Portúgal: ósar Tagus ánnar í hættu – undirskriftasöfnun

Stjórn Fuglaverndar hefur sent frá sér bréf, bæði til forseta Portúgal og forsætisráðherra þar sem bent er á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Þarna er mikilvægt búsvæði íslenska jaðrakansins (Limosa limosa islandica)

Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport).

Einnig hefur stjórn Fuglaverndar sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni Umhverfis- og auðlindaráðherra bréf um sama efni en þar segir: (Bréfið í heild má finna undir Ályktanir og umsagnir.

Fyrir hönd stjórnar Fuglaverndar vil ég benda á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport). SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Aðstæður eru allar sérkennilegar, svæðið nýtur verndar skv. portúgölskum lögum og er á lista sem Ramsar-svæði, samt sem áður ætla stjórnvöld að knýja þetta fram.

Ósar Tagus-árinnar eru mikilvægasta votlendissvæði í Portúgal. Um 300 þúsund votlendisfuglar fara þar um vor og haust, um 200 þúsund fuglar hafa þar vetursetu og verndargildi þessa svæðis er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Þetta svæði snertir beint fuglaverndarhagsmuni hér á landi þar sem nokkrar af vaðfuglategundum okkar fara þar um vor og haust og íslenskir jaðrakanar hafa þar vetursetu.

SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Sjá nánar á vef þeirra: http://www.spea.pt/en/news/airport-proposal-threatens-one-of-the-most-important-wetlands-in-europe/.

Þá stendur systurfélag okkar í Hollandi fyrir undirskriftasöfnun:

https://www.vogelbescherming.nl/petitie-grutto-lissabon.

Loftslagsgangan í Reykjavík

Hinn 8. september verður Loftslagsgangan gengin í Reykjavík í þriðja sinn og í ár verður baráttugleðin í fyrrirúmi.

Krafa göngunnar er einföld: Að tafarlaust verði gripið til árangursríkra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin verður að draga vagninn og greiða götuna fyrir sjálfbæru samfélagi.

Safnast verður saman fyrir framan Hallgrímskirkju kl. 14 og gengið niður Skólavörðustíg, Laugaveg og Bankastræti að Lækjartorgi, þar sem haldinn verður stuttur kröfufundur.

Við hvetjum alla til að koma og ganga með loftslaginu!

 

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndum Svartá – Skilafrestur 23. október

Húsöndin dvelur á Svartá árið um kring og áin hefur mikla þýðingu fyrir verndun þessarar tegundar. Ljósmynd: Daníel Bergmann.

Verndarfélag Svartár og Suðurár heldur úti síðu á Facebook, Verndum Svartá, en uppi eru áform um Svartárvírkjun, allt að 9,8 Mw virkjun. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar er nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun.

Skilafrestur athugasemda er 23. október 2017. 

Hægt er að gera athugasemdir og koma ábendingum á framfæri við Skipulagsstofnun með því að senda tölvupóst á netfangið: skipulag@skipulag.is eða senda bréf stílað á:

Skipulagsstofnun
b.t. Sigurðar Ásbjörnssonar
Borgartúni 7b
105 Reykjavík

Athugasemdir

Mikilvægt er að sem flestir skili inn athugasemdum, í eigin nafni og ekki aðeins náttúruverndarsamtök.

Hér neðanmáls er hugmynd að athugasemdum sem öllum er heimilt að styðjast við. Aftan við þær er skeytt greinargerð Árna Einarssonar “Svartá og Suðurá í Bárðardal-Greinargerð”, grein Viðars Hreinssonar “Verndun Svartár/Suðurár” og grein Börre Skodvins “Value of Nature”. Vísað er til þessara greina í athugasemdum.

Í þessum hugmyndum eru teknir fyrir nokkrir þættir af mörgum í matsferlinu. Þeir sem vilja geta tekið ákveðna þætti fyrir eða stuðst við skjalið eins og þeim hentar best yfirhöfuð. En auðvitað með sínum eigin tilbrigðum!

Umhverfisáhrif á virkjað svæði Svartár – Hugmyndir að athugasemdum

Búsvæðavernd og tegundavernd

Tvær meginstoðir í stefnu Fuglaverndar eru búsvæðavernd og tegundavernd. Vernd Svartár í Bárðardal fellur í báða flokkana, sjá Verkefnin> Svartá í Bárðardal.

Húsönd, straumönd, gulönd og fálki eru allt fuglategundir á válista. Húsönd og straumönd njóta sérstakrar verndar Viðauka II skv. Bernarsamningnum og eru ábyrgðartegundir okkar Íslendinga.

Ramsarsamningurinn snýr að verndun votlendis, en votlendi sem og eldhraun sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn beri til. Reglugerð 252/1996 kveður á um dvöl manna við hreiður t.d. fálka og röskun þeirra.

Fyrirhugað virkjanasvæði Svartár er innan svæðis sem er í verndarflokki 3. áfanga rammaáætlunar (Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða) en nær út fyrir það svæði ef fyrir valinu verður að plæja niður jarðstreng um 47 km leið yfir heiðar og koma rafmagninu niður í Laxárvirkjun til dreifingar.