Birkifræ eftir sumarið 2023

Eins og allir fuglavinir vita, þá eru birkifræ ein aðalfæða auðnutittlinga sem nú sækja í sólblómafræ í görðum þeirra er fóðra fugla. Fuglavernd hafði samband við Skógrækt Reykjavíkur og spurðist fyrir um hvernig stæði á því að það væri svo lítið af birkifræjum eftir sumarið 2023. Gústaf Jarl Víðarsson svaraði eftirfarandi:

“Sammála að það er ekki gott fræár hjá birki og fleiri trjátegundum. Ég hef heyrt að það sé svolítið af birkifræi á Vestfjörðum, en held að það sé lítið um það annars staðar.
Ég tel að ástæðan sé veðrið í vor, þar sem bar töluvert á trjáskemmdum á lauftrjám sem voru byrjuð að laufgast en fóru í illa í kaldri SV-átt sem var ríkjandi þegar kom fram á vor, en trén voru komin nokkuð af stað í apríl og farin að laufgast. Þá voru laufin svört og veðurbarin á mörgum lauftrjám og það hefur verið umtalsvert áfall fyrir þau. Trén náðu að laufgast aftur, en þetta hefur kostað þau talverða orku og hafa trén því ekki átt fyrir fræmyndun.

Síðastliðin ár hafa birkiþéla og birkikemba verið áberandi í birki og mætti kalla það faraldra sem hafa geisað í skógunum að vori og hausti. Þessi faraldrar hafa gert það að verkum að trén missa af ljóstillífun, ný laufblöð þurfa að vaxa og eiga þá ekki inni nægilega orku til þess að mynda fræ eins og þau gerðu annars. Vonandi minnkar það vandamál með sníkjuvespu sem nam land í sumar. Sjá; Náttúrulegur óvinur birkiþélu finnst á Íslandi | Skógræktin (skogur.is)

Ég gæti trúað að það verði ágætis fræár á næsta ári, þar sem sumarið varð síðan hlýtt og haustið langt.”

 

Fuglavernd þakkar Gústafi Jarli fyrir svarið.