Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.  Helsti vorboði okkar er kominn á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska, fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars. 

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu.  Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði og virkjun vindorku

Vegna hugmynda sem uppi eru um virkjun vindorku á Úthéraði sendi Fuglavernd Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bréf þann 14. mars vegna kynningarfundar sem haldinn var þann 15. mars 2018.

Þar segir:

Fuglavernd lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af hugmyndum um vindmyllugarð á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði við Hól á Úthéraði. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að auðugt fuglalíf og vindmyllugarðar fara ekki saman og áhrifin geta verið mjög alvarleg fyrir fugla.

Hólsland og nálæg votlendi á Úthéraði eru á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (VOT-A 3) og er einnig á IBA skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um mikilvæg fuglasvæði (IS 040). Við mótmælum þessum hugmyndum!

Bréf til Sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna kynningar- og umræðufundar um möguleika á virkjun vindorku á Úthéraði. 

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt á Úthéraði (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001) og þær tegundir varpfugla sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru lómur (220 pör), flórgoði (38 pör), grágæs (1.600 pör) og kjói (1.300 pör). Hið sama á við um grágæs á fjaðrafellitíma (7.700 fuglar) og fartíma (7.517 fuglar).

Ysti hluti Úthéraðs, votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá, Húsey, Eylendið í Jökulsárhlíð, ásamt Egilsstaða- og Finnsstaðanesjum utan við Egilsstaði, eru á náttúruminjaskrá. Allt svæðið er á IBA-skrá.

 

Stefnumótunar- og leiðbeiningarit um virkjun vindorku á Íslandi

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

 

Nánar má lesa um Verkefnin > Virkjun vindorku

Ljósmyndasamkeppni CAFF

CAFF, stendur fyrir ljósmyndasamkeppni á starfsvæði sínu á norðurheimskautinu.

Keppninni er skipt í fjóra flokka:

Verðlaun verða veitt í hverjum flokki, en aðalverðlaunin eru ljósmyndaferð til Rovaniemi í Finnlandi í fjórar nætur. Allar nánari upplýsingar eru á https://photocontest.arcticbiodiversity.is/. Skilafrestur er til 1. ágúst 2018.

Heimsókn frá RSPB / BirdLife International

Vikuna 19. – 24. febrúar var hér á landi Mark Day tengiliður okkar, við RSPB og BirdLife International.  Um vinnuheimsókn var að ræða, þar sem RSPB hefur stutt við bakið á Fuglavernd með ýmsum hætti á undanförnum árum og kemur til með að gera áfram eins og fram kemur í þeirra stefnu.

RSPB eru ein rótgrónustu náttúruverndarsamtök Bretlands, stofnuð 1889. Hjá samtökunum starfar fjöldi sjálfboðaliða, verndarsvæði RSPB eru 180 talsins svo að það er heilmikill liðsstyrkur fólginn í því að vera í góðu samstarfi við þessa nágranna okkar.

Auk þess að funda með starfsmönnum og stjórn Fuglaverndar var einnig tækifæri til að hitta fulltrúa frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Votlendissjóðnum, Landgræðslu Ríkisins og fleiri aðilum sem vinna í náttúruvernd á Íslandi. Einn dag vikunnar náðum við að fara út af skrifstofunni og funda, en veðrið var ekki sem ákjósanlegast til ferðalaga þessa vikuna þar sem hver lægðin kom á eftir annari.

Við náðum þó að líta í heimsókn á Friðlandið í Flóa sem við komuna skartaði sínu fegursta í vetrarríki. En skjótt skipast veður í lofti eins og við vitum sem búum á Íslandi og þegar við komum út úr fuglaskoðunarhúsinu var skyggni orðið afar takmarkað og sannkölluð hundslappadrífa. Þessi upplifun þótti alveg mögnuð.

Vetrarríki í Friðlandi í Flóa

skjáskot af myndbandi um garðfugla

Myndband um garðfugla og fóðrun

Undir Verkefnin>Garðfuglar höfum við sett inn myndband um garðfugla og fóðrun þeirra.

Örn Óskarsson, http://ornosk.com/ hélt fræðsluerindi um garðfugla og fóðurgjafir fimmtudagskvöldið 25. janúar 2018. Í erindinu fjallar hann um helstu tegundir garðfugla á Íslandi, fóðurgjafir, vatn, hreinlæti og allt það helsta sem skiptir máli.

Þá viljum við minna á að í vefversluninni okkar finnur þú fuglafóður og fuglahús til styrktar félaginu.

 

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Teista ©Daníel Bergmann

Hagsmunagæsla

Fuglavernd gætir hagsmuna náttúruverndar á opinberum vettvangi, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við önnur félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndar.  Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar hefur verið tengiliður félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar við Umhverfisráðuneyti.

Undir Verkefnin>Hagsmunagæsla má lesa um alla þá snertifleti sem eru við opinbera aðila, í starfshópum, nefndum, ráðum og um athugasemdir sem Fuglavernd sendir frá sér m.a. vegna skipulagsmála.

18. 01.2018 var skipaður fulltrúi frálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar í starfshóp um lagabreytingar 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Árni Finnsson var skipaður.

21. 11.2017 var skipaður fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverdar í starfshóp um bætt umhverfi endurvinnslu, á vegum umhverfisráðherra. Starfhópurinn skal skila tillögum fyrir 1. júní 2018. Hildur Hreinsdóttir var skipuð.

 

Jólakveðja frá Fuglavernd

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Þökkum stuðning og samstarf á árinu sem er að líða.  ---- Season's Greetings with all the best wishes for the New Year. Thank you for your continued support and partnership.
Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Þökkum stuðning og samstarf á árinu sem er að líða. —- Season’s Greetings with all the best wishes for the New Year. Thank you for your continued support and partnership.

Áskorun til fjárlaganefndar Alþingis um náttúrustofur

Stjórn Fuglaverndar harmar niðurskurð á fé til náttúrustofa. Stjórnin skorar á fjárlaganefnd, að auka framlag til stofanna.

Á stofunum eru unnar þýðingarmiklar grunnrannsóknir á lífríki Íslands. Í því sambandi vill stjórn Fuglaverndar benda á mikilvægt hlutverk stofanna við vöktun stofna bjargfugla og lunda. Stofnar nær allra sjófugla sem verpa á Íslandi hafa átt undir högg að sækja og þeir hafa minnkað á undanförnum árum. Rannsóknir og vöktun eru forsenda þess að skilja hvað ráði þessari fækkun og hvernig tryggja megi vernd þessara fugla. Náttúrustofurnar hafa verið leiðandi við rannsóknir á sjófuglum og mikilvægt að geta þeirra á því sviði verði ekki skert!

Það er óforsvaranlegt, nú þegar Íslendingar eru í fararbroddi í alþjóðlegu loftslagssamstarfi eins og Arctic Circle, að skerða rekstur náttúrustofanna.

Fréttatilkynning var send til fjölmiðla og samrit sent nefndarmönnum fjárlaganefndar Alþingis.