Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun í Grunnafirði

Sanderla. © Ljósmynd: Yann Kolbeinsson

Laugardaginn 9. maí er Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori. Af því tilefni verður boðið uppá fuglaskoðun í Grunnafirði, sem er eitt af sex Ramsarsvæðum á Íslandi, leiðsögumaður verður náttúrfræðingurinn Einar Þorleifsson.

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Stærð friðlýsta svæðisins er 1393,2 hektarar.

Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.

Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda einnig æðarfuglar til.  Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Í fuglatalningum hefur orðið vart við nokkrar tegundir á válista s.s. brandönd, branduglu, grágæs, hrafn og svartbak en einnig er vitað að á svæðinu verpir hafarnarpar. Aðrar algengar fuglategundir á svæðinu eru m.a. dílaskarfar, toppendur, heiðlóur, jaðrakanar, sílamáfar, hvítmáfar og hettumáfar en einnig hafa fálkar og smyrlar sést.

Þeir sem ætla sér að njóta leiðsagnar í fuglaskoðuninni, koma sér sjálfir á staðinn. Við hittumst við Laxárbakka (sem er veitingastaður í Melasveit klukkan 9, þaðan verður stefnan tekin á skoðunarstað/i og gera má ráð fyrir að fuglaskoðunin taki um 1 klukkustund.

Nauðsynlegt er að vera vel skóaður og tilvalið að hafa meðferðis sjónauka, fuglahandbók og nesti til að maula.

Fuglaskoðun við Garðskagavita

Ljósmynd: Háleggur ©Sölvi Rúnar Vignisson

Laugardaginn 11. maí er Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori. Að því tilefni efnir Fuglavernd til fuglaskoðunar við Garðskagavita kl. 14:00. Trausti Gunnarsson ritari Fuglaverndar og leiðsögumaður verður þar með fjarsjá, leiðbeinir um fugla sem hægt er að sjá og um staði í nágrenninu þar sem hægt er að skoða fugla.

Alþjóðlegi farfugladagurinn í ár leggur áherslu á plastmengun í sjó og hvernig við getum verið hluti af lausninni. Sjá nánar á: https://www.worldmigratorybirdday.org/

Öflugur sjónauki er á Garðskaga þar sem skoða má sjófugla að veiðum og hvali í Garðsjónum.

Veitingahúsið Röstin er til húsa í Byggðasafninu og er opið árið um kring.

Þátttakendur koma sér á eigin vegum á staðinn og eru allir velkomnir.