Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason
Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Til að varpa ljósi á umfang fugladauða í tengslum við netaveiðar á hrognkelsum, Cyclopterus lumpus, við strendur Íslands hefur Fuglavernd hlotið styrk frá RSPB Skotlandi til þriggja ára. Auk þess styrkti sjóður David & Lucile Packard Foundation rannsóknina árið 2016, en það kom til vegna tengsla sem mynduð voru í gegnum Marine Task Force á vegum BirdLife International.

Rannsóknir á fuglameðafla við grásleppuveiðar

Árið 2015 fóru rannsóknarmenn í 12 veiðiferðir á grásleppubátum á mismunandi veiðisvæði við landið og skrásettu fjölda og tegundir fugla sem slæðst höfðu í netin sem meðafli. Árið 2016 var farið í 31 veiðiferð.

Alls voru átta fuglategundir skrásettar en þrjár þeirra, teista Cepphus grylle (sem var algengust), æðarfugl Somateria mollissima og dílaskarfur Phalacrocorax carbo, voru 90% af heildarfjöldanum bæði árin.  Gögnin sem rannsóknarmenn öfluðu voru notuð til að meta tíðni meðafla og heildarmagn, auk áhrifa á viðkomandi tegundir.

Þrátt fyrir að takmörkuð vitneskja um stofnstærð þessara átta sjófuglategunda komi í veg fyrir að hægt sé að meta heildaráhrif veiðanna á einstaka fuglastofna þá voru niðurstöður varðandi teistuna áhyggjuefni. Teistan er bæði lítill stofn og sérlega útsettur fyrir strandveiðum þar sem hún heldur sig við strendur og leitar sjaldan út á rúmsjó.

Til þess að gera þessa rannsókn að veruleika fengum við Landssamband smábátaeiganda í lið með okkur en einnig höfum við fengið að borðinu Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu til skrafs og ráðagerða.  Aðrir hagsmunaaðilar eru ISF (Icelandic Sustainable Fisheries) sem hafa það að markmiði að gera allar fiskveiðar Íslendinga sjálfbærar en ISF var stofnað ári 2012 af fyrirtækjum í veiðum, framleiðslu og sölu íslenskra sjávarafurða. En ISF hefur notað MSC vottunina á fiskveiðar.

Samvinna til fyrirmyndar

MSC, The Marine Stewardship Council, eru alþjóðlega samtök rekin án hagnaðarsjónarmiða og viðfangsefni þeirra eru að takast á við vanda ósjálfbærra fiskveiða og tryggja forða sjávarafurða til framtíðar.  MSC er þannig með vörumerki sem aðeins sjálfbær fiskiðnaður fær að nýta í markaðssetningu.

Í skýrslu MSC um hnattræn áhrif , Global Impacts Report 2016, er fjallað um rannsóknirnar og vísað til þeirra sem fyrirmyndar þar sem tekist hefur að snúa hugsanlegum átökum upp í samvinnu um að minnka fuglameðafla við fiskveiðar.

Tengill á greinina: MSC Global Imapacts Report 2016: Gillnets and guillemots Case Study

Nýjustu fréttir:

17. 03. 2017 Fundur um fuglameðafla við grásleppuveiðar

 

Síðast breytt: 23.03.2017