Ný stjórn kjörin á aðalfundi

Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.

Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.

Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.

Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur

Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:

Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.

Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.  Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.

Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.

Fjölsóttur aðalfundur Fuglaverndar.

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Ársskýrsla Fuglaverndar 2016

Aðalfundur Fuglaverndar var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2017.

Þar fór formaður félagsins, Jóhann Óli Hilmarsson yfir ársskýrslu fyrir árið 2016 og hana, ásamt eldri ársskýrslum er að finna undir Um Fuglavernd > Ársskýrslur

Á fundinum voru kjörnir tveir nýjir stjórnarmenn, þeir Aron Leví Beck og Trausti Gunnarsson og munu þeir taka sæti í stjórn um leið og tækifæri gefst til þess að kalla hana saman.

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Aðalfundur Fuglaverndar

Aðalfundur og stjórnarkjör

Aðalfundur Fuglaverndar 2017 verður að þessu sinni þriðjudaginn 18. apríl.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar og tillögum að breytingum á samþykktum félagsins 15. febrúar. Í ár eru fjögur sæti laus.

Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annaðhvort ár gengur formaður úr stjórn. Við óskum hér með eftir framboðum í stjórn Fuglaverndar. Framboðum og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti eða bréfleiðis til stjórnar.

Tölvupóstfang formannsins er johannoli@johannoli.com og póstfang félagsins er fuglavernd@fuglavernd.is.

Ljósmyndin er af teistu og er eftir Sindra Skúlason.