Hvar eru smáfuglarnir!

Margir hafa veitt því athygli hversu lítið hefur sést af smáfuglum í görðum það sem af er vetri. Þetta á sérstaklega við þá sem fóðra fugla. Fólk hér á Suðurlandi og víðar hefur varla séð auðnutittlinga í vetur og veturinn á undan. Nú hafa snjótittlingarnir einnig brugðist, þrátt fyrir tíð sem að öllu jöfnu hefði átt að fylkja þeim í garða, þar sem er gefið.

Hvað veldur? Því er fljótsvarað, það veit enginn með fullri vissu! Nokkrar tilgátur hafa komið fram um auðnutittlingafæðina. Stofnsveiflur eru þekktar hjá auðnutittlingnum og fleiri smáfuglum eins og hjá glókollinum landnemanum ljúfa. Birkifræ þroskaðist lítið eða ekki haustið 2014, en birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Veturinn síðasti var umhleypingasamur og óhagstæður smáfuglum. Fuglarnir gætu hafa fallið vegna skorts á æti og óhagstæðrar tíðar. Sumir segja að auðnutittlingarnir hafi horfið um miðjan desember 2014. Þeir gætu því jafnvel hafa yfirgefið landið og leitað til Bretlandseyja eftir betra lífi. Síðasta haust, 2015, var fræframleiðsla birkis mjög góð. Samt hafa auðnutittlingar ekki sést að ráði í fóðri það sem af er vetri. Vonandi á stofninn eftir að ná sér á strik á ný. Margir sakna þessa spaka og kvika smávinar, sem lífgar uppá tilveru fólks í svartasta skammdeginu.

Fæðuhættir snjótittlinga eru talsvert öðruvísi en auðnutittlinga, þó þeir séu einnig fræætur. Þeir sækja í grasfræ eins og melfræ, njólafræ og því um líkt. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru forðabúr á veturna. Snjótittlingur er norrænastur allra spörfugla og aðlagaður að kaldri veðráttu. Í hríðarbyljum láta þeir fenna yfir sig og ýfa fiðrið til að halda á sér hita. Veðráttan á því ekki að hafa teljandi áhrif á stofninn. Hvað veldur þá þessum snjótittlingaskorti? Hafa fuglarnir enn nóg æti úti í náttúrunni eða á kornökrum? Er einhver óþekkt óáran í stofninum? Eiga tittlingarnir eftir að koma í fóðrið fljótlega? Um næstu helgi, 9.-10. janúar, verður hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunnar um land allt. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvar, snjótittlingar komi fram í talningunni.

Meðfylgjandi mynd tók Halla Hreggviðsdóttir.

Snjótittlingar

Garðfuglahelgin er framundan

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni 23. – 26. jan. 2015. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á föstudaginn 23. jan., laugardaginn 24. jan., sunnudaginn 25. jan. eða mánudaginn 26. jan. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]