Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.

Tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýrinni – Hollvinir tjarnarinnar

Hollvinir tjarnarinnar eru óformlegur hópur sjálfboðaliða á vegum Fuglaverndar sem hafa árlega hittst við Norræna Húsið og tekið til í friðlandi fugla í Vatnsmýrinni. Sjálfboðaliðar hafa týnt rusl á svæðinu og lagt greinar í bakka til að varna landbroti og fleiri verk.   Framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar standa yfir á svæðinu. Markmiðið er að gera svæðið  aðlaðandi varpsvæði fyrir endur og mófugla.

Þessa sömu helgi, 7.-8. apríl er umhverfishátíð í Norræna húsinu,  frá kl. 13-17 báða dagana og verður Fuglavernd einnig með kynningu á félaginu þar.

Friðlandið í Vatnsmýrinni er með Facebooksíðu

Í ár ætlum við að hittast í tiltektina laugardaginn 7. apríl kl. 13-17.

Allir velkomnir.