Salt Pans
Páskar í Portúgal

Um 200 fuglategundir og menning á hverju strái

Fuglavernd í samstarfi við SPEA, portúgalska fuglaverndarfélagið, bjóða uppá 11 daga fuglaskoðunarferð með menningarívafi 18.-28. apríl 2019 til Suður-Portúgal.

Takmarkað framboð, 6-12 þátttakendur.

Óviðjafnanlegir fuglar í fallegu landi

Loftslag er hlýtt í Portúgal, landslagið magnað og fjölbreytni fuglalífsins er mikil. Meðal varpfugla eru fuglar með takmarkað útbreiðslu í Evrópu. Meðal búsvæða sem skoðuð verða í þessari vorferð til Suður-Portúgal eru margvísleg votlendi, skógar og graslendi til að sjá eins fjölbreytta fuglafánu og mögulegt er. Hápunktar ferðarinnar eru fuglar eins og völsungur, skassörn, kliðfálki, tröll- og dvergdoðra, sandspjátra, bláhrani og bláskjór, auk þess frábært úrval af Suður-Evrópskum fuglum. Fyrir utan fyrsta flokks fuglaskoðun, getum við lofað góðri sýningu á vorblómum, fullt af sólskini og tækifæri til að upplifa portúgalska menningu og menningararfleifð, þar með talin gæðavín og bragðmikla matargerð.

Gististaðirnir eru aðeins fjórir og aldrei dvalið skemur en tvær nætur. Þeir eru allir í sjarmerandi gömlum þorpum með mikla sögu, sögulega miðbæi og áhugaverða staði svo sem söfn, kirkjur og kastala til að heimsækja ef fólk vill hvíla sig á fuglaskoðun. Vilji þátttakendur dvelja lengur, t.d. í Lissabon á heimleið, þá veitum við aðstoð við það. Við heimsækjum einnig þorpin Mértola og Évora, sjá ferðaáætlun. Sagan er á hverju strái í Portúgal og alls staðar má finna menningu og arfleifð.

Verð

Verð 292.000 + 35.000 aukagjald fyrir einstaklingsherbergi + flug. Innfalið er akstur, matur (morgunverður, nesti í dagsferðum og kvöldmatur -ekki drykkir), gisting í 10 nætur, og síðast en ekki síst leiðsögn íslensks og portúgalsks leiðsögumanns.

Flug

Þátttakendur í ferðinni sjá sjálfir um að bóka flugið sitt, allir hafa mismunandi þarfir fyrir farangursheimildir, sæti o.s.frv. en við mælum með að fljúga út með Icelandair til Gatwick og þaðan með Norwegian til Faro (25.000 grunnverð). Þetta virðist bæði vera með ódýrari og fljótlegustu flugferðunum.

Til baka, Lissabon – Keflavík með Air Portúgal um Gatwick og WOW heim (30.000 grunnverð) eða Air Portúgal um Dublin og með Icelandair heim (31.500 grunnverð).

Miðað er við að þátttakendur verði sóttir á á Faró flugvöll 18. apríl  kl. 19:00 og skilað á Lissabon-flugvöll 28. apríl kl. 07:00 (eða fyrr).

Skráning og staðfestingargjald

Þeir sem eru áhugasamir sendi póst á fuglavernd@fuglavernd.is  – fyrstur kemur, fyrstur fær. Skrifstofa Fuglaverndar mun svo sjá um bókun í ferðina sjálfa gegn 45.000 kr. staðfestingargjaldi. Frekari upplýsingar veitir Jóhann Óli Hilmarsson í síma 567 3540 / johannoli@johannoli.com.

Ferðaáætlun

Dagur 1, fimmtudagur 18. apríl

Flogið til Faró, við komum væntanlega þangað um kvöld. Við reiknum með flugi Icelandair til Gatwick, og Norwegian þaðan til Faró. 7:45-18:45.

Hópurinn sóttur á flugvöllinn í Faró og haldið til Alte, í Algarve hæðunum. Ef birta leyfir, verður fuglaskoðun kringum Alte og þar gætum við séð fyrstu bláskjóina okkar. Kvöldmatur og gisting í Alte.

Dagur 2, föstudagur 19. apríl

Ria Formosa
Ria Formosa

Við munum eyða deginum í Algarve votlendunum. Eftir morgunmat ökum við spölkorn suður á bóginn, til Formosa-ár friðlandsins, til að kanna lón, sjávarfitjar og leirur Quinto do Lago svæðisins. Hér, meðal fjölda af hegrum, vaðfuglum og máfum, litumst við um eftir rindilþvara, kólfönd, flóðhænu og ránþernu. Þarna eru möguleikar á að finna hið einstaka Evrópukamelljón.

Eftir hádegismat ökum við vestur til Salgados lónsins. Hér vonumst við til að finna gott úrval af vatn- og votlendisfuglum: hópa af gargöndum, skeiðöndum, skutulöndum, flæmingjum (Greater Flamingos), flatnefjum, bognefjum, bjúgnefjum, háleggjum og margvíslegum öðrum fuglum.
Kvöldmatur og gisting í Alte.

Gagnlegir tenglar:

Salgados Lagoon
Salgados Lagoon

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/ria-formosa/

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/lagoa-dos-salgados/

Dagur 3, laugardagur 20. apríl

Við ökum austur á bóginn, til Castro Marim friðlandsins, í Guadiana óshólmunum, nærri spænsku landamærunum. Um morguninn skoðum við hin víðáttumiklu votlendi og saltsléttur Castro Marim.

Þar má sjá mikið af vaðfuglum og öðrum votlendisfuglum, þar á meðal hópa af flæmingjum, flatnefjum, bjarthegrum, háleggjum, bjúgnefjum, strandlóum og jarðakönum. Við eigum góða möguleika á að sjá þernutrítil, rán-, dverg- og sandþernur, en einnig kóralmáf. Í þurrari mýrum og graslendi leitum við að ýmsum áhugaverðum fuglum eins og dvergdoðru, tríl, fölsvölung, stúflævirkja og glámsöngvara.

Síðdegis könnum við saltslétturnar við Tavira og litumst um eftir kóral – og bleikmáfum, sem og ýmsum öðrum votlendisfuglum.
Kvöldmatur og gisting í Alte.

Gagnlegir tenglar:

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/castro-marim/

Dagur 4, 21. apríl, páskadagur

Castro Verde
Castro Verde

Við færum okkur um set og ökum norður til Alentejo. Við ökum um Caldeirão hæðirnar og svipumst um eftir haukörnum og snákernum. Við æjum við Vascão ána og leitum að litskrúðugum og skrautlegum fuglum eins og herfugli, býsvelg, bláhrana, ljásvölungi, bláþyrli, bláskjó, laufglóa og kjarnbít. Þarna er líka aragrúi minni spörfugla: brandsvala, kampa-, óð- og skopsöngvarar, trjásvarri, álmtittlingur og möguleiki á glaumgala.

Síðdegis heimsækjum við Castro Verde, þar sem við gætum séð fyrstu trölldoðrurnar og dvergdoðrur. Trölldoðrurnar eru með alþyngstu fleygu fuglum í heimi, aðeins risadoðran er stærri. Kvöldverður og gisting í Castro Verde.

Gagnlegir tenglar:

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/castro-verde-and-mertola/

Dagur 5, 22. apríl, annar í páskum

Castro Verde
Castro Verde

Við eyðum deginum á steppunum kringum Castro Verde, þar sem yfir 1200 trölldoðrur stunda biðilsleiki innanum blómskrúðið. Fyrir utan trölldoðrurnar, þá fóstra steppurnar eða graslendið gráheiði, kliðfálka, dvergdoðru, sandspjátru, tríl, bláhrana, sand-, sunnu- og kamblævirkja og spánarspör.

Við getum einnig búist við skemmtilegu safni af stórum ránfuglum; gæsa- og kuflgömmum, skass-, gull- og haukörnum og snákernu, sem og svölu- og vatnagleðum. Við Cobres ána svipumst við um eftir hinum sjaldgæfa glaumgala og getum átt von á býsvelg, brandsvölu og skopsöngvara. Kvöldverður og gisting í Castro Verde.

Dagur 6, þriðjudagur 23. apríl

Eftir morgunmat ökum við austur á bóginn til þorpsins Mértola, heillandi miðaldaþorps á bökkum Guadiana árinnar. Kliðfálkar verpa í þorpinu innanum hvítstorka, herfugla, bláþröstunga, bláskjói og steintittlinga. Eftir heimsóknina í þorpið heimsækjum við gamla námu við São Domingos og svipumst um eftir ljásvölungi og jörfadepli.

Mertola
Mertola

Eftir hádegismat höldum við djúpt inní Guadiana dalinn, til Pulo do Loba. Það er sérkennilegt árgljúfur og þar verpa svartstorkar, haukernir, bláþröstungar og jörfadeplar meðal annarra fugla. Kvöldverður og gisting í Castro Verde.

Gagnlegir tenglar:

https://visitmertola.pt/en/

Dagur 7, miðvikudagur, 24. apríl

Um morguninn er síðasta skoðunarferðin til Catro Verde steppunnar. Síðan ökum við norður á bóginn til Ficalho og Adiça-hæðanna og svipumst um eftir skálmerni, snákernu, völsungi og ýmsum öðrum skemmtilegum fuglum.

Síðdegis lítum við til fugla í Lameirões og Ardila árinnar í Moura þar sem við gætum fundið sjálfan dílagaukinn, dvergdoðru, svartstork og ýmsa ránfugla. Kvöldverður og gisting í Moura.

Gagnlegir tenglar:

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/moura-mourao-barrancos/

Dagur 8, 25. apríl, sumardagurinn fyrsti

Við eyðum öllum deginum í Barrancos hæðunum og skógunum nærri spænsku landamærunum. Á þessu afskekkta svæði má búast við gnótt áhugaverðra fugla, þar á meðal: gæsa-, kufl- og skarngamma, gull- og skálmarna, snákernu, trjálævirkja, brandsvölu, bláskjó, óð-, busk-, hjálm- og kampasöngvurum, steinspör og steintittling. Ef lánið leikur við okkur, rekumst við á nokkra svartstorka.

Síðdegis skoðum við steppur Mourão og Alqueva stíflulónið. Þar gætum við rekist á síðustu dvergdoðruna, tríl, kattuglu og síðast en ekki síst hinn leyndardómsfulla dílagauk.  Jafnframt má sjá þar fjölbreyttan hóp votlendisfugla, þar með talin sandþernu.  Kvöldverður og gisting í Moura.

Dagur 9, föstudagur 26. apríl

Evora Temple of Diana
Evora Temple of Diana

Við ökum í átt að Lissabon og á leiðinni heimsækjum við hinn sögufræga bæ Évora, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir hádegisverð tökum við hraðbrautina til Lissabon og heimsækjum Lagoa Pequena, náttúruverndarsvæði í umsjá SPEA. Það litumst við um eftir flóðhænu, rauðhegra, rindilþvara, reyr- og sefsöngvurum og fjölda annarra skemmtilegra fugla. Kvöldverður og gisting í Alcochete.

Gagnlegir tenglar:

https://whc.unesco.org/en/list/361

http://www.cm-sesimbra.pt/lagoapequena/

http://www.cm-evora.pt/en

Dagur 10, laugardagur 27. apríl

Síðasti fuglaskoðunardagurinn er runninn upp. Við notum hann til að skoða hin víðáttumiklu votlendi á óshólmum Tejo (Tagus) árinnar. Þessir óshólmar eru mikilvægasta votlendið í Portúgal og með mikilvægustu óshólmasvæðum Evrópu. Fjölbreytni búsvæða er mikil, leirur, fitjar, flæðiengjar, reyrengi, hrísgrjónaakra, tún og korkskóga.

Á leirum nærri Alcochete dvelja flæmingjar, bjarthegrar, flatnefir, bjúgnefjur, lóurþrælar, stelkar, lyngstelkar, sótstelkar, grá-, sand- og strandlóur, lappajaðrakanar, íslenskir jaðrakanar, spóar, fjöruspóar, veimiltítur, rauðbrystingar og þaraþernur. Eftir að hafa skoðað leirurnar ökum við til Pancas og skoðum korkeikaskóg. Þar má reikna með völsungi, vatnagleðu, skálmerni, snákernu og brúnheiði. Jafnframt herfugli, trjálævirkja, steppusvarra og álmtittlingi.

Eftir hádegisverð skoðum við graslendi og reyrengi Ponta de Erva, þar má finna ýmsa spörfugla sem halda til í graslendi, eins og söng- og sunnulævirkja, gulerlu, hálmsöngvara og korntittling, innanum rauðhegra og þernutrítla. Kvöldverður og gisting í Alcochete.

Gagnlegir tenglar:

http://birdwatching.spea.pt/en/where-to-watch/estuario-do-tejo/

Dagur 11, sunnudagur 28. apríl

Gerum ráð fyrir að ferja mannskapinn á flugvöll snemma dags en ef tími vinnst til verður farið í skoðunarferð til Lissabon.  Þeir sem vilja verða eftir í Lissabon verða ferjaðir þangað.

 

Myndir: Páskar í Portúgal

 

Komdu með

Þeir sem eru áhugasamir sendi póst á fuglavernd@fuglavernd.is  – fyrstur kemur, fyrstur fær. Skrifstofa Fuglaverndar mun svo sjá um bókun í ferðina sjálfa gegn 30.000 kr. staðfestingargjaldi. Frekari upplýsingar veitir Jóhann Óli Hilmarsson í síma 567 3540 / johannoli@johannoli.com.