun skilgreind sem „bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.“ (1. grein). Ljóst er að afföll urðu á eggjum og ungum friðaðra tegunda í sumar er umrætt land var plægt upp á varptíma.

Í lögum um velferð dýra (nr. 55/2013) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013055.html) kemur fram að skylt sé að hjálpa dýrum í neyð (væntanlega hefur fjöldi fugla lent þarna í neyð á meðan á þessum aðgerðum stóð), sbr. „Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum (7. grein). Væntanlega hafa fuglaungar drepist þarna, en í 21. grein um aflífun kemur fram að „Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.“ Ljóst er að ekki hefur verið farið eftir þessu.

Í 17. grein laga um náttúruvernd (nr. 60/2013) varðandi réttindi og skyldur almennings kemur fram að „Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði“ (sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013060.html). Hvaða sérstaka aðgát var viðhöfð er varplönd fugla voru plægð upp við Húsavík á varptíma?

Það má því spyrja sig: Voru lög brotin við þessar aðfarir Yggdrasill Carbon í sumar? Ef ekki, er ljóst að löggjöfin okkar varðandi náttúruvernd og dýravelferð eru allt of vanmáttug til að koma í veg fyrir náttúruspjöll og dýraníð!
Langstærsta náttúruverndarmál samtímans er varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni. Einhverra hluta vegna hefur umræðan í samfélaginu einblínt á nauðsyn þess að koma í veg fyrir hamfarahlýnun með loftlagsaðgerðum. Það er auðvitað mikilvægt, en fólk virðist gleyma því að þær aðgerðir eru einmitt m.a. TIL ÞESS AÐ VARÐVEITA LÍFFRÆÐILEGA FJÖLBREYTNI. Að fórna friðuðum tegundum og vistgerðum sem ber að vernda í nafni loftslagsaðgerða er því svo sannarlega að fleygja barninu út með baðvatninu. Vissulega verðum við að grípa til loftslagsaðgerða en við það verður að vanda til verka og fara leiðir sem eyðileggja ekki meira en þær bjarga.

 

Vel heppnuð ganga í Friðlandi fugla í Flóa

5. júní mættu 10 manns til að upplifa Friðland fugla í Flóa. Anna María Lind leiddi hópinn og urmull fugla voru mættir. Surr í næsta ósýnilegum lóuþrælum heyrðust á víð og dreif. Lómar heilsuðust, kvöddust, kvökuðu, görguðu og góluðu eins og lómar gera best. Álftahjón ákváðu að taka ungahópinn sinn á land og örkuðu norðar í mýrina. Smyrill eltist við lóuþræl en náði ekki bráðinni og varð að sitja eftir svangur. Óðinshanar léku við hvern sinn fingur ef svo mætti segja og voru á öðru hverju dæli (tjörn). Æðarfugl sást með unga á dæli og aðrar andartegundir flugu hjá eða voru í slag í eintómum vorfögnuði.  Stör var byrjuð að spretta svo sem önnur grös. Það var norðan garri, 12 – 16 m/sek í upphaf göngu, en léttskýjað  og fuglaskoðendur voru allir vel búnir og allir á stígvélum nema einn, en þannig er það oftast að minnst einn verður votur í fæturna eftir gönguna.  Hvort sem fólk var í stígvélum eða votum skóm þá var samhugur um að þetta hefði verið frábær ganga og upplifun mikil. Vindinn lægði er leið á gönguna en lofthiti var nær tíu gráðum og það var gott að safnast saman í lok göngu á pallinum í skjóli fuglaskoðunarhússins.

Næsta ganga verður 27. júní og leiðsögumaður verðu Ísak Ólafssonn líffræðingur.

Ársskýrsla Fuglaverndar — innsýn í starf félagsins

Ársskýrsla Fuglaverndar var flutt á aðalfundi 4. apríl s.l. Fjallað er um starfsemi félagsins, fjárhag, eignir, mannauð og ríkulegt starf félagsins og samstarf við félög og stofnanir innan- og utanlands.

Fuglavernd eru óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök, sem stofnuð voru 1963. Í árdaga félagsins var áhersla lögð á verndun arnarins en í dag er tilgangur félagsins verndun fugla og búsvæða þeirra, með áherslu á tegundir í hættuflokkum á íslenskum eða alþjóðlegum válistum, auk tegunda sem teljast til ábyrgðartegunda Íslands eða eru lykiltegundir. Starfsemi félagsins einskorðast þó ekki við þessa hópa og eru engar fuglategundir eða -búsvæði undanskilin. Félagið leggur áherslu á fagleg vinnubrögð og hefur í starfi sínu ávallt hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og alla alþjóðlega samninga á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða skipta máli fyrir fuglafánu landsins.

Til að ná markmiðum sínum hefur félagið lagt áherslu á eftirfarandi atriði í starfsemi sinni:
● Fræðsla til almennings um fuglalíf landsins og hættur sem að því steðja.
● Samstarf við innlend og erlend fugla- og náttúruverndarsamtök og stofnanir, sem hafa svipuð
markmið og Fuglavernd.
● Rannsóknir á fuglum og búsvæðum þeirra.
● Aðhald gagnvart stjórnvöldum landsins og öðrum aðilum í þeim málum sem lúta að markmiðum
félagsins.
● Beinar aðgerðir í samræmi við markmið Fuglaverndar.
● Umsjón með mikilvægum fuglasvæðum sem félagið á beina aðild að, ýmist með sérstökum
samningum eða eignarhaldi.
● Efling félagsins, meðal annars með fjáröflun og fjölgun félaga.

Félagar og aðrir velunnarar Fuglaverndar eru hvattir til að lesa skýrsluna og kynna sér starf félagsins.

 

Vorverk í Vatnsmýrinni 2024 undir bláhimni

Laugardaginn 6. apríl mættu hinir frábæru sjálfboðaliðar Fuglaverndar í Vatnsmýrina í Reykjavík og tóku til hendinni.  Menn sammæltust um að minna rusl var þetta vorið í mýrinni en mörg vor og alls engin kóvíd-gríma fannst. Ein líkleg skýring á minna ruslmagni var að lægðir þennan vetur höfðu verið færri svo að minna rusl var á ferðinni.

Sjálboðaliðar Fuglaverndar eru að sönnu ómissandi  og eru allir félagar að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir  þegar við auglýsum eftir sjálboðaliðum.

 

 

 

 

Votlendi og mikilvægi þeirra

Vernd og endurheimt votlendis er eitt af áhersluatriðum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.  Ágústa Helgadóttir líffræðingur og verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi var í viðtali hjá morguvaktinni á Rás 1. Land og skógur er í samstarfi við Fuglavernd um endurheimt votlendis.

Hér má lesa um könnun á  möguleikum í endurheimt landslags- og sjávarheilda sem er samstarfsverkefni Fuglaverndar, Lands og skóga, RSPB og ELSP

Hér má hlusta á viðtalið við Ágústu  sem hefst á 01:26:00

Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00