Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Haförninn getur orðið illa úti í vindmyllugörðum

Fuglaverndarfélag Íslands varar við því að vindmyllugarðar verði leyfðir á farleiðum fugla og á búsvæðum hafarna og hvetur til varfærni og vandaðs umhverfismats. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Ólafi K. Nielsen, formanni Fuglaverndarfélagsins, óar við þeim fjölda vindmyllugarða sem nú eru í pípunum.

„Það er eins og eitthvert gullgrafaraæði sé í gangi. Menn hlaupa eins og landafjandar um allt land og reka niður hæla og segja: Hér vil ég byggja!“

Hann segir félagið hvetja til varfærni. Því þurfi vandað umhverfismat.

„Í ljósi þessa höfum við hjá Fuglavernd hvatt stjórnvöld til þess að reyna að afmarka á einhvern máta þau svæði þar sem að vindmyllugarðar kæmu til greina. Ekki að landið allt verði undir.“

Ólafur vill hlífa svæðum sem skilgreind eru sem mikilvæg fuglasvæði, sem hann segir um eitthundrað talsins, en einnig farleiðum farfugla, sem eigi sínar þjóðbrautir á þessum loftvegum.

„Og einn af þessum stöðum er til dæmis Þykkvibærinn,“ segir Ólafur.

Þar hafi þegar risið tvær vindmyllur, áform verið uppi um vindmyllugarð, á svæði þar sem að hans mati ætti ekki að leyfa slík mannvirki.

„Þetta er tugir þúsunda fugla, eða hundruð þúsunda fugla, sem fara um Þykkvabæinn. Stórir fuglar og þungir á flugi, líkt og gæsir, álftir, endur.“

Hann segir stóra fugla berskjaldaða gagnvart vindmyllum og tekur dæmi frá eynni Smøla á vesturströnd Noregs.

„Þar hafa hátt í eitthundrað ernir farist í einum vindmyllugarði síðan hann var reistur fyrir einum fimmtán árum síðan,“ segir Ólafur.

Hann varar við vindmyllum á búsvæðum arnarins hérlendis, eins og Breiðafirði og Mýrum.

„Ef við verðum með vindmyllugarð á slíkum stöðum þá gæti örninn orðið illa úti,“

segir formaður Fuglaverndarfélags Íslands.

Sjá frétt á vef Vísis, myndskeið neðst: Segir haförninn geta orðið illa úti í vindmyllugörðum. 

 

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði og virkjun vindorku

Vegna hugmynda sem uppi eru um virkjun vindorku á Úthéraði sendi Fuglavernd Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bréf þann 14. mars vegna kynningarfundar sem haldinn var þann 15. mars 2018.

Þar segir:

Fuglavernd lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af hugmyndum um vindmyllugarð á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði við Hól á Úthéraði. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að auðugt fuglalíf og vindmyllugarðar fara ekki saman og áhrifin geta verið mjög alvarleg fyrir fugla.

Hólsland og nálæg votlendi á Úthéraði eru á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (VOT-A 3) og er einnig á IBA skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um mikilvæg fuglasvæði (IS 040). Við mótmælum þessum hugmyndum!

Bréf til Sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna kynningar- og umræðufundar um möguleika á virkjun vindorku á Úthéraði. 

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt á Úthéraði (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001) og þær tegundir varpfugla sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru lómur (220 pör), flórgoði (38 pör), grágæs (1.600 pör) og kjói (1.300 pör). Hið sama á við um grágæs á fjaðrafellitíma (7.700 fuglar) og fartíma (7.517 fuglar).

Ysti hluti Úthéraðs, votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá, Húsey, Eylendið í Jökulsárhlíð, ásamt Egilsstaða- og Finnsstaðanesjum utan við Egilsstaði, eru á náttúruminjaskrá. Allt svæðið er á IBA-skrá.

 

Stefnumótunar- og leiðbeiningarit um virkjun vindorku á Íslandi

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

 

Nánar má lesa um Verkefnin > Virkjun vindorku