Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) – friðuð tegund í hættu

Fuglavernd vill áminna skotveiðimenn um friðun blesgæsar nú meðan gæsaveiðitímabilið stendur yfir eða frá 20. ágúst til 15. mars.

Blesgæs er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og hefur verið frá og með 12. júní 2006 skv. reglugerð 519/2006. Friðun blesgæsar er ótímabundin.

Blesgæs verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Fuglar sem verpa á V-Grænlandi eru sérstök deilitegund (Anser albifrons flavirostris). Vetrarstöðvar þessara fugla eru á Bretlandseyjum og þá aðallega á Írlandi og í Skotlandi.

Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Helstu viðkomustaðir blesgæsa hér á landi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þar dveljast a.m.k. 60% stofnsins samtímis og væntanlega fer allur stofninn um þessi svæði. Þetta eru Andakíll, Ferjubakkaflói–Hólmavað, Borgarfjörður–Löngufjörur og Suðurlandsundirlendi.

Kort 2: Fjöldi og dreifing blesgæsa á S- og V-landi 13.−15. október 2013. Alls sáust 11.091 fuglar.

Válisti fugla, blesgæs í hættu

Á válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman er blesgæs tegund í hættu (EN).

Kynslóðalengd (IUCN): 11,3 ár. Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998–2032.

Þessi stofn var fyrst metinn með sæmilegu öryggi árið 1983 og var þá talinn um 16.500 fuglar. Í kjölfarið var gripið til verndarráðstafana á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum og óx stofninn hratt fram til 1998 í nær 36.000 fugla. Þá tók honum að hnigna meira og minna samfellt til 2015 (<19.000 fuglar) en var metinn 22.000 fuglar árið 2017 (Wildfowl & Wetlands Trust). Fækkunin á þessum 20 árum er því tæp 40%.

Viðmiðunartímabil IUCN fyrir blesgæsir (alla stofna) hefur verið lengt úr 21 ári í 34 ár vegna þess að nú er notað annað kynslóðabil. Þetta þýðir að grænlenska blesgæsin telst strangt til tekið ekki í hættu, eins undarlega og það kann að virðast. Ef fækkun sú sem hófst árið 1998 heldur áfram með sama hraða og sem svarar þremur kynslóðum (1998–2032) leiðir það til 56% fækkunar eða 2,44% á ári. Samkvæmt því telst blesgæsin í hættu (EN, A4a) og er miðað við það hér.

Sjá nánar á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

 

Greining blesgæsar

Í kjölfar friðunar blesgæsa 2006 var gefinn út bæklingur til að auðvelda skotveiðimönnum greiningu blesgæsa. Bæklingurinn er í fullu gildi og hann má finna á vef Umhverfisstofnunar: Friðun blesæsar, upplýsingar fyrir skotveiðimenn.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann

 

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Teista friðuð fyrir skotveiðum

Teista. Ljósmynd: ©Sindri Skúlason

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.

Í júní sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi. Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september2017. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með síðari breytingum.

Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.

Í býgerð eru fleiri áskoranir á ráðherra, byggðar á skýrslu Starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna, Greinargerð og tillögur starfshópsins, en skýrslunni var skilað árið 2011. Starfshópinn skipuðu: Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Menja von Schmalensee, Sigurður Á. Þráinsson, Steinar R. B. Baldursson, Sæunn Marinósdóttir.

Þar segir m.a.:

„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“

Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.

Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Frá vinstri: Sigurður Þráinsson sérfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar, Björt Ólafsdóttir Umhverfis- og auðlindaráðherra, Indriði R. Grétarsson formaður Skotvís og Ingibjörg Svala Jónsdóttir formaður Vistfræðifélags Íslands.

Áskorun til umhverfisráðherra um friðun teistu (Cepphus grylle)

Föstudaginn 16. júní áttu fulltrúar Fuglaverndar, Vistfræðifélags Íslands og Skotvís fund með Björt Ólafsdóttur Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Á fundinum var henni afhent sameiginleg Áskorun til Umhverfis- og auðlindaráðherra um friðun teistu (Ceppus grylle).pdf sem lesa má í heild sinni hér. Fundarmenn fengu jákvæð viðbrögð frá ráðherra á fundinum.

Skv. lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og spendýra hefur ráðherra yfirumsjón með aðgerðum er varða friðun á villtum dýrum. Nú má skv. reglugerð 34/2012 veiða teistuna frá 1. september til 25. apríl ár hvert. Sama reglugerð heimilar einnig veiðar á öðrum tegundum svartfugla: Álku, stuttnefju, langvíu og lunda.

Teista (Cepphus grylle)

Teista er svartfugl. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. T.d. hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959 en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda.

Teista verpir tveimur eggjum, liggur á í 29-30 daga og ungatími eru 40 dagar. Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó.
Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum.

Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Snemma vors 2016 var gerð úttekt á sjálfbærni bæði skotveiða á teistu og meðafla í grásleppunetum (sem og annarra veiðitegunda fugla) og var miðað við lægri tölu meðafla. Niðurstaðan er að núverandi veiðar eru að meðaltali 7,4 sinnum hærri en sjálfbærnimörk stofnsins leyfa samkvæmt PBR aðferðinni.

Hafrannsóknastofnun mat að árlegur meðafli teista í grásleppunet (um 2.000 fuglar) væri ósjálfbær veiði samkvæmt PBR aðferðinni.

Teista hentar illa sem veiðitegund vegna hægrar viðkomu,en fyrst og fremst vegna lítillar stofnstærðar hérlendis. Þessi tegund hefur í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og hefur ekki veriðsérstaklega sóst eftir henni.