Álftir, með unga á bakinu

Fuglavernd mótmælir þingsályktunartillögu um leyfi til veiða á álftum og gæsum

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, 312/151 þáltill.: leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma

Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir. 

Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.  

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er bent á að líklega sé álftin skotin ólöglega en rannsóknir í Bretlandi þar sem álftir voru gegnumlýstar sýndu að um 13% íslenskra álfta væru með blýhögl í líkamanum. Sjá: https://fuglavernd.is/2019/10/11/alftir-eru-skotnar-a-islandi-og-thad-er-ologlegt/ 

Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.

Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að

bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.

Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.

Sjá bréf sent nefndasviði Alþingis í heild sinni undir Ályktanir og umsagnir

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Tegundavernd: Gæsir

Við höfum tekið saman efni um gæsir undir flokknum tegundavernd.

Gæsir eru meðalstórir fuglar, talsvert stærri en endur, hálslengri og háfættari. Þorri gæsa sem hefur viðkomu hér á landi er mjög norðlægur, það er að segja fljúga langt norður á auðnir heimskautssvæðanna til varps. Áður náðu varpsvæði þessara norðlægu gæsa mun sunnar en vegna ágangs manna, aukins veiðiálags og röskunar búsvæða hafa þau færst norðar.

Á haustin safnast gæsir saman í stóra hópa og hefja farflug suður á hlýrri svæði. Með oddafluginu draga gæsirnar úr loftmótstöðu á löngu flugi sínu yfir höf og lönd.

Hér á landi má finna 5 gæsategundir, blesgæs, grágæs, heiðagæs, helsingja og margæs. Blesgæs og margæs eru alfriðaðar en veiðitímabil er í gildi fyrir grágæs, heiðagæs og helsingja.

Lesa meira: Tegundavernd>Gæsir

Hvernig á að greina blesgæs? – Gæsaveiðitímabilið er hafið

Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hófust sunnudaginn 20. ágúst.Þann 1. september hefst veiðitímabil anda, en á vef Umhverfisstofnunar má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Greining blesgæsar

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Hrun í stofninum ástæða friðunar

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar

© Ljósmynd: Blesgæs. Jóhann Óli Hilmarsson