Harmafrétt: Fallinn er frá Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur

Harmafrétt hefur borist, vinur okkar Skarphéðinn G. Þórisson er allur! Hann fórst ásamt samstarfskonu og flugmanni er flugvélin TF-KLO brotlenti við Sauðahnjúka þann 9. júlí. Tilgangur þessarar ferðar, eins of fjölmargra annarra áður, var að vakta hreindýrastofninn. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Á öræfunum þar eystra, landi sem Skarphéðni var svo kært, mætti hann sinni skapanorn. Sannarlega grimm örlög góðs drengs.

Skarphéðinn fékk snemma áhuga á gangverki náttúrunnar. Á unglingsárum urðu fuglar hugfang hans, en einnig flóran og dýralíf fjörunnar. Þá var alfa og ómega fuglarannsókna hér á landi á Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem dr. Finnur Guðmundsson ríkti og skipulagði öflugt starf fuglaáhugamanna. Skarphéðinn tók virkan þátt í því starfi og þar var hans ævibraut mörkuð, líkt og svo margra annarra sem unnu undir handarjaðri dr. Finns.

Að loknu námi í menntaskóla fór hann í Háskóla Íslands og nam líffræði. Teningunum var kastað þegar hann sem nýútskrifaður líffræðingur árið 1978 var ráðinn til Náttúrufræðistofnunar til að sinna hreindýrarannsóknum vegna fyrirhugaðra virkjana á Austurlandi. Þá var ekki aftur snúið, hreindýrin, náttúran, landið og mannlíf þar eystra heillaði og seiddi hann til sín. Hann fluttist austur 1983 og bjó þar allar götur síðan. Hans aðalvinna til aldamóta var kennsla við Menntaskólann á Egilsstöðum. Honum féll vel það hlutskipti, hafði ánægju af því að kenna og fræða, og sem uppfræðari var hann virtur og elskaður af nemum sínum.

Meðfram kennslu sinnti Skarphéðinn hreindýrarannsóknum og vöktun stofnsins hvíldi reyndar meira og minna á hans herðum allt frá 1978. Með stofnun Náttúrustofu Austurlands 1995 var kominn vettvangur þar eystra fyrir fast athvarf hreindýrarannsókna. Skarphéðinn var sjálfkjörinn fræðimaður í það hlutverk og frá árinu 2000 var hann starfsmaður stofunnar. Það er þyngra en tárum taki að nú svo nærri lokum farsæls ferils og í fylgd þess sem átti að taka við keflinu, skuli höggið ríða! Eftir sitjum við hin ráðvillt og hnípin.

Skarphéðinn var náttúruverndarmaður og talaði fyrir skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Hann var félagi í Fuglavernd frá unglingsárum, en það er félag sem berst fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Hann stýrði um langt skeið Austurlandsdeild Fuglaverndar og sat í stjórn Fuglaverndar er hann lést. Fyrir hönd Fuglaverndar þökkum við Skarphéðni fyrir hans framlag til félagsins í áratugi. Ólafur og Jóhann Óli vilja jafnframt nota tækifærið og þakka fyrir hálfrar aldar vináttu og tryggð. Við vottum Ragnhildi, börnunum og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð, þeirra missir er mestur. Minningin um góðan dreng lifir!

Ólafur K. Nielsen, fyrrum formaður Fuglaverndar
Jóhann Óli Hilmarsson, fyrrum formaður Fuglaverndar
Menja von Schmalensee, formaður Fuglaverndar
Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar