Silkitoppa

Silkitoppa
Silkitoppa. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Silkitoppa ber fræðiheitið Bombycilla garrulus og er af silkitoppuætt (Bombycillidae).

Fræðiheiti: Bombycilla garrulus.

Ætt: Silkitoppuætt (Bombycillidae).

Einkenni: Auðgreind af stuttu færi þar sem fuglinn er litskrúðugur. Grábleik að lit með topp á höfði. Karlfuglinn er litskrúðugari en kvenfuglinn, svört gríma og kverk einnig svart í stéli og vængjum. Hvít vængbelti, hvítur og gulur litur á endum á handflugfjaðra (lengstu flugfjaðrirnar). Einnig gulur stélendi. Ryðrauðar undirstélþökur. Kvenfuglar og fuglar á fyrsta ári eru dauflitaðri, guli liturinn ekki eins áberandir og ekki hvítir endar á handflugfjöðrum. Skil svarta litarins í kverkinni ekki eins skörp hjá þeim eins og fullorðnum karlfuglum.

Silkitoppur
Silkitoppur. Ljósmynd: Örn Óskarsson.

Búsvæði: Barrskógar, stundum í blönduðum skógum, barrtré og birki. Að vetri heimsækja þær oft garða og limgerði á bújörðum.

Far: Farfugl að hluta á varpstöðvum í Evrópu. Leggst í flakk ef fæðuframboð er lítið á varp- eða vetrarstöðvum.

Varptími: Maílok og í júní.

Fæða: Aðallega skordýr yfir varptímann. Yfir veturinn nærast þær aðallega á ávöxtum, en einnig berjum og brumi. Silkitoppur hafa glatt margan fuglaáhugamanninn á Íslandi þegar þær hafa heimsótt garða þar sem gefin eru epli, en í slíkum görðum hafa þær oft dvalist í nokkurn tíma. Silkitoppur hafa verið árvissir gestir á Íslandi undanfarna vetur en fjöldi þeirra hefur verið misjafn.

Stofnstærð:

EVRÓPA (VARPPÖR) ÍSLAND (VARPPÖR) ÍSLAND VETUR (EINSTAKLINGAR)
130.000-700.000 0 0- hundruð