Grásleppuveiðar og fuglameðafli – leitin að lausnum

Líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu er undir miklum þrýstingi frá ýmsum athöfnum mannsins. Stór hluti af því vandamáli er fuglameðafli en talið er að í Evrópu einni saman týni árlega 200.000 sjófuglar lífinu við fiskveiðar í atvinnuskyni. Þeir koma sem meðafli á króka og í net.

Í Norður-Atlantshafi, frá Nýfundnalandi (Kanada) í vestri til Barentshafs í austri, eru stundaðar veiðar á hrognkelsi (Cyclopterus lumpus). Af þeim þjóðum sem stunda þessar veiðar er meirihluta aflans landað á Íslandi og á Grænlandi. Veiðiflotarnir eru samsettir af smáum bátum sem leggja löng net með stórum möskvum og ná netatrossurnar niður á hafsbotn. Áhersla er lögð á að veiða hrygnu hrognkelsis (kvendýrið), sem nefnist grásleppa, og eru þá hrognin losuð úr hrygnunni en grásleppuhrogn eru eftirsótt sem ódýr tegund af kavíar.

Við grásleppuveiðar kemur mikill fuglameðafli og þær eru veruleg ógn við nokkrar tegundir, bæði sjófugla og sjávarspendýra. Á hverju ári er talið að yfir 8.000 sjófuglar drepist við grásleppuveiðar á Íslandi. Æðarfugl (Somateria mollissima), teista (Cepphus grylle), langvía (Uria aalge), dílaskarfur (Phalacrocorax carbo), toppskarfur (Gulosus aristotelis) og hávella (Clangula hyemalis) eru þær fuglategundir sem helst lenda í grásleppunetum. Af þeim er teista flokkuð sem tegund í hættu á válista fugla og bæði langvía og toppskarfur taldar tegundir í nokkurri hættu.

Árið 2020 hlutu grásleppuveiðar á Íslandi endurnýjun MSC-sjálfbærnivottunar með fjórum skilyrðum sem snéru að fuglameðafla. Það lá þó ekki fyrir nein tæknileg lausn til að koma í veg fyrir að sjófuglar lendi í netum og stendur það í vegi fyrir að leysa þetta vandamál. Í samvinnu við grásleppusjómenn var því farið af stað með rannsóknarverkefni í október 2021 til að prófa nýja tegund af „fljótandi-fuglahræðu“ sem hefur verið nefnd LEB-bauja og hafði gefið góða raun við frumprófanir við Eistland. Með því að setja slíkar baujur við grásleppunet voru bundnar vonir við að fæla fugla frá því að kafa nærri baujunum og lenda í netum. LEB-bauja hefur tvö spjöld með áprentunum sem líkjast augum. Spjöldin eru sveigð, augun á þeim mis stór og virðast við stöðuga hreyfingu baujunnar á haffletinum nálgast það sem á þau horfir. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort væri með þessum baujum hægt að draga úr fuglameðafla án þess að hafa áhrif á árangur grásleppuveiðanna.

Hávelllu kerling glöð í bragði. Ljsm Sveinn Jónsson

Alls tóku 7 grásleppubátar á Norðurlandi þátt í verkefninu og settu LEB-baujur meðfram einni af netatrossunum sem voru lagðar út en aðrar trossur voru hefðbundnar. Róið var 84 sinnum og settar út yfir 930 netatrossur en af þeim voru 61 trossa með tilraunabaujum. Á meðan tilrauninni stóð kom töluvert af fuglum sem meðafli í net (aðallega æðarfugl, langvía og teista) og einnig nokkur sjávarspendýr.

Augnbauja vegna fuglameðafla tilraun
The looming-eyes buoy
Augnbauja – tilraun til varnar fuglameðafla

Því miður sýndu LEB-baujurnar ekki þá niðurstöðu sem búist var við í ljósi frumprófana þessara mótvægisaðgerða sem fóru fram í Eystrasaltinu. Með tilliti til sóknarátaks og umhverfisbreyta þá var ómarktækur munur á meðafla æðarfugla og svartfugla í tilraunanet og þau óbreyttu. Það kom hins vegar í ljós að dýpt neta hafði mikil áhrif á fuglameðafla þar sem meðafli á grynningum var mun meiri en þar sem lagt var út á meira dýpi. Allt að 95% lægri tíðni fuglameðafla var þar sem netin lágu dýpra en dýptin hafði ekki áhrif á grásleppuaflann. Ef teknar væru upp dýptartakmarkanir á grásleppuveiðum væri mögulega hægt að bjarga lífi þúsunda fugla árlega. Slíkar takmarkanir þyrfti þó að aðlaga veiðisvæðum og yrðu að vera í samráði við grásleppuútgerðina.

Við verkefnið safnaðist mikið af rannsóknargögnum og af þeim er hægt að draga ýmsan lærdóm sem getur nýst til framtíðarlausna við að draga úr fuglameðfala. Engin ein mótvægisaðgerð gengur í öllum aðstæðum og því er mikilvægt að halda áfram rannsóknum og prófunum á mismunandi aðferðum. Sem gott dæmi um árangur á þessu sviði er Albatros-starfshópurinn sem tókst að fækka sjófugladauða við fiskveiðar undan ströndum Suður-Afríku um 99% með samstarfi við útgerðir og notkun nokkurra ólíkra mótvægisaðgerða.

Fundartörn um fuglameðafla

Í síðustu viku áttum við fundi með ýmsum aðilum í sjávarútvegi, þar sem helsta umræðuefnið var fuglameðafli á grásleppuveiðum. Við töluðum við fulltrúa frá Hafró, Fiskistofu, Landsambandi smábátaeiganda, Marine Stewardship Council, og Icelandic Sustainable Fisheries. Rory Crawford sem vinnur fyrir BirdLife International og RSPB Scotland tók þátt og Hólmfríður Arnardóttir og Erpur Snær Hansen fyrir hönd félagsins.