Veljið hófsemi við rjúpnaveiðar!

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest að veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember – 4. desember í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2022 

Tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu 2022

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar, en stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár.

Fuglavernd hvetur veiðimenn að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum.

Veiðimenn eru hvattir  til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi.

Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.