Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Teista friðuð fyrir skotveiðum

Teista. Ljósmynd: ©Sindri Skúlason

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.

Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.

Í júní sl. barst ráðherra áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis sem fer minnkandi. Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni.

Friðunin tekur gildi 1. september2017. Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, með síðari breytingum.

Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.

Í býgerð eru fleiri áskoranir á ráðherra, byggðar á skýrslu Starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna, Greinargerð og tillögur starfshópsins, en skýrslunni var skilað árið 2011. Starfshópinn skipuðu: Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Menja von Schmalensee, Sigurður Á. Þráinsson, Steinar R. B. Baldursson, Sæunn Marinósdóttir.

Þar segir m.a.:

„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“

Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.

Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson
Teistur. Ljósmynd: ©Sveinn Jónsson

Hvernig á að greina blesgæs? – Gæsaveiðitímabilið er hafið

Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hófust sunnudaginn 20. ágúst.Þann 1. september hefst veiðitímabil anda, en á vef Umhverfisstofnunar má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Greining blesgæsar

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Hrun í stofninum ástæða friðunar

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar

© Ljósmynd: Blesgæs. Jóhann Óli Hilmarsson