Garðfuglakönnun 2024-2025
dagana 27. október - 26 apríl
Hér eru eyðublöðin
Nokkrar útgáfur eru af eyðublöðunum, svo þú velur hvað þér hentar best hvort sem það er að skrá í tölvu eða prenta út og handskrá. Það er hægt að nota stílabók eða önur blöð til að skrá í daglega svo tekur maður saman vikuna í skráningarblaði.
Garðfuglakönnun vikutalningarblað 2024 -2025 pdf
Garðfuglakönnun eingöngu skráningarblað 2024-2025 pdf
Garðfuglakönnun skráning og leiðbeiningar 2024-2025 pdf
Garðfuglakönnun skráning og leiðbeiningar 2024-2025 docx skjal sem þarf að vista í tölvu sem word
Garðfuglakönnun skráning 2024-2025 xlsx skjal vista í tölvunni hjá sér sem excel
Að loknum athugunartíma má senda niðurstöðu á netfangið gardfugl@gmail.com eða í pósti merkt: Fuglavernd, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík.
Hvað á að gera og hvernig á að telja?
Garðfuglakönnun Fuglaverndar stendur yfir vetrartímann, vanalega frá lokum október og fram í apríl þegar fer að vora. Garðfuglakönnunin hefur verið gerð árlega allt frá 1994.
Tilgangur garðfuglakönnunarinnar er að fá upplýsingar um fuglategundir og fjölda fugla sem halda sig í görðum á Íslandi yfir vetrarmánuðina. Jafnframt er tilgangurinn að hvetja fólk til að líta á fuglalífið í sínu nánasta umhverfi. Það skiptir ekki máli þó fólk byrji aðeins seinna að telja eða hætti fyrr - aðalatriðið er að vera með.
Garðar fóstra víða auðugt lífríki og gegna hlutverki í vistkerfi því sem nær að dafna á byggðu bóli. Meira um fuglagarðinn og hvernig laða má fleiri fugla að garðinum.
Yfir 80 tegundir
Frá því að athuganir hófust, veturinn 1994‒95, hafa verið skráðar 83 tegundir sem er hærri tala en fjöldi reglulegra varpfugla á landinu. Sautján af þessum tegundum hafa sést á hverju ári.
Tegundir sem hafa sést alla vetur frá 1994-2015 í eru auðnutittlingur, grágæs, gráþröstur, heiðlóa, hettumáfur, hettusöngvari, hrafn, hrossagaukur, húsdúfa, músarrindill, rjúpa, skógarþröstur, smyrill, snjótittlingur, stari, stelkur, stokkönd, svartþröstur, tjaldur og þúfutittlingur. Tegundir sem hafa sést ellefu vetur eru fálki, maríuerla og silkitoppa en yfir 80 tegundir hafa sést í görðum þátttakenda.
Athugun - hvað á ég að gera?
Athugendur þurfa að fylgjast með athugunarstaðnum hluta úr degi í hverri viku yfir veturinn, skrá hjá sér tegundir sem sjást og fjölda þeirra. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri.
Hvaða fugla á að telja?
Skráið alla fugla sem nota garðinn á einhvern hátt, t.d. þá sem koma í æti, baða sig, hvíla o.s.frv. Fuglar sem fljúga í gegnum garðinn eins og t.d. smyrill á eftir bráð eða hrafn sem tyllir sér á húsþak skal skrá. Sleppið aftur á móti þeim fuglum sem aðeins eru á flugi yfir.
Skráningaraðferðir
Reynið að telja nokkrum sinnum í hverri viku, en ein vikuleg talning hluta úr degi er þó fullgild. Talningarvika er frá sunnudegi til laugardags, svo tvær helgar falli innan sömu talningarviku. Hámarkstala hvers tímabils er síðan skráð á talningareyðublaðið í lok vikunnar.
Fylgist þú reglulega með fuglum í garðinum þínum er einfaldasta aðferðin að nota vasabók, gera síðan lista yfir tegundir og skrifa niður fjölda fugla í hverri talningu, t.d. á eftirfarandi hátt:
Sun | Mán | Þri | Mið | Fim | Fös | Lau | |
---|---|---|---|---|---|---|---|
Stari | 5 | 2 | 1 | 11 | 0 | 7 | 5 |
Í lok vikunnar setur þú hæstu töluna á eyðublaðið, í þessu tilviki 11. Nauðsynlegt er að telja ávalt sama garð/garða. Talningin er sem sagt ekki bundinn við að þú teljir garðinn þinn út um eldhúsgluggann, þó margir beri sig væntanlega þannig að. Þú getur talið garð fjarri heimili þínu, t.d. við vinnustað.
Þetta þarf ávalt að vera gert á sama hátt, þ.e. stöðluð talning, og lýsing á garðinum/görðunum þarf að koma skýrt fram á eyðublöðunum. Að sjálfsögðu er ekki nauðsynlegt að telja alla daga vikunnar, nóg er að fylgjast með garðinum hluta úr degi einn dag í viku að lágmarki.
Minkum matarsóun, fóðrum smáfuglana
Það er hægt að sporna gegn matarsóun með því að fóðra fugla, hvort sem er í garðinum heima eða á vinnustaðnum. Margt sem fellur til í eldhúsinu og við matseld er fyrirtaks fuglafóður. Lesa meira um fóðrun garðfugla, fuglagarðinn og garðfuglategundir.
©Fuglavernd 2021 | Hverfisgötu 105 | 101 Reykjavík |Opið mán-fim kl. 9-13 | +354 562 0477| fuglavernd@fuglavernd.is