eBird hvað er nú það?

eBird er frábært vefkerfi fyrir fuglaáhugafólk!

Langar þig að verða hluti af stærsta samfélagi fuglaáhugafólks í heimi? Langar þig að geta á einfaldan hátt haldið utan um allar þínar fuglaathuganir og lista, hvar sem er í heiminum, og jafnframt lagt þitt af mörkum til fuglarannsókna og fuglaverndar? Þá er eBird fyrir þig!

eBird er vefkerfi og app sem þróað var af Cornell háskóla í Bandaríkjunum og gerir fuglaáhugafólki kleift á einfaldan, þægilegan og endurgjaldslausan hátt að skrá og halda utan um allar sínar fuglaathuganir, hvar sem það er í heiminum. Auk þess að auðvelda því að finna nýjar tegundir og nýja staði til að skoða fugla. Á sama tíma leggur fólk sitt af mörkum til að auka skilning og þekkingu vísindamanna á dreifingu fugla í tíma og rúmi, fjölda þeirra og búsvæðanotkun Þessar upplýsingar nýtast einnig vel þegar kemur að verndun fugla. Nánar má skoða og lesa um eBird hér.

Fuglavernd hvetur áhugasama félagsmenn sína eindregið til að kynna sér kerfið og þá möguleika sem það býður upp á en aðgangur að því er ókeypis.

Finna má einfaldar leiðbeiningar um notkun eBird hér og um notkun á eBird Mobile appinu hér

Rétt er að benda á að hægt er að stilla tegundaheiti fuglanna á íslensku í appinu, svo þægilegra gæti það ekki verið. Þetta þarf aðeins að gera einu sinni og er gert með því að fara inn í „Settings“ og velja „Icelandic“ úr listanum undir „Show common names in“. Hér eftir munu tegundaheitin alltaf birtast notandanum á íslensku þegar athuganir er skráðar.