Að taka góða fuglaljósmynd! 7.04.2016

Fuglavernd, Canon og Nýherji efna til viðburðar þann 7. apríl n.k. þar sem öflugir fuglaljósmyndarar munu sýna ljósmyndirnar sínar auk þess sem veitt verður fræðsla um fuglaljósmyndun.

Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar og fuglaljósmyndari mun kynna félagið í stuttu máli og tæpa á siðfræði fuglaljósmyndunar.  Síðan sýna þau Alex Máni, Elma Benediktsdóttir, Finnur Andrésson og Sindri Skúlason myndirnar sínar og segja sögurnar á bak við þær.

Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X og EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Þá verður nýjasta flaggskip Canon ,EOS-1D X Mark II, væntanlega á staðnum!

Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37. Húsið opnar kl. 19:00 þar sem áhugasamir geta skoðað Canon ljósmyndabúnað. Ókeypis er á viðburðinn en nauðsynlegt er að skrá sig (linkur hér).

Ljósmyndina af toppandarkollunni tók Finnur Andrésson.

Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Loftlagsganga 29.nóv.2015

Mánudaginn 30. nóvember hefst loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í París. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með það að markmiði að hlýnun andrúmslofts jarðar haldist innan 2° C.

Alþjóðlegar grasrótarhreyfingar þrýsta á þjóðarleiðtoga um að draga nægilega úr losun til að halda hlýnun jarðar undir 2° C og krefja iðnríkin að standa við það fyrirheit frá 2009 að styrkja þriðjaheimsríki um 100 milljarða dollara á ári frá og með 2020. Annars vegar til að þessi ríki geti aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum vegna breytinga á loftslagi og hins vegar til að gera þeim kleift að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir. Liður í því er Global Climate March sem verður gengin í fjölmörgum borgum um allan heim þann 29. nóvember næstkomandi.

Fuglavernd ætlar að taka þátt og hvetjum við félagsmenn til að mæta á svokallað „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til kröfufundar á Lækjartorgi. 
Frekari upplýsingar um gönguna má finna hér
.

Loftslagsáhrif eru mikil á fugla. BirdLife í samstarfi við Audubon gefur út skýrslu í tilefni af loftlagsráðstefnunni um áhrif loftlagsbreytinga á fuglalíf:  Sjá hér: http://climatechange.birdlife.org/

Við viljum undirstrika þá kröfu að Ísland axli ábyrgð sína í loftslagsmálum og skuldbindi sig í París til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030 – óháð markmiði ESB um 40% samdrátt í losun. Ennfremur beri Íslandi að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 líkt og mörg önnur lönd gera.

Fuglavika í Reykjavík

Reykjavíkurborg – Reykjavík – Iðandi af lífi- og Fuglavernd standa fyrir fuglaviku í Reykjavík dagana 17.-23. október þar sem boðið verður uppá margs konar fræðsluviðburði með það að markmiði að vekja athygli á því fjölskrúðuga fuglalífi sem glæðir borgina árið um kring.

Fuglavikan hefst með málþingi í Norræna húsinu, undir yfirskriftinni Fuglar í borg. Þar verður sagt frá skemmtilegum fuglaskoðunarstöðum í borginni, rætt um búsvæði og vernd og einnig verður rætt um fuglatengt starf með leikskólabörnum.

Þá verður boðið upp á fuglaskoðun á ólíkum stöðum í borginni alla fuglavikuna, þar sem ein þeirra verður á ensku. Einnig er nýr fræðslubæklingur í smíðum um fuglaskoðunarstaði í Reykjavíkurborg og verður bæklingurinn gefinn út bæði á íslensku og ensku.

Málþingið verður haldið laugardaginn 17. október undir yfirskriftinni “Fuglar í borg” og byrjar klukkan 13:00 í Norræna húsinu. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þrjú erindi verða á málþinginu.
Fuglar og búsvæði borgarinnar – Snorri Sigurðsson.
Mínir fuglaskoðunarstaðir –  Elma Rún Benediktsdóttir.
Fuglavinna með börnum – Sigrún Björg Ingþórsdóttir.

Fuglaskoðanir
Laugardaginn 17.okt. Fuglaskoðun – Vatnsmýrin / Tjörnin kl.15:00

Við byrjum á að skoða fugla í Vatnsmýrinni – lagt af stað frá Norræna húsinu beint eftir málþingið kl.15:00. Edward Rickson leiðir gönguna.

Sunnudaginn 18. okt. Fuglaskoðun – Strandfuglar í Skerjafirði kl.15:00
Hist við Skeljanes í Skerjafirði við strætóskýlið. Mikið fuglalíf er á þessum slóðum allan ársins hring. Börn eru sérstaklega boðin velkomin :-). Hópinn leiða þau Ásgerður Einarsdóttir og Snorri Sigurðsson.

Mánudaginn 19. okt. Fuglaskoðun á ensku –  Tjörnin kl.13:00
Hist við Ráðhús Reykjavíkur.

Þriðjudaginn 20. okt. Fuglaskoðun við Elliðavatn
Hist við Elliðavatnsbæinn – kl 16:15. Á haustin og veturna halda ýmsar andategundir sig við vatnið. Einnig verður leitað að skógarfuglum.

Miðvikudaginn 21. okt. Fuglaskoðun – Laugarnes kl.13:00
Hist við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Snorri Sigurðsson leiðir fuglaskoðunina. Laugarnes er heppilegur staður til að horfa yfir sundin og fylgjast með sjófuglum.

Fimmtudaginn 22. okt. Garðfuglar og fóðurgjafir – Grasagarður Reykjavíkur kl.10:00
Fuglafræðsla í Grasagarði Reykjavíkur. Hist við innganginn í garðinn.

Föstudaginn 23. okt. Fuglaskoðun – Elliðaárdalur kl.14:00
Hist við Árbæjarstíflu. Anna María Lind Geirsdóttir leiðir fuglaskoðunina og eru börn boðin hjartanlega velkomin ásamt foreldrum eða kennurum.

 Munum að klæða okkur eftir veðri – og taka sjónauka og jafnvel fuglabók með. 

Hettumáfur. Ljósmynd: Elma Rún Benidiktsdóttir

Dagur íslenskrar náttúru – fuglaskoðun við Bakkatjörn

Miðvikudaginn næstkomandi, 16.september, verður Fuglavernd með fuglaskoðun við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum a.m.k. skoða endur, gæsir og máfa og líklega einhverja vaðfugla. Gaman er að taka með sér fuglabók og sjónauka en að auki verður stór fuglasjónauki með í för.

Mæting klukkan 5 við bílastæðið v. Bakkatjörn. Elma Rún Benediktsdóttir fuglaskoðari með meiru mun leiðbeina við fuglaskoðunina. Svo er bara að klæða sig eftir veðri.
Má einnig sjá á fésbók félagsins.

Elma Rún Benediktsdóttir tók þessa fallegu mynd af hettumáfi.

Álftir og lómar í Friðlandinu í Flóa.

Friðlandið í Flóa – sunnudag

Sunnudaginn 21. júní 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Jóhann Óli Hilmarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson
Skrifað í flokkinn: FréttirFuglafræðslaViðburðir
Kría í Vatnsmýrinni

Fuglaleiðsögn í Vatnsmýrinni 13.júní

Í tilefni af Fundi fólksins verður Elma Rún Benediktstóttir með fuglaleiðsögn um fuglafriðlandið í Vatnsmýrinni laugardaginn 13. júní 2015 frá 16:00-16:45. Farið verður frá andyri Norræna hússins stundvíslega kl. 16:00- en gaman er að taka með sjónauka og fuglabók.

Fundur fólksins er lífleg þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess dagana 11. til 13. júní. Slegið verður upp tjaldbúðum og skemmtilegir kofar setja svip á hátíðarsvæðið. Þar munu hin ýmsu félagasamtök, stofnanir og flokkar vera með starfsemi alla hátíðina. Í bland við líflegar umræður verða tónlistaratriði og fuglaskoðun en hægt verður að kaupa bæði mat og drykk á svæðinu.Sjá dagskrá hér: Fundur fólksins

Ljósmynd af kríu í Vatnsmýrinni, Elma Rún Benediktsdóttir.

 

Ungar í Friðlandinu í Flóa.

Fuglaskoðun í Friðlandinu 14. júní

Sunnudaginn 14. júní 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Örn Óskarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Þetta er þriðja gangan af fimm en stefnt er að því að vera með göngu hvern sunnudag í júní.  Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum eða nær vatnsheldum skól því það er frekar blautt á. Muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.
Ljósmynd Örn Óskarsson.

Fuglaskoðun í Flóa 31. maí 2105

Sunnudaginn 31. maí 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.

Á heimasíðunni okkar má finna frekari upplýsingar um Fuglafriðlandið um gróður og dýralíf með meiru.
Mikilvægt er að vera í stígvélum því það er mjög blautt á og muna eftir sjónaukanum og gaman er að taka með handbók um fugla.
Allir velkomnir en hér má sjá kort af Friðlandinu í Flóa.