Mói – vefur um líffræði og vernd mófugla á Íslandi – glæsileg heimasíða og fróðleg

Glæsileg og fróðleg heimasíða Rannsóknarseturs HÍ á Suðurlandi. 

Öll landnotkun hefur í för með sér breytingar á lífsskilyrðum þeirra lífvera sem reiða sig á landið sem á að nýta.  Áhrif landnotkunar á lífverur ráðast af umfangi notkuninnar, lífsháttum tegunda og á hversu stóran hluta stofns breytingar verka. Til að lágmarka neikvæð áhrif landnotkunar á lífbreytileika er mikilvægt að huga að þessum þáttum.
Áhrif landnotkunar á lífverur eru breytileg eftir eðli og umfangi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem Íslendingar eru aðilar að, er sérstök áhersla á að þjóðir viðhafi varúð við uppbyggingu atvinnuvega og innviða sem eru þekktir að því að hafa mikil áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þær gerðir landnotkunar sem þar eru sértaklega tilgreindar eru ræktað land, skógrækt, orkuöflun, flutningskerfi og skipulag þéttbýlis.

Hérlendis er ræktað land umsvifamesta landnotkunin en einnig eru stór svæði nýtt undir byggð og önnur mannvirki, svo sem vegi, sumarhús og raforkumannvirki. Einnig er land í auknum mæli nýtt til skógræktar og undir íþrótta- og útivistarsvæði.

Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi er með fyrirtaks heimasíður þar sem  hugað er að áhrifum nokkurra algengra gerða landnotkunar á íslenska mófugla.

 

Möguleikar á endurheimt búsvæða fiska og fugla á Mýrum og nágrenni

Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega fuglaverndunarfélag Bretlands (RSBP) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu.
Straumvatn í mýri

Verkefnið er framhald verkefnis þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu, auk þess að hafa slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði þeirra. Aftur á móti fundust hrygningarsvæði urriða í einu tilviki skurði, en slíkt þarf að hafa í huga ef endurheimt verður á svæðinu.

Urriði

Nú er hugmyndin að stækka rannsóknarsvæðið svo að þá nái yfir Mýrar, Hnappadal og alla leið að ósi Straumfjarð fyrir neðan Snæfelssnesveg. Svæðið er tilnefnt til Náttúruminjaskrár af Náttúrufræðistofnun vegna búsvæða vað- og vatnafugla. Ásamt aðliggjandi fjörum og grunnsævi er það einnig skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði af BirdLife International. Vötn og lækir á svæðinu eru líklega mikilvæg búsvæði silungs og ála, en áli hefur fækkað mikið í Evrópu og er nú talinn vera í útrýmingarhættu.

Lækir milli vatna

Í verkefninu verða lækir og vatnasvæði sem hafa orðið fyrir áhrif framræslu kortlagaðir með tilliti til búsvæða fiska, sérstaklega urriða og áls. Hindranir verða skrásettar og metið verður hvaða áhrif endurheimt hefur á aðrar lífverur eins og fugla og gróðurfar. Mannfólkið er ekki heldur undanskilið en mikilvægt er að huga að landnýtingu og afstöðu landeigenda til endurheimtar. En ef endurheimt verður á svæðinu er mögulegt að aukin nýting fiskistofna verði í framtíðinni.

Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti í vatnsfalla í Evrópu. Þá aðallega með því að fjarlægða manngerðar hindranir eins og stíflur úr ám og lækjum. Nú er einungis verið að kanna möguleika á endurheimt, en ef gott samstarf og valkostir eru fyrir hendi er mögulegt að vinna verkefnið yfir á framkvæmdastig í samvinnu við landeigendur.

Nánar má lesa um verkefnið á ensku á síðu Open rivers programme

 

Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Veljið hófsemi við rjúpnaveiðar!

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2022 

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2022

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.

Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.

Veiðimenn eru hvattir  til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.

 

Rauðbrystingar á flugi

Fuglaskoðun bætir líðan fólks

Vissuð þið að fuglar og gróður í næsta nágrenni  eykur hamingju fólks?

í Þættinum Samfélagið á rás 1 var umhverfisspjall við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem vildi nefna eitthvað jákvætt á þessum drungalegu tímum neikvæðrar loftslagsskýrslu og stríðs.

Náttúruskoðun og  fuglaskoðun fólks hefur verið rannsökuð og er vísindalega sannað að náttúruskoðun og sérstaklega fuglaskoðun hefur jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og dregur úr þunglyndi.  Fjöldi fugla í þéttbýli eykst með meiri gróðurþekju og hefur það bein áhrif á líðan fólks að vera með meiri gróður og þar af  fleiri fugla í næsta umhverfi.

Hér er hægt að hlusta á umhverfisspjallið

 

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson
Skógarþröstur, stari og gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson.
Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Rjúpnastofninn vaktaður – hvernig fer slíkt fram?

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um framkvæmd rjúpnatalninga og metur aldurshlutföll og holdafar en Umhverfisstofnun safnar gögnum um veiði og sókn. Gögnin eru notuð til að meta stofnstærð, viðkomu og afföll og langtímabreytingar á þessum þáttum.

Á heimasíðu Náttúrfræðistofnunar  er hægt að fræðast um vöktun rjúpnastofnsins.

Í vefverslun Fuglaverndar er hægt að versla jólakort með mynd af rjúpu.

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsatalning helgina 30.- 31. október.

Ágætu gæsaáhugamenn bæði í þéttbýli og strjábýli

Um áratugaskeið hafa gæsir verið talda á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Um helgina, 30. – 31. október 2021 beinast talningar að heiðagæs. Því væri mjög gagnlegt að fá upplýsingar um þær heiðagæsir sem menn verða varir við hér á landi á næstu dögum, hvar þær sáust og eitthvað mat á fjölda þeirra. Þessar upplýsingar verða sendar samstarfsaðilum á Bretlandseyjum sem taka saman árlegar skýrslur um talningarnar, sjá: https://monitoring.wwt.org.uk/our-work/goose-swan-monitoring-programme/reports-newsletter/
Vinsamlega sendið þessar upplýsingar til Svenju Auhage, Náttúrufræðistofnun Íslands):  svenja@ni.is .  Einnig tekur Arnór Þ. Sigfússon hjá Verkís ats@verkis.is  á móti slíkum upplýsingum.

Mik­il fækk­un mó­fugla við vegi

Um­ferð um vegi lands­ins virðist hafa um­tals­verð áhrif á fugla­líf og benda nýj­ar niður­stöður rann­sókn­ar til þess að sum­um teg­und­um mó­fugla fækki um meira en helm­ing við vegi þar sem um­ferðin er frá því að vera lít­il og upp í um 4.000 bíla á sum­ar­dög­um.

Þetta má lesa út úr niður­stöðum rann­sókn­ar eða for­könn­un­ar þriggja höf­unda á áhrif­um um­ferðar á fugla­líf, sem birt er á vef Vega­gerðar­inn­ar og um fjallað í Morg­un­blaðinu í dag. Kannaður var þétt­leiki al­gengra mó­fugla við vegi með mis­mikla um­ferð og vökt­un­ar­gögn­um safnað við vegi á Suður­landi 2011-2018.

„Niður­stöður benda til að veg­ir minnki þétt­leika sumra mó­fugla langt út fyr­ir veg­inn. Flest­ir vaðfugl­arn­ir eru sjald­gæfari nær veg­um og sum­um þeirra fækk­ar meira nær um­ferðarþyngri veg­um,“ seg­ir þar.

Skýrslan: Áhrif umferðar á fuglalíf.pdf

Hvers vegna er lundinn að hverfa?

Stytt úr grein NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Ofveiði fisktegunda, veiðar og mengun eru meðal þátta sem valda álagi á fuglana en loftslagsbreytingar gætu reynst stærsta áskorunin.

“Lundinn er algengasti fugl Íslands” segir dr. Erpur Snær Hansen, stjórnarmaður í Fuglavernd og starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. “Og hann er líka mest veiddur”.

Ásamt dr. Fayet, frönskum vísindamanni við Háskólann í Oxford, vinnur Erpur Snær Hansen að rannsókn hennar við vöktun á fjórum lundabyggðum, tveimur á Íslandi, einni í Wales og einni í Noregi. Frá árinu 2010 hefur dr. Erpur Snær einnig framkvæmt talningar tvisvar á ári, “lundarallið” þar sem hann ferðast tæpa 5.000 km hringinn í kringum landið og heimsækir um 700 merktar lundaholur í 12 lundabyggðum. Talin eru egg og ungar.

Hitastig sjávar umhverfis Ísland stjórnast af langtímasveiflum þar sem hlýskeið og kuldaskeið skiptast á. Frá 1965-1995 ríkti kuldaskeið og núverandi er hlýskeið. Dr. Erpur Snær segir að mælingar á hitastigi að vetri sýni hlýnun um 1°C, sem virðist vera lítið en hefur mikil áhrif á sandsíli. Kenning hans er þessi: “Ef hitastig hækkar um eina gráðu, breytir það vaxtarhraða og getu þeirra til að lifa af veturinn”.

Lundarallið hefur sýnt að 40% lundaunga léttast með tíma, sem er önnur slæm vísbending.

Þegar fullorðnu fuglarnir geta ekki veitt nóg til að fæða sjálfa sig og ungana, þá taka þeir ákvörðun með eðlisávísun sinni; ungarnir svelta.

Dr. Fayet kallaði leit sína “hjartabrjótandi”: “Þú stingur hendinni inn í lundaholuna og þreifar fyrir þér, finnur lítinn bolta á gólfinu, en áttar þig þá á því að hann er kaldur og hreyfir sig ekki”.

Dr. Hansen with a puffin chick pulled out of its burrow. ©Josh Haner – NY Times
Dead puffins taken by hunters that Dr. Hansen encountered on Lundey Island. ©Josh Haner – NY Times
Taking a break while hauling equipment on Iceland’s southeastern coast. ©Josh Haner – NY Times

Greinin í heild í NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)