Hvað eru erfðagjafir?

Erfðagjöf er tiltekin í erfðaskrá og um gerð erfðaskráa gilda Erfðalög nr.8/1962. Allir lögráða einstaklingar mega gera erfðaskrá og geta sett texta um erfðagjöf í erfðaskránna.

Ef þú átt skylduerfingja, maka eða börn, getur þú ráðstafað þriðjungi eigna þinna með erfðaskrá. Ef að þú átt ekki skylduerfingja þá getur þú ráðstafað öllum eignum þínum að eigin vild.

Í löndunum í kringum okkur tíðkast að einstaklingar gefi erfðagjafir til góðgerðarfélaga. Árið 2017 gáfu sem dæmi fjórðungur þeirra sem gerðu erfðaskrá í Bretlandi erfðagjöf. Hjá systursamtökum okkar í Bretlandi hefur í gegnum tíðina verið unnið mikið náttúruverndarstarf fyrir tilstuðlan erfðagjafa. Sjá nánar um erfðagjafir.

Erfðagjafir til góðgerðafélaga eða þeirra félaga sem vinna að almannaheillum eru undanskildar erfðafjárskatti. Erfðafjárskattur er því ekki greiddur af þeim hluta arfs sem gefinn er sem erfðagjöf til góðgerðarmála.

Hvernig gef ég erfðagjöf?

Ef þú vilt gefa Fuglavernd erfðagjöf er mikilvægt að gera erfðaskrá. Þú getur leitað til eigin lögfræðings til þess að gera erfðaskrá en þér er einnig velkomið að snúa þér beint til Fuglaverndar og fá nánari leiðbeiningar um framhaldið.

Á erfðagjöfum er ekkert hámark eða lágmark og þú getur gefið allar eignir sem erfðagjöf s.s. fjármuni, húseignir, hlutabréf eða innbú. Erfðagjöf sem ekki er skilyrt til ákveðins verkefnis nýtist best hverju sinni þar sem þörfin er brýnust. Það getur verið erfitt að uppfylla óskir um skilyrði fyrir erfðagjöf og jafnvel geta slík skilyrði orðið til þess að félag neyðist til að afþakka það að taka við erfðagjöfinni. Því er æskilegast að erfðagjöf sé með sem fæstum skilyrðum eða sértækum óskum um ráðstöfun hennar, því allt er jú breytingum háð. Erfðagjöf er gjöf sem gefur.

Hægt er að óska eftir því að ekki verið gefið upp opinberlega frá hverjum erfðagjöf er en félagið verður alltaf upplýst um frá hverjum erfðagjöfin er komin þegar það verður erfingi.

Erfðagjafir til Fuglaverndar

Fuglavernd hefur í gegnum tíðina verið svo lánsamt að haft tækifæri til að þiggja erfðagjafir.

Árið 2017 ánafnaði Magnús Þorsteinsson félaginu jörðina Njarðvík og hluta Hafnarhólma á Borgarfirði Eystra. Þessi erfðagjöf hefur valdið straumhvörfum í starfsemi Fuglaverndar, nýtt hlutverk félagasamtakanna sem landeigandi á fjölsóttum ferðamannastað skapar mörg tækifæri en felur jafnframt í sér áskoranir.

Fyrir tilstilli erfðagjafar frá Hjálmari R. Bárðarsyni og Else Sörensen árið 2009 var félaginu gert kleift að eignast sitt eigið húsnæði og eiga þar með öruggt skjól fyrir starfsemi sína.

Einnig hafa félaginu borist stakar fjárhæðir í erfðagjafir frá einstaklingum sem vilja ekki láta nafn síns getið. Við kunnum svo sannarlega að meta þann hlýhug.

Minningargjafir

Til að heiðra minningu látinna ástvina má færa félaginu minningargjöf. Minningargjafir eru hvorki með hámarki eða lágmarki. Einfaldasta leiðin til að gefa minningargjöf er að leggja til frjáls framlög en einnig er velkomið að hafa samband við Fuglavernd.