Tveir auðnutittlingar. @Eyþór Ingi Jónsson

Auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra!

Spennand magnast í keppninni um Fugl ársins 2021 en nú eru auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra. Guðni Sighvatsson  tók að sér að hvetja auðnutittling til dáða í keppninni og er  auðnutittlingurinn komin með síðu á Instagram. Guðni segist vilja vera talsmaður auðnutittlings í keppninni í þakklætisskyni við auðnutittlinginn sem gleður hann og aðra Laugvetninga með návist sinni árið um kring.

Lundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sunna Dís Kristjánsdóttir kennari tilnefndi lunda í keppnina Fugl ársins 2021 ásamt 34 lundaelskum krökkum í bekknum hennar í Engidalsskóla í Hafnarfirði og er nú orðin kosningastjóri lundans. Hún hefur sett upp síðu á Facebook fyrir lundann þar sem hann er dásamaður fyrir fegurð sína og hæfileika og m.a. birtar fallegar myndir og teikningar af lundum frá krökkunum.

Fuglavernd býður Guðna og Sunnu Dís og krakkana í Engidallskóla velkomin í hóp kosningastjóra í Fugli ársins 2021 óskar þeim auðnutittlingi og lunda velfarnaðar í keppninni.

Grágæsin var áður komin með kosningastjóra en enn eru lausar stöður 17 fugla sem keppa um titilinn Fugl ársins 2021 og hvetur Fuglavernd áhugasama á öllum aldri til að kynna sér málið og sækja um fyrir sína fugla. Nánari upplýsingar um keppnina og hvernig sótt er um stöðu kosningastjóra má finna á vefsíðu keppninnar Fugl ársins 2021.